Leikskólinn Hæðarból – Þróunarsjóður Garðabæjar stuðlar að framþróun og öflugu innra starfi í leikskólum Garðabæjar.

Við á Hæðarbóli höfum í þó nokkur skipti í gegn um árin sótt um og fengið styrki úr þróunarsjóði leikskóla í Garðabæ. Það er mjög hvetjandi fyrir starfið að fara af stað í þróunarverkefni og getur gert gott starf enn þá betra. Að sjálfsögðu er það síðan mismunandi hvaða verkefni festa síðan rætur í starfinu til frambúðar.

Starfsmannahópurinn (sem ég kýs að kalla kennara) á Hæðarbóli samanstendur af öflugu leikskólakennurum, þroskaþjálfum og öðru uppeldismenntuðu fólki ásamt frábærum leiðbeinendum með mikla reynslu. Kennurum sem hafa mikinn metnað fyrir faglegu starfi og hafa allskonar áhugasvið og styrkleika. Það að hver og einn kennari hafi möguleika á því að nýta styrkleika sína og áhugasvið í starfi var m.a. kveikjan að því að við fórum af stað með þróunarverkefni árið 2018 sem kallast ,Breyttir kennsluhættir. Það er skemmst frá því að segja að verkefnið sló algjörlega í gegn bæði hjá starfsfólki og börnum og er löngu búið að festa sig í sessi.

Markmið verkefnisins var að þróa leikskólastarfið í leikskólanum á þann hátt að nýting mannauðs og sérhæfðar fagþekkingar yrði hámörkuð í samþættu skapandi starfi og leik. Breyttir kennsluhættir, þýðir í raun að við hugsum börnin í leikskólanum sem eina heild í staðinn fyrir börn á 3. mismunandi deildum. Kennarar skipta á milli sín verkefnum s.s. bernskulæsi, lífsleikni, sköpun, spilum, stærðfræði, tónlist og útikennslu með tilliti til sýns áhugasviðs og styrkleika sem nýtast þá öllum börnum í leikskólanum en ekki einungis þeim börnum sem eru á deild hjá viðkomandi kennara. Það hefur sýnt sig að allir uppskera vel, þ.e. kennarar kynnast öllum börnunum betur og börnin kynnast fleiri kennurum og fá að njóta eins vel og hægt er.

Útikennsla

Haustið 2023 fórum við af stað með þróunarverkefni sem heitir, Leggjum við hlustir – börn hafa rödd.
Markmiðið með því er að auka þátttöku barna í lýðræðislegum vinnubrögðum og ákvörðunartöku. Að efla börnin til að vera virkir þátttakendur í skólaþróun, aðbúnaði þeirra og hvaða náms- og leikefni eru aðgengileg.

Við byrjuðum s.l. haust á því að börnin í elsta árganginum fengu það verkefni að skipa nemendaráð. Nemendaráðið hittist svo reglulega yfir veturinn þar sem við ræddum m.a. um það að þeirra skoðun skiptir máli og að þau geti og eigi að hafa áhrif á starf leikskólans. Við fengum börnin til að hugsa um og segja frá hvað vel væri gert á Hæðarbóli og hvað mætti bæta. Við skoðuðum Barnasáttmálann sem þau sýndu mikinn áhuga og vakti um leið margar spurningar og í framhaldi af því lásum við bókina Rúnar góði, sem er skrifuð með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi og kynnir hún réttindi sem öll börn í heiminum eiga að njóta. Í janúar var elstu börnunum (nemendaráðinu) boðið í heimsókn í Alþingishúsið og var það frábær viðbót við þróunarverkefnið okkar. Þar var farið í hlutverkaleik þar sem börnin fengu að kynnast lýðræðislegum kosningum og æfa sig í að greiða atkvæði um mál sem snerta daglegt líf þeirra. Í framhaldi af þessari heimsókn ákváðum við að nemendaráðið fengi það verkefni að kjósa um ýmislegt sem skiptir þau máli t.d. hvað þau myndu vilja bjóða gestum upp á í útskriftinni og hvert þau myndu vilja fara í útskriftarferð. Einnig fengu börnin í tveimur elstu árgöngum að kjósa um hvað væri í matinn.

Heimsókn á Alþingi

Það er ótrúlega gefandi að sjá hve upplifunin er áþreifanleg þegar farið er í svona verkefni og erum við nú þegar búin að sækja um og fá áframhaldandi styrk í þróunarsjóð Garðabæjar fyrir næsta skólaár til að útvíkka og dýpka okkur í þessari lýðræðislegu vinnu með börnunum.

Önnur þróunarverkefni sem Hæðarból hefur sótt um og eru orðin stór hluti leikskóla starfsins eru:
Barnakór Hæðarbóls unnið 2017 – 2018
Regnbogaskjóður sem unnið var 2022 – 2024

Það segir sig sjálft að samheldinn kennarahópur og mikill mannauður skiptir máli í leikskólastarfi, mannauður sem fær nýjar hugmyndir, fylgir góðum hugmyndum eftir og festir þær svo sessi.
Það gerir góðan leikskóla enn þá betri.

Með þökk
Anna Kristborg Svanlaugsdóttir
Leikskólakennari
Aðstoðarskólastjóri á Hæðarbóli

Stærfræðileikir
Kooning

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar