Létt sveifla og gleði í Vídalínskirkju

Gospelkór Jóns Vídalíns var stofnaður árið 2006 af Jónu Hrönn Bolladóttur sóknarpresti í Garðabænum, en hún hefur verið verkefnastjóri kórsins frá upphafi. Síðustu ár hefur Davíð Sigurgeirsson tónlistarmaður stýrt kórnum og hafa verkefni kórsins orðið enn fjölbreyttari með árunum m.a. hefur kórinn sett upp söngleikinn Godspell, undir leikstjórn Margrétar Eir Hönnudóttur. Kórinn hefur auk þess sungið inn á plötur, komið fram á hinum ýmsu heiðurstónleikum og í sjónvarpi auk þess að komast í úrslit í Kórar Íslands árið 2017. Gospelkórinn heldur tónleika að lágmarki tvisvar á ári bæði fyrir jólin og á vorin auk þess að halda mánaðarlega Gospelgleði í Vídalínskirkju ásamt því að taka þátt í ýmsu öðru helgihaldi í Vídalínskirkju.

Í kórnum eru um 20-30 meðlimir hverju sinni á breiðu aldursbili, enn eru nokkrir stofnmeðlimir í kórnum. Þar má einnig finna marga flotta einsöngvara, bæði unga og upprennandi og einnig reynslubolta. 

Einstaklega góður andi ríkir í kórnum en meðlimir eru þekktir fyrir orkumikla sviðsframkomu og kraftmikinn söng.

Vortónleikar 21. maí kl. 20 í Vídalínskirkju

Á vortónleikum kórsins, sunnudaginn 21. maí kl. 20:00 í Vídalínskirkju,  mun kórinn flytja fjölbreytta tónlist undir stjórn Davíðs Sigurgeirssonar, en útsetningar hans fyrir kórinn hafa hlotið mikið lof og eru vísar til þess að hreyfa við tónleikagestum. Á dagskrá eru til dæmis lög eftir George Michael, Kirk Franklin, GDRN, Mugison og The Clark Sisters og fleiri. Hressandi og kraftmikið gospel sem fær fólk til að dansa en einnig falleg og einlæg lög sem toga í hjartastrengi gesta.

Kórnum til halds og traust verður einvala lið hljóðfæraleikara sem hafa fylgt kórnum lengi. Ingvar Alfreðsson mun leika á píanó en hann var áður kórstjóri Gospelkórsins, Benedikt Brynleifsson á trommur og Valdimar Olgeirsson á bassa.

Vortónleikarnir hafa venjulega markað lok annarinnar hjá kórnum en síðustu ár hefur verkefnunum fjölgað yfir sumartímann m.a. hefur kórinn reglulega sungið í brúðkaupum. Sumarfríið hjá kórmeðlimum verður því ekki langt, en hefðbundið kórastarf hefst aftur um miðjan ágúst.

Kórinn æfir á þriðjudagskvöldum í Vídalínskirkju, klukkan 20. Áhugasamir söngvarar geta haft samband við kórinn í gegnum Facebook eða Instagram @Gospelkorjonsvidalins og fengið nánari upplýsingar um inntökupróf.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar