Mætingar eru bætingar

Vetraræfingar hlaupahóps Stjörnunnar er að fara af stað og eru allir áhugasamir hlauparar, hvort sem þeir eru að stíga sín fyrstu skref á hlaupabrautinni eða búa yfir töluverðri reynslu, velkomnir að bætast í þennan skemmtilega hlaupahóp.

Arnar Pétursson, margfaldur Íslandsmeistari í hlaupum er þjálfari Hlaupahóps Stjörnunnar

Skemmtilegt að skokka með á æfingum

Ár er liðið síðan Arnar Pétursson, margfaldur Íslandsmeistari í hlaupum, tók að sér þjálfun Hlaupahóps Stjörnunnar og hann er spenntur fyrir komandi vetri, en í vetur verður æft fjórum sinnum í viku, tvisvar úti og tvisvar inni. ,,Já, það er rétt, núna hef ég verið að þjálfa hlaupahóp Stjörnunnar í tæpt ár sem hefur verið þvílíkt skemmtilegt. Ég var ekki viss um hvort þetta myndi ganga upp samhliða mínum æfingum en raunin er að þetta hefur komið mjög vel út enda mjög skemmtilegt að skokka með á æfingum,” segir Arnar sem vonast til að nokkrir nýliðar bætast við flottan hóp.

Fjórar sameiginlegar æfingar í viku

,,Við hittumst fjórum sinnum í viku og svo er ein valæfing sem fólk getur gert í sínum eigin tíma ef það er vilji fyrir því að gera meira. Ég þjálfa þrisvar í viku eða alla virka daga. Þá stjórna ég æfingunni og er innan handar ef spurningar vakna. Svo á laugardögum hittist hópurinn sjálfur og tekur saman aðeins lengri hlaup,” segir hann, en dagskráin mun líta svona út í vetur.

Mánudagur 17:30 í Ásgarði – Hlaup

Miðvikudagur 17:30 inni í Miðgarði – Hlaup og styrktaræfingar

Fimmtudagur 19:10 inni í Kaplakrika – Gæðaæfingar

Laugardagar 09:30 í Ásgarði – Lengri hlaup

Myndin er tekin af nokkrum félögum úr hlaupahópi Stjörnunnar sem hlupu yfir Fimmvörðuhálsin í byrjun júlí í sumar, en alls hlupu um 50 manns úr hópnum. F.v. Almar, Siggi, Svanhildur, Kristín (Dóttir Svanhildar), Guðrún Zoega, Bryndís og Sigurborg

Rétt uppbygging

,,Fyrir mér skiptir öllu máli að gera þetta eins rétt og mögulegt er svo við forðumst meiðsli og hámörkum líkur á árangri og vellíðan. Ég hvet fólk til að fara á sínum hraða og því hægar því betra, sérstaklega í rólega skokk-inu. Í hlaupahópnum fá allir aðgang að plani fyrir tvær vikur í senn en þessar æfingar eru settar inn á lokaðan facebook hóp og svo eru búnir til facebook viðburðir til að halda fólki á tánum,” segir Arnar og bætir við: ,,Tímabilið miðar að því að við séum í toppformi í mars og apríl og svo í júlí og ágúst. Þannig veturinn fer í uppbyggingu og passa að við séum örugglega að tikka í öll boxin. Þetta snýst ekki um að keyra sig sem mest út á æfingum heldur eru það þau sem mæta á flestar æfingar sem ná mestum árangri. Mantran ætti að vera: Mætingar eru bætingar. Ég vil að allir læri að njóta þess að hlaupa í staðinn fyrir að þvinga inn hlutina.”

Hlaupahópurinn er fyrir alla, byrjendur og lengra komna

En fyrir hverja er hlaupahópur Stjörnunnar? ,,Ég sé hlaupahóp Stjörnunnar fyrir mér sem vettvang fyrir alla sem vilja njóta góðs af því að hlaupa í hóp og að sama skapi fá handleiðslu frá þjálfara. Einnig er hægt að vera með sér prógram og mæta líka hjá hlaupahópnum þegar það hentar. Í grunninn á hlaupahópurinn að vera fyrir alla, byrjendur og lengra komna. Það þarf ekki að hlaupa sig í form til að geta mætt á æfingar heldur skiptir bara öllu máli að mæta, aftur og aftur. Þá byrja hlutirnir að gerast,” segir Arnar að lokum.
Fyrir áhugsama þá er frjálst að mæta á eina eða tvær æfingar til að prófa og sjá hvort þetta henti en annars fer skráning svo fram á Sportabler.com

Þess má geta að Hlaupahópur Stjörnunar fagnar tíu ára afmæli á næsta ári og þá verður farið í risa ævintýraferð í svissnesku alpana.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar