Lestur er minn ofurkraftur!  Lesum saman í sumar 

Sumarlestur, lestrarátak Bókasafns Garðabæjar fyrir börn á grunnskólaaldri, hefst 1.júní með líflegri opnunarhátíð. Lestrardagbækur verða afhentar, blaðrarinn mætir og býr til blöðrudýr og myndabás með ofurhetjuþema verður á staðnum.  Börnin geta einnig fengið afhent sumarlesturshefti landsátaks almenningsbókasafna en það inniheldur 6 lestraráskoranir, límmiða og skemmtilegt ofurhetjuspil.  Hægt er að skrá sig í átakið í allt sumar og  leyfilegt er að lesa hvað sem er. Yngri börn sem farin eru að æfa lestur eru einnig velkomin. 
  
Markmið Sumarlestur er að hvetja til lesturs í sumarfríi skólanna því kannanir sýna að allt að þriggja mánaða afturför getur orðið á lestrarfærni barna ef lítið er lesið yfir löng tímabil.  Börnin setja sér lestrarmarkmið, skrá lesturinn í lestrardagbók, fá límmiða á bókasafninu fyrir hverja lesna bók og fylla út umsagnarmiða til að setja í lukkupott en úr honum er dreginn Lestrarhestur vikunnar á fimmtudögum kl.12, á tímabilinu 13.júni – 16.ágúst, sem fær bók í verðlaun. Á lokahátíð Sumarlesturs, 24.ágúst, verður gleðin við völd og allir virkir þátttakendur fá glaðning. 

Blaðrarinn mætir á svæðið

Margt fleira skemmtilegt verður um að vera á bókasafninu í sumar. Sögusmiðja í umsjón Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur rit- og myndhöfundar verður 10. – 14.júní kl.10-12 fyrir 9 -12 ára börn. Á þriðjudögum verður leshringurinn Lesum saman kl.14-15 sem er ætlaður fyrir fjölskyldur til að hittast og spjalla um bækur og fá aðstoð við að velja sér lesefni. Þriðjudagsleikar, útileikir á torginu, verða kl.13 – 15. Á miðvikudögum verða ljósaborð með segulkubbum í boði kl.9 – 12 og svo tæknifikt kl. 13 þar sem þrívíddar- og vinylprentarar eru kynntir, en hægt verður að bóka tíma í prentun á vissum dögum. Á fimmtudögum verða fjölbreyttar föndursmiðjur kl.10-12.  
     
Mikilvægt er að virkja lestraráhuga ungra lesenda, gera lestur að eftirsóknarverðum valkosti í afþreyingarflórunni og skiptir þá miklu að börn hafi gott aðgengi að spennandi lesefni og fái tækifæri til að segja frá og ræða efnið en þar gegnir fjölskyldan stóru hlutverki. Á bókasafninu er að finna fjölbreyttan bókakost fyrir allan aldur og úrval léttlestrarbóka sem henta vel í Sumarlestur, en börn og ungmenni fá frítt bókasafnsskírteini til 18 ára aldurs.  Lestur er íþrótt hugans og æfingin skapar meistarann!  Lesum saman í sumar, allt, alltaf, alls staðar! Lestur er minn ofurkraftur!   

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar