Lífshlaupið – landskeppni í hreyfingu

Í dag, miðvikudaginn 2. febrúar, hefst Lífshlaupið, landskeppni í hreyfingu. Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra aldurshópa. Markmið Lífshlaupsins er að hvetja landsmenn til að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er í frítíma, í skóla og við val á ferðamáta. Þrátt fyrir að Lífshlaupið sé átaksverkefni er það von mín að átakið leiði til þess að fleiri tileinki sér reglubundna hreyfingu.

Hreyfing lykiláhrifaþáttur heilbrigðis

Niðurstöður rannsókna sýna að hvers kyns hreyfing er ein af lykiláhrifaþáttum heilbrigðis á öllum æviskeiðum. Það er fátt sem hefur jafn jákvæð áhrif á líkamlega, andlega og félagslega heilsu okkar en regluleg hreyfing og virkni. Ávinningur hreyfingar felst meðal annars í því að vinna gegn streitu og kvíða, bæta svefn, styrkja ónæmiskerfið og auka þrek til að takast á við dagleg verkefni.

Reglubundin hreyfing mikilvæg

Dagleg hreyfing er börnum og unglingum nauðsynleg fyrir eðlilegan vöxt, þroska og andlega vellíðan. Mikilvægt er að börn og unglingar hafi tækifæri og aðstæður til að stunda fjölbreytta hreyfingu sem þeim finnst skemmtileg og í samræmi við færni hvers og eins. Samkvæmt ráðleggingum um hreyfingu á vef Embættis landlæknis eiga öll börn og unglingar að hreyfa sig í að minnsta kosti 60 mínútur daglega. Mikilvægi reglulegrar hreyfingar nær þó ekki aðeins til barna og unglinga heldur einnig til fólks á öllum aldri enda dregur hreyfing úr einkennum öldrunar. Jafnframt eru fullorðnir mikilvægar fyrirmyndir sem geta haft hvetjandi áhrif á hreyfingu ungs fólks og barna. Samkvæmt ráðleggingum um hreyfingu skulu fullorðnir takmarka kyrrsetu og hreyfa sig að minnsta kosti 30 mínútur daglega.

Fjölbreytt aðstaða til hreyfingar í Garðabæ

Í Garðabæ erum við svo lánsöm að hafa aðgang að umhverfi og náttúru sem býður upp á fjölmörg tækifæri til hreyfingar og útivistar. Undanfarin ár hefur Garðabær unnið að því að efla enn frekar aðstöðu í bænum fyrir bæjarbúa á öllum aldri til að stunda fjölbreytta hreyfingu og ýmiss konar leiki fyrir utan skipulagt starf í skólum og íþróttafélögum bæjarins. Bæjarfélagið hefur meðal annars sett upp Frisbígolfvöll á Vífilsstöðum, strandblakvelli í Bæjargarðinn, bætt hjóla- og göngustíga, sett upp hreystitæki á ýmsum stöðum ásamt því að fara í endurbætur á sundlaugum og opnum leiksvæðum bæjarins. Á næstunni verður svo Miðgarður, fjölnota íþróttahús í Vetrarmýri, tekið í notkun en sú aðstaða mun auðvelda Garðbæingum enn frekar að stunda fjölbreytta hreyfingu við góðar aðstæður. Í Miðgarði er meðal annars að finna knattspyrnuvöll í fullri stærð, auk upphitunaraðstöðu og rými fyrir styrktar- og teygjuæfingar. Jafnframt verður þar klifurveggur ásamt svölum sem hægt verður að ganga eða skokka á.

Ég hvet Garðbæinga til að huga að sinni daglegu hreyfingu og nýta sér þá aðstöðu sem finna má hér í bænum til að auka hreyfingu eins og kostur er. Höfum í huga að það er aldrei of seint að byrja að hreyfa sig þótt aldur og færni sé misjöfn.

Björg Fenger, forseti bæjarstjórnar og formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar