Lék á harmonikku fyrir leikskólabörn á Ásum

Það var góð stemmning í garðinum hjá Sigurði Hannessyni í Bjarkarási núna á dögunum er hópur af börnum af leikskólanum Ásum kom í heimsókn til hans. Sigurður reif fram harmonikkuna og lék nokkur vel valin íslensk lög fyrir börnin sem sungu að sjálfsögðu með af mikilli innlifun auk þess sem þau skoðuð garðálfana.

Þetta er þriðja árið í röð sem leikskólahópur af Ásum kemur í heimsókn í garðinn til Sigurðar sem er orðinn 86 ára. ,,Það er virkilega gaman að fá krakkana í heimsókn, leika á harmonikkuna og hlusta á þau syngja með,” segir Sigurður sem býður krökkunum einnig upp á smá nammi og djús. Sigurður byrjaði að leika á harmonikku 15 ára og hefur leikið á hana síðan þá en þó með nokkrum góðum hléum á milli.

Það eru sjálfsagt margir Íslendingar, sem ferðast hafa til Kanaríeyja, sem kannast við Sigurð því hann hefur leikið þar á nikkuna fyrir Íslendinga í mörg ár í janúar til mars. Hann spilar aðallega íslensk lög fyrir samlanda sína og aldrei tekið krónu fyrir enda hefur hann sjálfur mikla ánægju af.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar