Leikskólapláss fyrir allt að 112 börn

Garðabær hefur samið við Terru Einingar um að einingahús verði tilbúin fyrir ungbarnaleikskólann Mánahvol fyrir 1. nóvember nk. Um er að ræða fjórar deildir sem munu rísa þar núna en í lok árs rísa fjórar deildir til viðbótar ásamt starfsmannaaðstöðu. Gert er ráð fyrir að leikskólinn geti verið með pláss fyrir allt að 112 börn þegar allar 8 deildir verða komnar til starfa. 

Garðabær leigir einingahúsin af Terra og er leigusamningurinn gerður til sjö ára með kauprétti.
Mánahvoll er staðsettur á Vífilsstöðum, við hliðina á leikskólanum Sunnuhvoli sem er þar fyrir. Fyrstu vikurnar hefur starfsemi skólans farið fram í húsnæði leikskólanna Krakkakots og Holtakots á Álftanesi en nú styttist í að starfsemin flytjist yfir á Vífilsstaði.

Öll börn fædd í september 2020 og fyrr hafa nú þegar fengið boð um leikskóladvöl ásamt hluta af börnum fæddum í október 2020. 

Á myndinni eru Kristín Hemmert Sigurðardóttir leikskólastjóri Mánahvolls, Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Valgeir Baldursson forstjóri Terra.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar