Ljóðakvöld á Bókasafni Garðabæjar

Ljóðið mun lifna við á Bókasafni Garðabæjar fimmtudaginn 10. mars kl. 17:30 en þá koma þrjú framúrskarandi skáld og lesa upp úr nýjum og nýlegum verkum sínum. Það eru þau Gerður Kristný, Þórdís Helgadóttir og Jakub Stachowiak.

Skáldin eru ólík en öll eiga þau það sameiginlegt að hafa þá næmni og leikni til að beisla tungumálið á alveg sérstakan hátt og hrífa lesendur með sér í aðra hugarheima.
„Síðastliðin ár hefur ljóðagerð og ljóðalestur aukist svo til muna, en það var líka þegar ljóðformið brotnaði algjörlega upp að ljóðlistin varð aðgengilegri á ákveðin hátt. Okkur langar að hampa þessu skáldskapaformi sérstaklega á Bókasafni Garðabæjar og ætlum því að halda ljóðakvöld að vori og að hausti,‘‘ segir Díana Sjöfn Jóhannsdóttir, viðburðarstjóri Bókasafns Garðabæjar um ljóðakvöldið. „Það er líka allt önnur upplifun að heyra ljóð í upplestri.“ bætir hún svo við brosandi en núna ætti allt viðburðarstarf safnsins að blómstra aftur að nýju eftir afléttingar.

Gerður Kristný er mörgum kunn og er hún jafn víg á ljóðlistina eins og sagnalistina. Hún mun lesa upp úr bók sinni Heimskaut sem kom út árið 2019.

Jakub Stachowiak fékk nýræktarstyrk árið 2021 fyrir fyrstu ljóðabókina sína Næturborgir.. Þar er á áhrifaríkan hátt slegið saman hversdagslegum myndum og nýstárlegu tungutaki sem vakið hefur mikla athygli.

Þórdís Helgadóttir hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2021 fyrir ljóðið sitt Fasaskipti, sem er einmitt upphafsljóð ljóðabókarinnar Tanntöku sem fékk tilnefningu til Fjöruverðlaunanna.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar