Garðabær hefur samið við Terru Einingar um að einingahús verði tilbúin fyrir ungbarnaleikskólann Mánahvol fyrir 1. nóvember nk. Um er að ræða fjórar deildir sem munu rísa þar núna en í lok árs rísa fjórar deildir til viðbótar ásamt starfsmannaaðstöðu. Gert er ráð fyrir að leikskólinn geti verið með pláss fyrir allt að 112 börn þegar allar 8 deildir verða komnar til starfa.
Garðabær leigir einingahúsin af Terra og er leigusamningurinn gerður til sjö ára með kauprétti.
Mánahvoll er staðsettur á Vífilsstöðum, við hliðina á leikskólanum Sunnuhvoli sem er þar fyrir. Fyrstu vikurnar hefur starfsemi skólans farið fram í húsnæði leikskólanna Krakkakots og Holtakots á Álftanesi en nú styttist í að starfsemin flytjist yfir á Vífilsstaði.
Öll börn fædd í september 2020 og fyrr hafa nú þegar fengið boð um leikskóladvöl ásamt hluta af börnum fæddum í október 2020.
Á myndinni eru Kristín Hemmert Sigurðardóttir leikskólastjóri Mánahvolls, Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Valgeir Baldursson forstjóri Terra.