Íþrótta- og tómstundaráð Garðabæjar hefur skilað af ser greinargerð um framtíðarskipulag á 2. og. 3. hæð Miðgarðs, sem Hrannar Bragi Eyjólfsson, formaður ÍTG hefur unnið að ásamt ráðinu síðan í ágúst 2022. Miðgarður er alls 18.200 fermetra að flatarmáli, en 2. og 3. hæð hússins eru samtals 1.600 fermetrar hvor hæð, samtals 3.200 fermetrar og því um afar stór rými og mikla möguleika að ræða.
Í samþykktri tillögu bæjarstjórnar var íþrótta- og tómstundaráði uppálagt að eiga samráð við íbúa, frjálsu félögin í bænum, ungmennaráð, öldungaráð og félög eldri borgara varðandi framtíðarskipulag húsnæðisins. Einnig átti ráðið að horfa til þess að mæta sem flestum Garðbæingum, ungum sem öldnum, fötluðum sem ófötluðum og reyna að mæta þörf um keppnismiðaða ástundun og almenna hreyfingu.
Fjölbreyttar, áhugaverðar og skemmtilegar hugmyndir
Garðapósturinn heyrði hljóðið í Hrannari Braga og spurði hann hvaða hugmyndir væru uppi fyrir þetta óráðstafaða rými í Miðgarði, voru þær jafn fjölbreyttar og þær voru margar? ,,Já, íþrótta- og tómstundaráði bárust fjölmargar hugmyndir frá íbúum í gegnum samráðsgátt á netinu og einnig frá félögum í bænum og öðrum þeim sem komu á fund ráðsins. Því var beint til ráðsins að eiga víðtækt samráð við hina ýmsu aðila við vinnu þess. Nefnt hef ég samráðsgátt íbúa en við sendum einnig bréf til félaga í bænum og óskuðum eftir hugmyndum og óskum þeirra. Sum þeirra þáðu fund með íþrótta- og tómstundaráði sem voru einkar fróðlegir og gagnlegir. Einnig boðuðum við ungmennaráð, öldungaráð, starfsmenn af fjölskyldusviði Garðabæjar, Frístundaheimilið Garðahraun og Íþróttasamband fatlaðra á okkar fund og áttum gott samtal og gagnlegar umræður. Öllum þessum aðilum þakka ég gott og gefandi samstarf,” segir Hrannar Bragi og heldur áfram: ,,Þær hugmyndir sem komu fram voru fjölbreyttar, áhugaverðar og skemmtilegar, allt frá leikjasölum fyrir yngstu börnin yfir í gufuböð og tennissali, en þær komu hiklaust að gagni þegar við mótuðum nálgun okkar að því markmiði að sú starfsemi sem verður í rýminu komi til með að þjóna öllum Garðbæingum, ungum sem öldnum, fötluðum sem ófötluðum, afreksfólki og öðru áhugafólki um heilsusamlegt líferni.”
Og þið flokkuðu þessar hugmyndir niður og útilokuðu strax ákveðinn hluta af þeim? ,,Við sáum snemma að hægt var að flokka þær hugmyndir sem bárust ráðinu í þrennt. Í fyrsta lagi fjölnota sali, í öðru lagi sérhæfð rými og svo í þriðja lagi hugmyndir sem passa ekki í rýmið á 2. og 3. hæð Miðgarðs.
Þær hugmyndir sem við töldum ekki passa voru út af fyrir sig góðar, en passa því miður ekki inn í rýmið s.s. vegna lofthæðar eða stærðar þess gólfflatar sem þær krefjast. Það voru hugmyndir eins og skvass-, padel-, tennis og badmintonvellir eða körfuboltasalir, hjóla- brettapallar og skautasvell. Síðan voru hugmyndir sem við töldum ekki passa samkeppnissjónarmiða vegna eins og líkamsræktaraðstaða fyrir almenning eða íþróttavöruverslun. Með þessu er hins vegar ekki loku fyrir það skotið að því verði komið fyrir í íþróttamiðstöðinni í framtíðinni í samstarfi við þar til bæra aðila, s.s. þegar uppbyggingin heldur áfram á svæðinu.”
En það kom fullt af áhugaverðum hugmyndum sem henta vel að ykkar mati fyrir Miðgarð og þá starfsemi sem þar fer fram? ,,Heldur betur. Margar góðar hugmyndir komu frá íbúum, frjálsu félögunum og öðrum þeim sem við áttum samráð með. Í tillögu ÍTG er gert ráð fyrir því að sérhæfð rými fái inni á annarri hæð en fjölnota salir á þriðju hæð. Góðar hugmyndir sem komu frá íbúum og hlutu brautargengi í tillögu ÍTG voru t.a.m. kaffitería eða kaffihús sem getur nýst foreldrum á meðan þau bíða barna sinna sem eru á æfingu í húsinu og einnig námsmönnum sem vilja nýta rýmið sem les- og lærdómsaðstöðu, leikjasalur fyrir yngstu börnin og heilsumiðstöð þar sem rekstur sjálfstætt starfandi aðila getur verið. Þessum hugmyndum komum við fyrir á 2. hæð í tillögu ÍTG. Á þriðju hæð eru fjölnota salir sem nýst geta félögunum í bænum með margvíslegum hætti og einnig glætt hugmyndum íbúanna lífi sem sumar hverjar rúmast vel í þess konar sölum. Þar er um að ræða nokkrar stærðir af sölum og er sérstaklega gert ráð fyrir stærri sölum sem hægt er að skipta upp í smærri einingar. Með því er stefnt að þeir nýtist í fjölbreytta starfsemi og geti nýst í stærri sem minni fundi og samkomur.”
Nú hefur ÍTG skilað af sér greinagerð til bæjarráðs. Hvert verður svo framhaldið? ,,Bæjarráð fjallaði um greinargerðina sl. þriðjudag og hún verður til umfjöllunar í bæjarstjórn sömuleiðis. Það þarf svo að rýna tillöguna betur með hliðsjón af kostnaði og tæknilegum atriðum. Hún verður svo tekin inn í umræðu um fjárhagsætlun 2024-2027.”
Verkefnið gæti farið af stað á næsta ári
Og þegar búið er að komast að niðurstöðu hvað eigi að vera í þessum rýmum, hvenær er þá reiknað með hafist verði handa að innrétta þessa rými? ,,Það ræðst þegar við förum í vinnu við fjárhagsáætlun. Það á eftir að taka afstöðu til í hversu mörgum og stórum áföngum vinnan verður unnin, en ég reikna með að við setjum verkefnið af stað á næsta ári.”
Fundum fyrir miklum áhuga
En samkvæmt þátttöku íbúa í Garðabæ, hvað skal koma í þessi rými, þá ergreinilega mikill áhuga og ánægja á meðal Garðbæinga með Miðgarð? ,,Það sem var ánægjulegast við allt þetta ferli var þessi greinilegi áhugi sem við fundum hjá íbúum, félögunum í bænum og öðrum þeim sem við áttum góða fundi með. Og ekki aðeins hjá þeim, því við fundum einnig vel fyrir áhuganum í spjalli við íbúa og aðra áhugamenn á förnum vegi í bænum. Það brýndi fyrir ráðinu að gera vel og vanda til verka. Íþrótta- og tómstundaráð var vel meðvitað um ábyrgð sína en hafði göfugt markmið fyrir augum. Markmiðið er að Miðgarður verði lifandi samfélagsmiðstöð þar sem Garðbæingar leitast við að auka og varðveita heilbrigði til líkama og sálar,” segir Hrannar að lokum.
Forsíðumynd: Hrannar Bragi Eyjólfsson, bæjarfulltrúi og formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar.