Mælt er með að koma með börnin í fyrstu heimsókn tveggja ára

Almenn tannheilsa skiptir okkur öll miklu máli enda viljum við öll vera með heilar og fallegar skínandi hvítar tennur. Góð umhirða tanna allt frá unga aldri skiptir því miklu máli svo við getum haldið góðum og heil-brigðum tönnum allt til æviloka, en á undanförnum árum hefur neysla ungmenna á orkudrykkjum með koffíni margfaldast sem getur haft slæmar afleiðingar í för með sér.

Garðapósturinn heyrði hljóðið í Garðbæingnum Brynju Björk Harðardóttur, tannlækni og eiganda tannlæknastofunnar Tannprýði í Hlíðarsmára 19, og spurði hana m.a. um hversu miklu máli tannhirða skiptir allt frá unga aldri, áhrif orkudrykkja á tennurnar og hversu mikilvæg munnheilsa er fyrir aldraða. Þá glímir töluverður fjöldi við tannlæknaótta, en Brynja og starfsfólk Tannprýði sérhæfir sig að taka á móti fólki sem er sérstaklega hrætt við tannlækna.

Bakflæði uppgötvast stundum fyrst í tannlæknastólnum

Við byrjuðum þó á því að spyrja Brynju hvort fólk hugsi almennt vel um tennurnar sínar eða hvort hún merki aukið kæruleysi er kemur að tannhirðu? ,,Fólk hugsar almennt mjög vel um tennurnar og mér finnst hafa orðið mikil vitundarvakning síðustu ár. Kæruleysi er alls ekki um að kenna ef vandamál eru til staðar heldur frekar að fólk veit ekki hversu slæmar afleiðingar ýmsar neysluvenjur geta haft. Eitt af því mikilvægasta sem við tannlæknar sinnum er fræðsla og forvarnir til að fólk geti haldið tönnunum alla ævi. En það er svo margt annað en bara tennurnar sem við erum að fylgjast með. Við skoðum líka bitið og ástand munns. Við skoðum slit tanna og mögulegar sprungur, tannlos, tannstein og ástand tannholds. Slímhúð er einnig skoðuð vel með tilliti til slímhúðarbreytinga sem geta þróast yfir í krabbamein. Margir undirliggjandi sjúkdómar og lyf geta einnig haft neikvæð áhrif í munnholi og því mikilvægt að gefa því gaum. Bakflæði uppgötvast t.d. stundum fyrst í tannlæknastólnum því magasýran veldur glerungseyðingu,” segir Brynja Björk.

Sýrustig orkudrykkja er slæmt fyrir glerung tanna og eyðir honum smátt og smátt

En eru komnar nýjar neysluvörur á markaðinn sem hafa slæm áhrif á tannheilsu fólks, eins og t.d. aukið framboð af orkudrykkjum og sykruðum vörum? ,,Frá árinu 2016 hefur orðið algjör sprenging á markaðnum í framboði á orkudrykkjum sem flestir eru mjög súrir. Það er sýrustig drykkjanna sem er svona slæmt fyrir glerung tanna og eyðir honum smátt og smátt. Þó glerungurinn sé harðasta efni líkamans er hann berskjaldaður þegar hann er látinn liggja í sýrubaði. Glerungur sem hefur eyðst myndast ekki aftur. Tennurnar verða gular, viðkvæmar fyrir kulda og meiri hætta er á tannskemmdum. Margir þessara drykkja eru einnig sykraðir sem er þá annar áhættuþáttur. Þ.e. að fá tannskemmd líka. Svo má ekki gleyma að nefna nikótín-púðana sem síðustu ár hafa tekið við af sígarettum og veipi. Nikótín er gríðarlega ávanabindandi bæði andlega og líkamlega og sorglegt að sjá mörg ungmenni sem hefðu aldrei byrjað að reykja vera orðin háð nikótíni svona ung. Í munninum hafa púðarnir aðallega áhrif á tannhold og geta valdið óafturkræfum skemmdum. Við förum vel yfir þetta með öllu unga fólkinu sem heimsækir okkur.”

Tannlæknastofan Tannprýði er falleg og umhverfið er notalegt og hlýtt

Mikilvægt að velja vörur sem er ekki búið að bæta sykri við

Hvað fer í raun verst með tennurnar okkar? ,,Þetta er samspil af matarvenjum, munnhirðu og hvað það er sem við látum ofan í okkur sem skiptir máli þegar kemur að því að vernda tennurnar. Gott er að hafa í huga að minnka sykurneyslu. Það er ekki bara sælgæti og bakkelsi sem inniheldur sykur heldur líka vörur sem við teljum hollar. Mjólkurvörur, morgunkorn, musli og brauð. Það er mikilvægt að velja vörur sem er ekki búið að bæta sykri við, en það getur verið flókið fyrir marga að finna út úr. Einnig er mikilvægt að reyna að narta ekki milli máltíða. Það er klárlega einn af þeim þáttum sem veldur auknum tannskemmdum,” segir hún og bætir við: ,,Auðvitað má maður nú samt leyfa sér. Sjálfri finnst mér sælgæti og súkkulaði ekkert sérstaklega vont en held því í hófi. Annars mæli ég bara með því að bursta tennur tvisvar á dag með flúortannkremi, nota tannþráð daglega og heimsækja tannlækninn sinn með reglulegu millibili.”

