Leita eftir leiguhúsnæði fyrir heilsugæslu í Garðabæ

Framkvæmdasýsla ríkiseigna (FSRE) auglýsir nú um þessar mundir eftir sérhæfðu húsnæði fyrir 2.250 fermetra heilsugæslu í miðbæ Garðabæjar ásamt 700 fermetra húsnæði fyrir Heyrnar og talmeinastöð Íslands.

FSRE stefnir að því að taka á langtímaleigu nútímalegt, verkefnamiðað og sveigjanlegt húsnæði fyrir þrjár heilsugæslur og húsnæði fyrir Heyrnar- og Talmeinastöð Íslands. Gerð er krafa um staðsetningu í nálægð við helstu aðalgötur/tengibrautir og almenningssamgöngur.

Um er að ræða húsnæði fyrir þrjár heilsugæslur, í Garðabæ, Hafnarfirði og Reykjavík og húsnæði fyrir Heyrnar- og Talmeinastöð Íslands (HTÍ) sambyggða einni af heilsugæslunum í Garðabæ eða Reykjavík.
FSRE auglýsir eftir heilsugæsla í Garðabæ eða heilsugæsla ásamt húsnæði fyrir HTÍ í Garðabæ. Stærð húsnæðis heilsugæslu skal vera um 2.250 fermetrar og stærð HTI um 700 fermetrar. Krafa er gerð um 75 bílastæði fyrir heilsugæslu og 20 bílastæði fyrir HTÍ eða samtals 95 bílastæði á lóðinni.

Skilyrði er að lóð/húsnæði sé staðsett innan marka rauða hringsins á meðfylgjandi yfirlitsmyndum fyrir Garðabæ, en meðal líklegra staða er Hnoðraholt og Vetrarmýri sem eru í uppbyggingarfarsa og þá gætu atvinnuhúsnæði í Urriðaholti eða Molduhrauni hentað.

Óskað er eftir upplýsingum frá áhugasömum aðilum á markaði, t.a.m. byggingaraðilum og fasteignafélögum, um húsnæði sem kunna að koma til greina.

Karl Pétur Jónsson, samskiptastjóri FSRE segir markaðskönnunina ganga út á að gefa markaðnum tækifæri til að sýna hvað til er af húsnæði og hvað hægt er að láta verða til innan tiltekins tíma. Á grundvelli markaðskönnunarinnar verði allir valkostir metnir og greindir. ,,Þetta er liður í því að heilsugæslan lagi sig að þeim íbúafjölda sem er á höfuðborgarsvæðinu. Aðalatriðið sé að stækka heilsugæslustöðvarnar í þessum hverfum og færa þær í nútímalegra horf,“ segir hann og bætir því við að stefnt sé á að loka heilsugæslunni á Garðatorgi.

Til nánari undirbúnings á fyrirhuguðum áformum er óskað eftir upplýsingum frá aðilum sem hafa áhuga á að hanna, byggja, þróa og reka ofangreint húsnæði. Einnig er óskað eftir upplýsingum frá aðilum sem eiga lóðir/húsnæði á fyrrgreindum stöðum í samræmi við meðfylgjandi yfirlitskort og gætu hugsanlega lagt þær fram til verkefnisins.

Aðspurður hvenær þetta geti orðið að veruleika segir Karl Pétur tímaramminn ráðist af þeim boðum sem FSRE býðst og nær samningum um.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar