Málefnin urðu undir að þessu sinni

Lárus Guðmundsson, oddviti Miðflokksins, náði ekki inn í bæjarstjórn í sveitarstjórnarkosningunum 11. maí sl. og hann telur það mikil vonbrigði. ,,Við héldum uppi gagnrýnni og málefnalegri kosninga-baráttu sem náði ekki í gegn. Málefnin urðu undir að þessu sinni, það var meiri fókus hjá sumum flokkum á framsetningu og auglýsingaherferðum, málefnin og stefnur voru dálítið í aukahlutverki,” segir hann og bætir við: ,,Ég vil þó nota tækifærið og óska þeim flokkum, sem náðu kjöri, innilega til hamingju. Þó að það sé svekkjandi að fá ekki áheyrn hjá kjósendum, þá er það eftir sem áður, eðli kosninga að einhverjir verði undir,“ segir hann.

En hvað heldurðu að valdi þessu litla fylgi sem flokkurinn fékk? ,,Erfitt að útskýra það, en Miðflokkurinn fékk ekki góðar undirtektir á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir sterka og skýra málefnastöðu. Mögulega vegna Framsóknarbylgjunnar.”

Þú varst í fyrsta skipti að taka þátt í sveitarstjórnarkosningum. Var þetta áhugavert og skemmtilegt? ,,Já, þetta var mjög skemmtileg og áhugaverð lífsreynsla. Fyrir keppnismann eins og mig var þetta hins vegar erfið upplifun að fá ekki meira út úr þessu hvað fylgið varðar.”

Of mikið af innhaldslausu kosningaskrumi

En hvað fannst þér annars um kosningabaráttuna, góð og málefnaleg? ,,Mér fannst lítil pólitík í kosningabaráttunni, of mikið innihaldslaust kosningaskrum og það dugði sumum flokkum.”

Ég hef aldrei séð svona framsetningu á kjörseðli

Miðflokkurinn hefur kært kosningarnar í Garðabæ, en frambjóðendur flokksins í Garðabæ heyrðu strax eftir kosningarnar að einhverjir kjósendur í bænum héldu að Miðflokkurinn væri ekki í framboði í Garðabæ þar sem það hafi ekki fundið Miðflokkinn á kjörseðlinum. Getur það verið að kjósendur í Garðabæ hafi ekki áttað sig á kjörseðlinum sem var þrískiptur (sjá mynd) og heldurðu að það hafi breytt einhverju um lokatölur Miðflokksins? ,,Ég held klárlega að kjörseðilinn hafi gert Miðflokknum erfitt fyrir. Hef aldrei séð svona framsetningu á kjörseðli, en hef þó kosið oft,“ segir Lárus.

Lárus og Miðflokksmenn í Garðabæ voru óánægðir með kjörseðilinn og kærðu kosningarnar.

En þetta hafa vart verið það mörg atkvæði að þau hefðu breytt einhverju fyrir flokkinn í kosningunum? ,,Ég treysti mér ekki til að leggja faglegt mat á það, en það er mikilvægt að kjörseðilinn sé einfaldur,“ segir hann.

Ekki búinn að syngja sitt síðasta í pólitíkinni?

Hvað segir svo Lárus með framhaldið. Sérðu fyrir þér að hlaða batteríin næstu fjögur árin og taka að nýju þátt í kosningunum 2026? ,,Ég efast um það, en hugsa ekki svo langt fram í tímann hvað pólitík varðar. Þó finn ég mig ágætlega á þessum vettvangi. Ég er kannski ekki búinn að syngja mitt síðasta á hinu pólitíska sviði,” segir Lárus og brosir.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar