Loka þurfti rýmum í Flataskóla og Hofsstaðaskóla – Um 150 efnissýni og DNA/ryksýni tekin í skólunum tveimur

Verkfræðistofan Mannvit hefur unnið að heildarúttektum á skólahúsnæði Hofsstaðaskóla og Flatskóla vegna rakaskemmda.

Fyrstu niðurstöður sýnatöku bárust seinni partinn sl. mánudag og greip Garðabær strax til þess ráðs að loka rýmum i báðum skólum í kjölfarið í gær og í dag, miðvikudag fyrir ákveðnar bekkjadeildir.

Í Flatskóla var fjórum bekkjarstofum lokað, matsalnum og húsnæði leikskóladeildar. Í Hofstaðaskóli var um er að ræða bekkjarstofur, tölvustofu og bókageymslu.

Strax gripið til aðgerða

Bæjaryfirvöld og skólastjórar leggja áherslu á að grípa til aðgerða strax til að tryggja öryggi starfsfólks og nemenda. Forráðamenn og starfsfólk skólanna fengu sendan upplýsingapóst sl. mánudagskvöld vegna málsins. Bæjaryfirvöld bíða nánari upplýsinga úr sýnatökum. Þegar hafa verið tekin tæplega 100 efnissýni og DNA/ryksýni í Flataskóla og rúmlega fimmtíu í Hofsstaðaskóla. Í desember þurfti einnig að grípa til lokanna kennslurýma í báðum skólum og er nú unnið að endurbótum og nánara framkvæmdaplani fyrir skólana.

Næstu skref samkvæmt verklagi Garðabæjar:

• Stofunum sem um ræðir verður lokað með loftþéttri lokun á meðan viðgerðir standa yfir.
• Beðið er eftir endanlegum niðurstöðum sýnatöku og þá verður hægt að leggja heildarmat á ástand bygginga og í kjölfarið ráðast í endurbætur þar sem þörf er á. Ef til þess kemur verður afmörkuðum svæðum lokað með loftþéttri lokun á meðan viðgerðir standa yfir.
• Víðtækar hreingerningar verða framkvæmdar strax eftir lagfæringar ásamt hreinsun loftræstikerfis
• Að lokum mun Mannvit sjá um eftirfylgni en sýnataka fer aftur fram 2-3 mánuðum eftir að viðgerðum er lokið.

Nánar um verklagið
Vakin er athygli á að á næstunni má búast við að gera þurfi breytingar á tilhögun kennslu vegna tilfærslna á bekkjarstofum eða öðru starfi og verður upplýst um það sérstaklega af skólastjórnendum.
Starfsfólk og forráðamenn fá senda reglulega upplýsingapósta um stöðu mála og allar upplýsingar um framvindu við-gerða verða birtar á vefsíðu Garðabæjar.

Almar Guðmundsson, bæjarsjtóri í Garðabæ

Heilsa og öryggi nemenda og starfsfólks er í algjörum forgangi

„Við leggjum mjög mikla áherslu á opið samtal um þessi mál við starfsfólk og forráðamenn. Liður í því var að yfirfara öll gögn sem til voru um Flataskóla og Hofsstaðaskóla tengd rakamálum. Forráðamenn við Flataskóla óskuðu eftir gögnunum samkvæmt upplýsingalögum og fengu þau afhent eins og réttur þeirra er. Skýrslan hefur einnig verið birt á vef Garðabæjar eins og önnur gögn málsins, meðal annars yfirlit um framkvæmdir á liðnum árum,” segir Almar Guðmundsson bæjarstóri í Garðabæ aðspurður um ályktun starfsfólks Flataskóla sem lögð var fram á fundi bæjarráðs í síðustu viku varðandi stöðu húsnæðismála skólans, en í ályktun starfsfólkssins kemur m.a. fram að starfsfólkið krefjist þess tafarlaust að fá upplýsingar um myglu í húsnæði skólans. ,,Við krefjumst þess að fá að sjá skýrslu sem birt var árið 2019, en hefur ekki verið gerð opinber fram að þessu. Við vitum að þessi skýrsla liggur fyrir og í skýrslunni eru mjög mikilvægar upplýsingar um myglu og mygluummerki víðsvar um skólann.”

Skýrslan var ekki vistuð með réttum hætti í skjalakerfi bæjarins

Þá spyr starfsfólkið hver ástæðan sé fyrir því að Garðabær hafi búið yfir upplýsingum síðastliðinn 3-4 ár um ástand skólahúsnæðisins og ekki upplýst nemendur, aðstandendur þeirra og starfs-menn skólans. ,,Það er slæmt að skýrslan var ekki vistuð með réttum hætti í skjalakerfi bæjarins, en við vitum að á árunum 2019-2022 var farið í talsvert af framkvæmdum sem byggðust á mati á húsnæðinu. Mér finnst mikilvægt að taka fram að við höfum látið Mannvit framkvæma aukamælingar á svæðum sem fram komu í skýrslunni í heildarúttektinni sem nú stendur yfir. Við erum nú að róa að því öllum árum að bæta húsnæði skólans. Heilsa og öryggi nemenda og starfsfólks er í algjörum forgangi,“ segir Almar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar