Loftorka Reykjavík ehf., sem er með aðsetur að Miðhrauni 10 Garðabæ, fagnaði sextíu ára afmæli þann 16. mars á þessu ári en fyrirtækið er eitt elsta verktaka fyrirtæki í landinu. Fyrirtækið sérhæfir sig í jarðvinnuverkefnum, gatnagerð og malbikun.
Hjá fyrirtækinu starfa að jafnaði um 50 – 60 starfsmenn. Helstu verkefnin í dag eru: Vegagerð við Varmá í Hveragerði, breikkun Vesturlandsvegar í gegnum Mosfellsbæ, malkbiksviðgerðir fyrir Vegagerðina og vinna fyrir ýmsa stóra byggingaraðila.
Garðbæingarnir og bræðurnir Ari og Andrés segjast stoltir af árangri fyrirtækisins í gegnum tíðina og líta björtum augum á framtíðina og þakka þennan góða árangur ekki síst þeim góðu starfsmönnum sem margir hafa unnið hjá fyrirtækinu í áratugi og viðskiptamönnum sínum.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því fyrirtækið var stofnað árið 1962 af systkinunum Sæunni og Konráði Andrésbörnum og mökum þeirra, Sigurði Sigurðssyni og Margréti Björnsdóttur. Upphaflega var reksturinn í kringum vélaleigu en hefur vaxið í takti við breyttar áherslur og hefur í samstarfi við önnur fyrirtæki byggt upp meðal annars hafnir og virkjanir, s.s. Hrauneyjafossvirkjun, Blönduvirkjun, Sundahöfn, Helguvíkurhöfn ofl. ásamt því að vinna að gatnagerð og öðrum jarðvinnuverkefnum.
Í upphafi 10. áratugarins var svo fyrirtækinu skipt upp. Sæunn og Sigurður maður hennar eignuðust Reykjavíkurhlutann og Konráð og kona hans hlutann í Borganesi. Síðan þá hafa fyrirtækin verið alveg aðgreind, bæði eignarhald og rekstur ásamt því að staðarnöfnin bættust við nöfn fyrirtækjanna.
Allt frá stofnun hefur Loftorka Reykjavík verið í eigu sömu fjölskyldu en í ársbyrjun 2017 varð sú breyting á að bræðurnir Ari og Andrés Sigurðsynir ásamt eiginkonum, Önnu Ólafsdóttur Björnsson og Hjördísi Jónu Gísla-dóttur, keyptu fyrirtækið.
Ari og Andrés hafa unnið nær allan sinn starfsaldur hjá Loftorku og gengt þar ýmsum hlutverkum og eru gerkunnugir starfseminni.
Í tilefni af 60 ára afmæli fyrirtækisins var boðið í létta afmælisveislu í höfðustöðvum fyrirtækisins að Miðhrauni Garðabæ á dögunum.