Mikil og hávær umræða hefur átt sér stað á undanförnum mánuðum að hægt hafi á uppbyggingu íbúða þar sem sveitarfélögin á landinu, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, hafi ekki verið nógu dugleg að setja inn byggingalóðir á markaðinn, sem hefur gírað upp fasteignaverð og þar með verðbólguna í landinu auk þess sem háir vextir hafi orðið letjandi áhrif á verktaka sem eru farnir að fresta fyrirhuguðum íbúðauppbyggingu þótt þeir eigi lóðir. Lóðaskortur, háir vextir og verðbólga hamla því uppbyggingu á landsvísu.
Það er þó ekki hægt að tala um lóðaskort í Garðabæ því mikil uppbygging hefur átt sér stað í Garðabæ á undanförnum árum og sjaldan, ef nokkurn tímann hefur jafn mörgum lóðum verið úthlutað í bæjarfélaginu. Víða má sjá byggingakrana í bænum, en umfangsmikil uppbygging á sér stað í Urriðaholti, á miðsvæði Álftaness, í Hnoðraholti, Vetrarmýri, í Eskiási og á fleiri stöðum.
Samkvæmt mælaborði Mannvirkjaskrá HMS fyrir íbúðir í byggingu á landinu öllu þá kemur þar fram að í Garðabæ séu samtals 691 íbúð í byggingu eða áætlað að framkvæmdir fari af stað á árinu, en í byrjun ágúst voru 165 íbúðanna tilbúnar. Þá hefur íbúum á höfuðborgarsvæðinu hvergi fjölgað hlutfallslega jafn mikið og í Garðabæ frá 1. desember 2023 til fyrsta ágúst 2024, en Garðabær ber þar höfuð og herðar yfir nágrannasveitarfélögin með fjölgun upp á 3,5%, en Hafnarfjörður og Mosfellsbær fylgja þar á eftir með 2,3% fjölgun á sama tímabili.
Garðapósturinn tók Almar Guðmundsson bæjarstjóra í Garðabæ tali og forvitnaðist nánar um þessa miklu uppbyggingu í bænum, kosti og galla hennar og hvað væri framundan, en Garðabær er mjög vel settur hvað varðar landssvæði miðsvæðis til frekari uppbyggingar á næstu árum, ólíkt í raun öllum nágrannasveitarfélögunum.
Ánægður með það fjölbreytta framboð sem við höfum upp á að bjóða
En hvernig líst Almari á þessu miklu uppbyggingu sem hefur átt sér stað í bænum á síðustu árum og þær framkvæmdir sem eru í gangi á þessari stundu? ,,Ég er mjög ánægður með það fjölbreytta framboð sem við höfum upp á að bjóða. Hverfin okkar, þau yngri og eldri, eru ólík, en saman myndar þetta fjölbreytta blöndu af sérbýli og nútímalegu fjölbýli í fallegu og hlýlegu umhverfi Garðabæjar,“ segir hann og bætir við: ,,Við vitum þó líka að uppbygging er krefjandi og við setjum alltaf markið hátt varðandi þjónustu. Uppbyggingunni þurfa að fylgja sterkir innviðir og markviss uppbyggingu á þjónustu við íbúana.“
Um 800 lóðir bætist við á næstu 2-3 árum.
Hvað eru þetta margar lóðir sem þið hafið úthlutað núna á síðustu 2-3 árum? ,,Við gerum ráð fyrir að alls verði ríflega 500 byggingarhæfar lóðir/íbúðir í Garðabæ á þessu ári, það má svo áætla að u.þ.b. 800 lóðir bætist við á næstu 2-3 árum. Það er mikilvægt að hafa í huga að framkvæmdatími á þessum lóðum mun ná yfir talsvert lengra tímabil enda byggja uppbyggingaraðilar aldrei upp sína reiti alla í einu.“
Gleðilegt að fá hrós íbúana í Urriðaholti varðandi aðbúnað í hverfinu
Og ekki má gleyma Urriðaholtinu sem er komið á lokametrana hvað varðar uppbyggingu, en þar hafa verktakar og einstaklingar getað fengið lóðir nánast á færibandi síðustu kannski 10 árum? ,,Ég myndi nú kannski ekki segja á færibandi, saga Urriðaholtsins mótaðist framan af frekar hægri uppbyggingu en hraði hennar jókst verulega árið 2020. Mér líður mjög vel með uppbygginguna í Urriðaholti, þar hefur myndast gott samfélag og þar er mikið af ungu barnafólki að búa sér heimili. Okkur miðar mjög vel í uppbyggingu á nærþjónustu, nú erum við til dæmis ný búin að opna nýjan leikskóla og framkvæmdir við þriðja áfanga Urriðaholtsskóla eru hafnar. Við erum líka langt komin með frágang inn í hverfinu og það er gleðilegt að fá hrós íbúana varðandi aðbúnað í hverfinu.“
Höfum lagt okkar að mörkum varðandi húsnæðisframboð
Eins og fram hefur komið þá hafa verktakar, fasteignasalar og fleiri aðilar tengdir efnahagslífinu kvartað sáran yfir lóðaskorti á höfuðborgarsvæðinu, en þú getur varla tekið undir það hvað Garðabæ áhrærir – hafa þessi aðilar gleymt að taka Garðabæ út fyrir sviga þegar þeir eru að setja út á sveitarfélögin? ,,Það er klárt að við höfum lagt okkar að mörkum varðandi húsnæðisframboð og einnig svarað ákalli um fjölbreytt búsetuform. Við erum t.a.m. mjög ánægð þær sérbýlislóðir sem eru nú í uppbyggingu í Hnoðraholti norður,“ segir hann og heldur áfram: ,,Við eigum töluvert mikið af svæðum þar sem við erum að brjóta nýtt land undir byggð sem skapar okkur dýrmæta sérstöðu.“
En hvað veldur að Garðabær hefur dælt svona út lóðum á síðustu árum 2-3 árum? ,,Það er nú ofmælt að við höfum dælt út lóðum,“ segir hann. ,, En hvað varðar ný svæði þá tekur Hnoðraholt og Vetrarmýri við þegar uppbyggingu í Urriðaholti sleppir. Við erum svo að fullnusta skipulag á Álftanesi og þá spennandi mynd sem þar er að myndast. Þá eru Eskiás og Lyngás dæmi um svæði sem eru í umbreytingarferli hjá okkur, þar sem nútímaleg íbúabyggð tekur við af atvinnusvæði sem að stórum hluta er barn síns tíma.“
Lögð áhersla á innviðauppbyggingu
En þegar svona mikið og hratt er byggt hefur þá Garðabær undan hvað innviðina varðar eða hvernig tæklið þið það – það fylgja þessu stórar áskoranir? ,,Það fylgja þessu stór verkefni en innviðauppbygging hefur verið áhersla hjá okkur þannig að þjónustustigið sé af þeim gæðum sem við krefjumst af okkur sjálfum. Til dæmis má nefna að Urriðaholtsskóli verður brátt orðinn fullbyggður. Annar áfangi var tekinn í gangið í vor.
Á síðastliðnum þremur árum höfum við svo einnig byggt þrjá nýja leikskóla (Urriðaból við Kauptún og Holtsveg og einnig Mánahvol) ásamt því að 5 ára deild við Sjálandsskóla var sett á fót. Næstu skref eru svo frekari úrræði á Álftanesi, nýr leikskóli á Ása og Sjálandssvæði að ógleymdum nýjum leikskóla og grunnskóla í Hnoðraholti.
Þessa dagana eru við að rýna og tímasetja betur þá uppbyggingu sem fram undan er, með hliðsjón af þörf íbúasamsetningarinnar.“
Öll veitumál, heitt og kalt vatn, fráveita og rafmagn verða að fylgja með í uppbyggingunni
,,En svo er það allt hitt, liður í heitavatnsleysinu fyrir nokkrum vikum var til dæmis það að sjá höfuðborgarsvæðinu, sem fer allt stækkandi, fyrir heitu vatni til framtíðar. Öll veitumál, heitt og kalt vatn, fráveita og rafmagn verða að fylgja með í uppbyggingunni. Þar er oftast um að ræða verkefni sem hvert og eitt sveitarfélag vinnur ekki eitt, heldur þarf samvinnu á svæðinu.“
Fín verð enda er Garðabær vinsæl staðsetning
Hvaða þýðingu hefur það fyrir Garðabæ að geta boðið út allar þessar lóðir til hæstbjóðenda – er bærinn sáttur við það verð sem hann hefur fengið fyrir lóðirnar og um hvað upphæð erum við að tala og hvernig nýtir Garðabær tekjurnar af lóðunum? ,,Úthlutun og sala lóða hefur gengið vel, henni er lokið að mestu í Hnoðraholti norður og á þeim svæðum sem við höfum lagt áherslu á. Við höfum fengið fín verð, enda er Garðabær vinsæl staðsetning. Það er mikilvægt að sala á byggingarrétti skili okkur tekjum til mikilvægrar innviðauppbyggingar sem fylgja nýjum hverfum.“
Hefur áhrif á íbúasamsetningu,tekjur og útgjöld Garðabæjar
En hvaða þýðingu hefur það fyrir bæinn þegar íbúum fjölgar svona mikið (tekjulega), en samkvæmt nýjustu tölum frá Þjóðskrá þá hefur Garðbæingum fjölgað um 3,5% frá 1. des. til 1. ágúst, sem er hlutfallslega langmesta fjölgun íbúa ef miðað sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu? ,,Þýðingin er kannski fyrst og fremst sú að við erum fleiri! En að öllu gríni slepptu þá hefur þetta áhrif á íbúasamsetningu og tekjur Garðabæjar, en einnig á útgjöldin sem breytast. Við þurfum að horfa til þess hvernig við verjum fjármununum og halda vel á spöðunum varðandi viðhald, skólamál, innviði o.s.frv.. Það verður líka að horfa á tölurnar yfir lengra tímabil en átta mánuði, en rýni yfir síðustu 20 ár eða svo sýnir að Garðabær og Mosfellsbær hafa vaxið hraðast af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.“
Einhverjir hafa kvartað yfir þeim leiðum sem eru farnir við úthlutun lóða almennt, að þær séu boðnar hæstbjóðanda og þetta á ekki bara við Garðabæ. En er hægt að fara einhverja aðra leiðir sem fólki þætti sanngjarnari og er hægt að tryggja t.d. uppöldum Garðbæingum lóðir í úthlutun? ,,Þetta er sígild umræða en það er mjög erfitt fyrir okkar að loka á að úthlutun lóða í pólitískri rómantík leiði ekki til þess að handhafi lóðar fái óeðlilegan ágóða út úr úthlutuninni. Þess vegna þurfum við að fara varlega. Ef við veitum mikla afslætti af lóðaverði verður að finna fjármagn eftir öðrum leiðum til að standa að innviðauppbyggingu, sem er óraunhæft miðað við rekstraraðstæður sveitarfélaga í dag.“
En hversu fjölmennur vill Garðabær vera og er ekki einhver ákveðin stærð talin hagkvæmari fyrir sveitarfélög og íbúa þess en önnur? ,,Við erum nýorðin 20 þúsund talsins og áætlanir gera ráð fyrir að íbúar verði um 25 þúsund þegar þessi hverfi eru öll fullbyggð.“
Næst á dagskrá varðandi skipulag er áframhald í Vetrarmýri og Hnoðraholt
En hvað með frekari úthlutun lóða í bænum, hvar og hvenær áætlið þið að næst verði lóðum úthlutað undir íbúðir? ,,Við eigum mörg spennandi tækifæri sem fara ekki skipulag og framkvæmdir á næstu misserum. En næst á dagskrá varðandi skipulag er áframhald í Vetrarmýri og Hnoðraholt, suðurhlíðin sem snýr að golfvellinum. Í báðum tilvikum eru þetta staðsetningar sem við skynjum mikinn áhuga fyrir.“
Við stöndum vel og stöndum okkur vel
Og bæjarstjórinn er ánægður með stöðuna á bænum í dag og þeirri uppbyggingu sem á sér stað, bjartir tímar fram undan í Garðabæ eins og ávallt? ,,Það er alltaf bjart yfir Garðabæ. Við stöndum vel og stöndum okkur vel, ég hlakka til vetrarins og samtals við íbúana og skemmtilegra verkefna og áskorana,“ segir Almar að lokum.