Lóðin ennþá tiltæk og Garðabær tilbúinn í samtal við stjórnvöld – verður meðferðarheimilið staðsett í Garðabæ eða ekki?

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarna daga ríkir enn óvissa um hvar meðferðarheimili fyrir börn með fjölþættan vanda verður reist, en áður hafði verið gert ráð fyrir að heimilið risi á Vífilssstaðahálsi í Garðabæ, nánar tiltekið við hlið fyrirhugaðs kirkjugarðs í Rjúpnadal á móts við hesthúsabyggð á Kjóavöllum og var viljayfirlýsing undirrituð af Velferðarráðuneytinu, Barnaverndarstofu og Garðabær, um uppbyggingu nýs meðferðarheimilis 21. desember 2018. Nú virðist þeirri ákvörðun hafa verið breytt og önnur staðsetning, Skálatún í Mosfellsbæ verið nefnd

Stjórnendur barna- og fjölskyldustofu ekki með ákvörðunarvald

Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu, sagði í viðtali á mbl.is í síðustu viku að hann hafi ekkert vald til að ákveða hvar meðferðarheimilið skuli rísa. Hann geti hins vegar gefið álit og lagt til hugmyndir þegar málið tefst of mikið. „Ég segi mína skoðun á hlutum þegar mér finnst þeir komnir fram úr hófi, að einhver biðtími sé kominn fram úr hófi. Þá legg ég þetta til í því samhengi. Það er verið að hugsa um skipulag þar og einhverja uppbyggingu, en ég er ekki sá sem stýrir því,“ sagði Funi í samtali við mbl.is og átti hann þá við í Skálatúni.

Hann benti á að mennta- og barnamálaráðuneytið stæði fyrir byggingu meðferðarheimilisins, en ekki Barna- og fjölskyldustofa.

Það sem átti að vera stórt skref í málefnum barna í viðkvæmri stöðu árið 2018 er nú í óvissu, þar sem ríkið virðist hafa horfið frá þessum áformum.

Lóðin ennþá tiltæk og að Garðabær tilbúinn í samtal við stjórnvöld

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, hefur lýst yfir undrun sinni á stöðu mála og segir að staðsetning meðferðarheimilisins í Garðabæ hafi legið fyrir frá upphafi. Hann bendir á að Garðabær hafi verið tilbúinn að vinna málið áfram, en samskipti við stjórnarráðið hafi legið niðri síðustu tvö ár. ​

Garðapósturinn spurði Almar hvort hann hafi fengið einhver endanleg svör frá ráðuneytinu og hvaða áhrif hefur þessi vending á Garðabæ, sem hefur tekið frá lóð fyrir meðferðarheimili á Vífilsstaðahálsi.

Horft í hlíðar Vífilssaðaháls þar sem lóðin er fyrir meðferðarheimilið

Stjórnarráðið hefur algjörlega brugðist í samskiptum

Hefur Garðabær fengið formlega staðfestingu þess efnis að meðferðarheimilið muni ekki rísa á Vífilsstaðahálsi? ,,Nei við höfum ekki fengið neina staðfestingu þess efnis og ég hef lýst því yfir að stjórnarráðið hefur algjörlega brugðist í samskiptum við mikilvægan samstarfsaðila eins og Garðabæ í þessu tilviki,“ segir Almar.

Ekki hlutverk bæjarins að leggja til dýra gatnaframkvæmd inn í svona verkefni sem er á vegum ríkisins

Hvað er það sem hefur í raun tafið að verkefnið og uppbyggingin hafi farið af stað og hverju er um að kenna? ,,Það er aðallega óskýr verkefnastjórnun í Stjórnarráðinu þar sem tvö ráðuneyti gátu ekki unnið saman að málinu á skilvirkan hátt. Það er auðvitað ömurlegt í ljósi þess að þörfin fyrir svona úrræði var brýn árið 2018 þegar viljayfirlýsingin var undirrituð, en hún er enn þá brýnni nú og ekkert hefur áunnist í millitíðinni,“ segir Almar áður en hann heldur áfram: ,,Afstaða fjármálaráðuneytisins um greiðslu til Garðabæjar vegna gatnagerðar hefur líka haft áhrif á málið. Þar festir ráðuneytið sig í tæknilegum skilgreiningum í stað þess að viðurkenna að gatnagerð að lóðinni, sem er langt utan byggðar, er einfaldlega kostnaðarsamari en sem nemur þeim gatnagerðargjöldum sem okkur er heimilt að innheimta. Þann mismun verðum við að fá greiddan, enda er það ekki hlutverk bæjarins að leggja til dýra gatnaframkvæmd inn í svona verkefni sem er á vegum ríkisins.“

Frá undirskift, um uppbyggingu meðferðarheimilis í desember 2018, við Vífilsstaðavatn með Vífilsstaðaháls uppljómaðan í bakgrunni, en Almar var á þessum tíma bæjarfulltrúi og formaður fjölskylduráðs

Hvaða áhrif hefur þessi óvissa á framtíðaráætlanir Garðabæjar fyrir lóðina og svæðið í kring, en gert var ráð fyrir að Garðabær úthlutaði Barnaverndarstofu 10 þúsund fermetra lóð? Hvernig hyggst Garðabær nýta lóðina ef ríkið ákveður að fara með verkefnið annað? ,,Lóðin er á góðum stað þannig að ég geri ráð fyrir að það yrði gott verkefni sem mögulega myndi krefjast aðlögun á því skipulagi sem er í gildi. En við erum svo sem ekki farin að horfa til þess enn þá.“

Annað hljóð komið í strokkinn núna

Hefur Garðabær haft samband við ráðuneytin til að fá skýrari svör um málið? ,,Já, við höfum verið í óformlegum samskiptum og mér finnst vera komið annað hljóð í strokkinn núna og þau átta sig á að það verður enn þá meiri afturför í málaflokknum en þegar er orðin ef þau vinna ekki að lausn með okkur. Mér finnst samtölin á öðrum stað en áður. Við verðum samt að fá skýra og formlega afstöðu ríkisins til fjármögnunar gatnagerðarframkvæmda tengda meðferðarheimili. Það eru ýmsar lausnir, t.d. gætum við samið um að ríkið standi einfaldlega sjálft að gatnagerðinni,“ segir Almar að lokum.

Forsíðumynd. Samkomulag um meðferðarheimili á Vífilssaðahálsi handsalað í desember 2018.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins