Stjarnan, undir stjórn Jökuls Ingasonar Elísubetarsonar, hefur undanfarna mánuði undirbúið sig af kappi fyrir komandi tímabil í Bestu deild karla í knattspyrnu, en Stjarnan hefur leik í kvöld, mánudaginn 7. apríl, er FH-ingar mæta á Samsungvöllinn og hefst leikurinn kl. 19:15.
Við höfum minna verið að prófa nýja hluti en áður
Töluverðar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum, bæði með komu nýrra leikmanna og þá hafa nokkrir leikmenn yfirgefið liðið eða lagt skóna á hilluna.
En hvað segir Jökull, hvernig hefur undirbúningstímabilið gengið, sáttur og hafið þið verið að leggja áherslur á eitthvað sérstakt framar öðru á undibúningstímabilinu? ,,Undirbúningstímabilið hefur gengið mjög vel. Við breyttum aðeins hvernig við stillum upp æfingum sem ég er mjög ánægður með, höfum æft oftar á morgnana og í hádeginu. Við höfum minna verið að prófa nýja hluti en áður og meira lagt áherslu og unnið í þeim þáttum sem við þekkjum. Við prófuðum samt sem áður nýtt leikkerfi með tveimur senterum sem gekk mjög vel.“
Þetta eru miklar breytingar, meiri breytingar milli ára en ég myndi vilja.
Það hafa verið töluvert miklar breytingar á leikmannahópnum á milli ára, það eru komnir níu nýir leikmenn og sjö hafa kvatt félagið – eru þetta ekki ansi miklar breytingar á milli ára – hefur það áhrif, ertu að móta nýtt lið eða er gott að hrista ve upp í hópnum – hvernig horfir þú á þetta? ,,Þetta eru miklar breytingar, meiri breytingar milli ára en ég myndi vilja. Að auki þeirra sem eru nefndir hér þá fór Helgi Fróði frá okkur um mitt síðasta sumar. Svo er það auðvitað þannig að Henrik er okkar leikmaður og hefur verið inni í öllu sem við höfum gert, Guðmundur Rafn og Alex Þór eru komnir aftur heim en auðvitað hefur margt breyst síðan þeir voru hér síðast. Það felast tækifæri alls staðar og við erum jákvæðir með þetta þó svo að við reynum að passa að leikmannabreytingar milli ára verði ekki of miklar seinna.“

Tækifæri fyrir aðra í hópnum til þess að stíga upp og taka að sér leiðtogahlutverk
En hvernig mun brotthvarf leikmanna eins Óla Vals, Danna Laxdal, Hilmars Árna, Þórarins Inga og Róberts Frosta, hafa áhrif á liðið – eru þetta skörð sem eru vandfyllt eða ertu búinn að dekka þetta nokkuð vel með nýjum leikmönnum? ,,Ég horfi ekki á það þannig að menn fylli skörð þeirra, liðið og hópurinn breytist og þróast. Þessir fimm eru allir ólíkir og einstakir, bæði sem karakterar og sem leikmenn. Við sjáum alltaf á eftir góðum mönnum og þessir eru það vissulega. Eftir liggur tækifæri fyrir aðra í hópnum til þess að stíga upp og taka að sér leiðtogahlutverk og taka að sér stærri hlutverk á vellinum.“
Auðvitað vill maður trúa því að liðið sé orðið sterkara
Ef þú lítur yfir leikmannahópinn og liðið í fyrra og í ár, ertu kominn með sterkara að betra lið fyrir sumarið – þú hefur talað um að þú sért nánast með tvö jafn góð lið? ,,Það er erfitt að bera liðin saman en auðvitað vill maður trúa því að liðið sé orðið sterkara. Það sem ég á við með að vera með 20+ byrjunarliðsmenn er að ég treysti öllum leikmönnum hópsins fullkomlega til þess að byrja alla leiki og verð rólegur sama hvernig liðið er hverju sinni. Það á líka við um leikmenn sem hafa farið á lán. En þarna er engin breyting á, svona hef ég séð og horft á þetta síðustu tvö ár eins og sést hefur með spiltíma ungra og óreyndra manna.“
Ég stend fastur á því að við séum með lið sem á að spila í Evrópukeppni
Stjarnan endaði í fjórða sæti í fyrra og missti af Evrópusæti. Hver eru markmið Stjörnunnar fyrir þetta tímabil? Er Evrópusæti lágmarkið eða stefnið þið á einhverjar medalíur, jafnvel dollur? ,,Markmið okkar liggja í þeim þáttum sem við höfum stjórn á. Við ætlum að verða betri en í fyrra. Við ætlum að þróast sem lið og hópur. Ég stend fastur á því að við séum með lið sem á að spila í Evrópukeppni. Ef allt sem við stefnum að gengur upp þá getum við barist ofarlega í töflunni.“
Við ætlum að mæta inn í mótið með hugrakkt og orkumikið lið
En hvernig er með uppleggið í ár, eiga stuðningsmenn Stjörnunnar eftir að sjá svipaða fótbolta og áherslur hjá Stjörnunni í sumar eins og síðasta sumar eða ertu að breyta leikkerfinu út frá þeim breytingum sem urðu á leikmannahópnum á milli ára? ,,Við ætlum að mæta inn í mótið með hugrakkt og orkumikið lið. Við fyrst og fremst skemmta stuðningsmönnunum okkar og sjálfum okkur. Einnig munum við spila með þeim hætti að fólkið okkar getur verið stolt af og við munum sjá lið sem er tilbúið að fórna sér fyrir hvorn annan.“

Ég hef rosalega trú á hópnum okkar
Hvernig metur þú möguleika Stjörnunnar á að keppa við lið eins og Val, Víking og Breiðablik, sem hafa mjög sterka fjárhagsstöðu eftir góðan árangur í Evrópukeppnum og Valur jú, hefur farið á ,,lóðerí“ til að afla fjármagns?. Eru þessi lið ekki að sækja bestu leikmennina vegna fjárhagslegra yfirburða – hvað hefur Stjarnan á móti? ,,Þessi lið eru mjög sterk og hafa gert mjög vel á síðustu árum. Ég hef rosalega trú á hópnum okkar en til þess að geta barist við þessi lið þá þurfum við fyrst og fremst meiri stöðugleika en við höfum sýnt. „
Hvað þarf svo til að Stjarnan nái sínum markmiðum, hver er lykillinn að árangri fyrir Stjörnuna? ,,Fyrst og fremst stöðugleiki, mikla orku frá stuðningsmönnum og hafa gaman af því sem við erum að gera.“
Verður mjög erfiður leikur
Fyrsti leikurinn í deildinni er í kvöld á móti FH á Samsung-vellinum, hvernig líst þér á þann leik gegn grönnum okkar í Hafnarfirði? ,,Mér líst mjög vel á hann. Það verður mjög erfiður leikur. Margir hafa talað FH-inga niður í vetur og þeir hafa auðvitað misst menn en þeir munu koma sterkir inn í mótið. Þeir hafa frábæran þjálfara í Heimi sem hefur undantekningarlaust komið með lið inn í mót sem er tilbúið og hann er sérfræðingur í að byrja mótið sterkt.“
Mér finnst mjög óþægilegt að tala um þægilega byrjun
Nú eru fyrstu fjórir leikirnir af sex á heimavelli, heima á móti FH, ÍA, ÍBV og Fram og úti á móti Íslandsmeisturum Breiðabliks og nýliðum Aftureldingar. Það eru allir leikir erfiðir, en þetta er nokkuð þæginleg byrjun ef hægt sér að orða það svo þótt Íslandsmeistarar Breiðabliks séu eitt af þessum liðum. Það vita allir að það er mikilvægt að byrja vel, en hvaða kröfur gerir þú um stigafjölda eftir þessa fyrstu sex leiki? ,,Mér finnst mjög óþægilegt að tala um þægilega byrjun. Ég myndi vilja vera með 3 stig eftir fyrsta leik. Af þessum 6 liðum þá höfum við verið að enda ofar en 5 af þeim þannig að við myndum auðvitað vilja vera með sigra gegn þeim.“
Okkur hefur gengið best þegar það er stemmning í stúkunni!
Og við megum ekki gleyma stuðningsmönnum Stjörnunnar – Hversu mikilvægt er fyrir liðið að fá öflugan stuðning frá Garðabæingum á þessu tímabili? ,,Okkur hefur gengið best þegar það er stemmning í stúkunni! Við áttum okkur að til þess að það sé stemmning í stúkunni þá þarf líka að vera stemmning inni á vellinum og við munum skila okkar þar og vonandi búum við til einstaka stemmningu með stuðningsmönnunum í sumar og sjáum fullan Samsung völl á öllum leikjum! Sjáumst á vellinum,“ segir Jökull að lokum.
Nýir leikmenn
Komnir:
Hrafn Guðmundsson frá KR
Þorri Mar Þórisson frá Öster (Svíþjóð)
Samúel Kári Friðjónsson frá Atromitos (Grikklandi)
Benedikt V. Warén frá Vestra
Alex Þór Hauksson frá KR
Andri Rúnar Bjarnason frá Vestra
Aron Dagur Birnuson frá Grindavík
Guðmundur Rafn Ingason frá Fylki
Henrik Máni B. Hilmarsson frá ÍBV (úr láni)
Farnir:
Þorlákur Breki Baxter í ÍBV (lán)
Mathias Rosenörn í FH
Óli Valur Ómarsson í Breiðablik
Róbert Frosti Þorkelsson í GAIS (Svíþjóð)
Daníel Laxdal, hættur
Hilmar Árni Halldórsson, hættur
Þórarinn Ingi Valdimarsson, hættur
Forsíðumynd: Jökull Ingason Eílsubetarson, þjálfari Stjörnunnar