Það er gríðarlega mikilvægt að kenna börnunum góðar munn-hirðuvenjur alveg frá byrjun

Skiptir miklu máli fyrir foreldra að hugsa vel um tannhirðu barnanna sinna, fara með þau til tannlæknis og hvenær á að byrja að koma með þau? ,,Já, það er gríðarlega mikilvægt að kenna börnunum góðar munnhirðuvenjur alveg frá byrjun. Þá er þetta bara hluti af daglegum venjum út lífið og eðlilegt að sinna tönnum eins og öllu öðru. Mælt er með að koma með börnin í fyrstu heimsókn tveggja ára. Fyrsta heimsóknin er alltaf spennandi og við reynum að hafa heimsóknina skemmtilega og á forsendum barnsins. Þá verður þetta aldrei vandamál og flestum börnum finnst skemmtilegt að koma til tannlæknis,” segir Brynja og bendir á að Sjúkratryggingar Íslands greiða fyrir tannlæknaþjónustu barna að 18 ára aldri. ,,Og það er mikilvægt að mæta til okkar reglulega,” segir hún.

Margir glíma við tannlæknaótta

En nú glíma merkilega margir við tannlæknaótta, bæði börn og fullorðnir, það hlýtur að hafa einhver áhrif á tannheilsu viðkomandi, mæta sjaldnar eða bara alls ekki, en þið sérhæfið ykkur í þessu? ,,Tannlæknaótti er mjög algengur og er þekkt vandamál um allan heim. Hann getur haft margskonar myndir. Allt frá smá stressi yfir í svefnleysi, hjartsláttartruflanir, skjálfta, svima, ógleði, kvíðakast ofl. Fyrir suma getur heimsókn til tannlæknis verið svo erfið að viðkomandi forðast þær þar til komið er í óefni og erfitt getur verið að tyggja mat og nærast almennilega.
Við sérhæfum okkur í að meðhöndla fólk með tannlæknahræðslu og höfum ýmis verkfæri til þess.
Við mætum hverjum einstaklingi með hlýju og skilningi og finnum þá leið sem hentar hverjum og einum til að koma munnheilsunni í lag og halda henni þannig. Þetta gefur manni mikið í starfinu.”

Mikilvægt að við eflum forvarnir hjá öldruðum svo fólk haldi tönnunum alla ævi

Og við erum að eldast og það skiptir okkur miklu máli á okkar efri árum að vera með heilbrigðar og góðar tennur, hversu mikilvæg er munnheilsa fyrir aldraða? ,,Við sem þjóð erum að eldast og gríðarlega mikilvægt að við eflum forvarnir hjá öldruðum svo fólk haldi tönnunum alla ævi. Sjúkratryggingar Íslands hafa eflt greiðsluþátttöku undanfarin ár svo það er aðeins lítill hluti sem fólk greiðir sjálft fyrir þjónustuna,” segir Brynja og heldur áfram: ,,Margir eru með krónur, brýr og tannplanta og allt þetta krefst reglulegs eftirlits og viðhalds. Fyrirbyggjandi tannlæknaþjónusta er því mjög mikilvæg en fyrst og fremst munnhirðan heima fyrir. Eldra fólk getur átt erfiðara með að sinna munnhirðu eins vel og áður. Þar komum við sterk inn og kennum fólki og sýnum réttu tólin sem henta hverjum og einum.”

Þorsteinn Scheving Thorsteinsson tannlæknir
Lovísa Þrastardóttir tannlæknir
Brynja Björk Harðardóttir tannlækni

Getur verið flókið að nærast ef tannheilsan er slæm

,,Það getur líka verið flókið að nærast almennilega ef tannheilsan er slæm sem getur þá leitt til frekari heilsufarsvandamála.
Með hækkandi aldri fylgir oft skert munnvatnsframleiðsla sem getur valdið sjúkdómum í munni. Munnvatnið verndar og smyr slímhúð munnsins og verndar tennurnar gegn sýruárásum sem valda tannskemmdum. Einnig geta mörg lyf valdið munnþurrki og því mikilvægt að greina orsakir og setja inn réttar forvarnir.
Með hækkandi aldri er einnig algengt að tannholdið hörfi og afhjúpi ræturnar. Bert tannbein róta þolir minna en glerungur krónuhluta tannanna og þar með eykst hættan enn frekar á tannskemmdum.”

Tennurnar líka mikilvægar fyrir tal og samkipti

En hversu oft þurfum við að mæta til tannlæknis svo vel megi vera og er það misjafnt eftir aldri? ,,Það er ein- staklingsbundið. Einu sinni á ári ef allt er í góðu lagi en tvisvar ef eitthvað er sem þarf að sinna örar t.d. tannhreinsun eða aðrar forvarnir. Tennur eru ekki bara mikilvægar til að tyggja mat og nærast almenilega heldur líka mikilvægar fyrir fyrir tal og samskipti,“ segir Brynja Björk og bætir við að lokum: ,,Ég mæli með að fólk kíki á heimasíðuna okkar því þar má finna ýmiskonar fræðslu og góð ráð.“

Forsíðumynd: Stúlkurnar á Tannprýði. Efri röð f.v. Brynja Björk, Kamilla Björg Kjartansdóttir og Hera Huld Gunnlaugsdóttir. Neðri röð f.v. Sandra Rún Sigurðardóttir, Marta Nowosad og Elín Gunnarsdóttir

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar