Te&Kaffi opnar kaffihús á Garðatorgi, en stofnendur og eigendur fyrirtækisins eru Garðbæingar
Te & Kaffi stefnir á að opna nýtt og glæsilegt kaffihús á Garðatorgi í maí sem hlýtur að teljast mikið fagnaðarefni fyrir Garðbæinga sem lengi hafa beðið eftir alvöru kaffihúsi í Garðabæ.
Te & kaffi er fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað árið 1984 og hefur verið leiðandi á íslenskum kaffimarkaði frá þeim tíma, en eigendur fyrirtækisins og helstu stjórnendur þess eru Garðbæingar.
Það starfa í kringum 100 manns hjá fyrirtækinu og er framleiðsla á kaffi veigamesti þátturinn í starfsemi fyrirtækisins ásamt rekstri kaffihúsa á höfuborgarsvæðinu og er kaffihúsið á Garðatorgi það tíunda sem fyrirtækið opnar undir merkjum Te & Kaffi.
Gríðarleg spenna og eftirvænting í hópnum
Garðbæingurinn Halldór Guðmundsson, framkvæmdastjóri kaffihúsa Te & Kaffi og einn eiganda, var spurður af því hvort það sé ekki mikil spenna í mannskapnum fyrir opnun Te & Kaffi á Garðatorgi? ,,Jú, ég get ekki neitað því, það er gríðarlega mikil spenna í hópnum að opna í Garðabænum og það er mjög gaman að heyra hversu mikil eftirvænting er hjá bæjarbúum,“ segir Halldór.
Hlökkum til að vera hluti af bæjarstemmningunni
Má ekki segja að þið séuð á heimavelli þegar kemur að kaffihúsinu á Garðatorgi, Garðabæingar sem stofnuðu, eiga og reka Te&Kaffi – alltaf verið draumur hjá ykkur að opna í Garðabæ? ,,Já, það hefur lengi verið draumur hjá okkur að opna í heimabænum. Hingað til hefur okkur ekki fundist tímasetningar réttar en núna með uppbyggingu Garðatorgsins og komu allra þessara frábæru fyrirtækja á torgið hafa bæjarbúar augljóslega tekið þátt í að byggja hér upp alvöru bæjarstemningu sem við hlökkum mikið til að vera partur af.“
Íslendingar elska að fara á kaffihús
Te & Kaffi á Garðatorgi er tíunda kaffihúsið sem þið opnið á höfuðborgarsvæðinu, hefur reksturinn gengið vel og hefur taktikin í þessu eitthvað breyst með árunum, landsmenn farnir að fara meira á kaffihús, enda þau farin að bjóða upp á fjölbreyttari þjónustu og vöru, kaffi er ekki bara kaffi? ,,Við höfum augljóslega gengið í gegnum mjög krefjandi tíma núna undanfarið ár og það er alls ekki auðvelt að reka veitingastaði í hörðum samkomutakmörknum. Það hefur þó gengið nokkuð vel heilt yfir. Íslendingar elska að fara á kaffihús og við höfum alltaf lagt okkur fram um að vera leiðandi á íslenskum kaffihúsamarkaði.“
Gott vínglas og ostar á kvöldin
En hvernig verður kaffihúsið á Garðatorgi, verður það með sama vöruúrval og önnur kaffihús sem þið rekið? ,,Við vildum nota tækifærið á þessu nýja kaffihúsi að uppfæra aðeins útlitið okkar og áherslur, við höfum verið að vinna með svipað útlit í 10 ár og það er núna kominn tími á að breyta aðeins til. Vöruvalið verður svipað en það sem við ætlum að gera nýtt núna er að fara að leggja áherslu á kvöldin líka. Við viljum búa til notalega stemmingu þar sem viðskiptavinir geta komið meðal annars í gott vínglas og osta.“
Espresso martini, sælkerabakka og afternoon tea um helgar
Og hvernig kom það til að þið ákváðu að bjóða upp á léttar veitingar á Garðatorgi? ,,Í hönnun og stefnmótun fyrir þetta kaffihús gengum við einfaldlega út frá því markmiði að búa til stað sem okkur sjálfum langar til að vera viðskiptavinur á. Staður sem þú getur heimsótt á morgnana, hádeginu, síðdegi eða kvöldi og upplifað góða þjónustu, góð gæði og gott andrúmsloft. Við leggjum því að sjálfsögðu áfram árherslu á gæða kaffi en að auki þá ætlum við að bjóða uppá mjög góð vín, Espresso martini, sælkerabakka og afternoon tea um helgar svo eitthvað sé nefnt.“
Sérstakt Garðabæjarkaffi?
Og ein af uppistöðum hjá ykkar á Te & Kaffi er kaffiframleiðsla, verður ekki framleitt sér garðbæískt kaffi í tilefni af opnuninni í Garðabæ? ,,Kaffibrennslan okkar er hjartað í fyrirtækinu og kaffið okkar er vinsælasta kaffið á íslenskum markaði sem við erum gríðarlega stolt og þakklát fyrir. Við erum búin að vera að vinna að því að gera framleiðsluna okkar sjálfbærari og umhverfisvænni. Við erum búin að færa allar okkar kaffitegundir í niðurbrjótanlegar umbúðir og erum í þeirri vinnu að gera framleiðsluna sjálfa umhverfisvænni með að nota metan sem orkugjafa fyrir kaffiristun. Hvort við búum til sérstakt Garðarbæjarkaffi verður þó að koma í ljós,“ segir Halldór brosandi 😊
Umhverfi og andrúmsloft skapa góða upplifun
Kaffihúsin ykkar eru mjög smekklega innréttuð og andrúmsloftið er einstaklega notalegt – er þetta eitthvað sem þið leggið upp með, fanga þessa kaffihúsastemmningu? ,,Já, umhverfi og andrúmsloft skapa góða upplifun. Við leggjum því mikið uppúr að viðskiptavinum líði vel hjá okkur og vilji koma aftur. Við leggjum einnig mjög mikið uppúr góðri þjónustu og við erum ótrúlega stolt af okkar frábæra starfsfólki sem leggur sig alltaf fram um að taka vel á móti okkar viðskiptavinum. „
Latte og Cappuccino lang vinsælustu drykkirnar
En hver er svo vinsælasti kaffidrykkurinn hjá ykkur og eru landsmenn fastir í sama kaffidrykknum? ,,Latte og Cappuccino eru og hafa alltaf verið lang vinsælustu drykkirnar okkar. Við erum líka með árstíðabundna drykki sem eru mjög vinsælir og vorum núna að byrja að selja sumardrykkina okkar sem er alltaf beðið eftir með mikilli eftirvæntingu.“
Fullkomin tímasetning
Og ykkur hlakkar til að opna dyrnar fyrir Garðbæingum? ,,Já, svo sannarlega, þetta verkefni er búið að taka aðeins lengri tíma en við áætluðum en það þurfti að gera miklar breytingar á plássinu. Við höfum líka orðið vör við miklar tafir á öllum innflutningi erlendis frá í þessu ástandi í heiminum þessa dagana. En vonanadi fer þetta allt að smella og við áætlum opnun núna seinna í maí. Okkur finnst það líka fullkomin tímasetning núna þegar við sjáum loks fyrir endann á þessum faraldri,“ segir Halldór á lokum.