Undirbúningsnefnd um uppbyggingu miðbæjar í Garðabæ hefur ákveðið forgangsverkefni fyrir Garðatorg. Markmið starfs nefndarinnar er að vinna að undirbúningi þess að fullgera aðlaðandi og heildstæðan miðbæ á og í kringum Garðatorg. Sigríður Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar fer fyrir nefndinni.
Aðdráttarafl öflugra verslana og þjónustu
„Miðbær Garðabæjar hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum árum og aðdráttarafl öflugra verslana og þjónustu á svæðinu er mikið og hefur skipt sköpum. Þá hafa velheppnaðar hátíðir og menningarstarf einnig glætt Garðatorg og miðbæinn miklu lífi. Við hlökkum til að sjá miðbæinn okkar vaxa og dafna enn frekar og vera ávallt spennandi viðkomustaður bæjarbúa,” segir Sigríður Hulda.
Betri lýsing
Vinnan er þegar hafin, en þak Garðatorgs hefur verið háþrýstiþvegið og málningarvinna er að hefjast á burðarvirkinu. Í desember hefst vinna við að skipta út gluggum og burðarvirki á suðurhlið göngugötunnar.
Samhliða því verður lýsing göngugötunnar endurgerð. Óbein lýsing verður sett upp og LED lýsingarstýring sem hægt er að nýta vel á viðburðum og eftir árstíðum.
Garðtorg hefur notið mikilla vinsælda sem viðburðastaður, en götumarkaðir, listasýningar og auðvitað stærri viðburðir eins og Jazzþorpið og Rökkvan hafa notið sín vel á torginu. Bæjarabúar hafa tekið þessum hátíðum afskaplega vel og haft orð á því hvað hátíðir eins og til dæmis Jazzþorpið geta breytt Garðatorgi mikið. Ný ljósastýring myndi því hafa mikið að segja.
Undibúningsnefnd um uppbyggingu miðbæjar Garðabæjar
Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar í júní 2022 samþykkti bæjarstjórn að skipa undirbúningsnefnd um uppbyggingu miðbæjar í Garðabæ.
Markmið nefndarinnar er að vinna að undirbúningi þess að fullgera aðlaðandi og heildstæðan miðbæ á og í kringum Garðatorg. Nefndin skal m.a. huga að heildarsýn fyrir Garðatorgssvæðið, framkvæmdum og tengingum frá Hofsstöðum auk nærliggjandi svæða, gatna og stíga þar sem markmiðið er aðlaðandi umhverfi og miðbæjarsvæði sem virkar. Þá skoði nefndin hvernig hugmyndasamkeppni geti nýst í þeirri vinnu. Þá kannar og rýnir hún mögulegar áfangaskiptingar framkvæmda og tímaramma. Nefndin leggur áherslu á samráð við helstu hagsmunaaðila á svæðinu.
Eitt það fyrsta sem nefndin gerði var að láta vinna vegvísi fyrir allt torgið þar sem fram komu margar hugmyndir sem eru nú hafðar til hliðsjónar við framkvæmdirnar.
Nefndina skipa:
Sigríður Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar
Pálmi Freyr Randversson
Ósk Sigurðardóttir