Leyfi til að byggja sex deilda leikskóla að Holtsvegi 20 hefur verið fellt úr gildi

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur komist að þeirri niðurstöðu að fella úr gildi leyfi til að byggja sex deilda leikskóla að Holtsvegi 20 í Urriðaholti vegna kæru um ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar að veita leyfi fyrir byggingu leikskólans.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála barst bréf 31. október sl. þar sem eigandi að Holtsvegi 16 í Urriðaholti kærir þá ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 15. febrúar 2022 að veita leyfi til að byggja sex deilda leikskóla að Holtsvegi 20. Í bréfinu er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Í niðurstöðu Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir m.a. samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verða byggingaráform aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Að sama skapi verður byggingarleyfi ekki gefið út nema mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Ágreiningur þessa máls lýtur að því hvort greind lagaskilyrði séu uppfyllt, en kærandi telur að hið kærða byggingarleyfi samræmist ekki skilmálum deiliskipulags hvað varðar hámarkshæð húss á lóð Holtsvegar 20.

Í úrskurðarorði kemur fram að felld er úr gildi ákvörðun bæjarráðs Garðabæjar frá 15. febrúar 2022 um að samþykkja leyfi til að byggja sex deilda leikskóla að Holtsvegi 20.

Bæjaryfirvöld fara yfir málið og viðbrögð vegna úrskurðarins

,,Við erum að fara yfir málið og viðbrögð í samráði við helstu aðila. Við munum skýra betur frá næstu skrefum á nýju ári,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri í Garðabæ aðspurður um næstu skref af hálfu bæjarins.

Fyrsta skóflustunga að nýja leikskólanum við Hraunholtsveg 20 var tekin 8. september sl.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar