Leikskóla- og matargjöld falla niður þær stundir sem börnin geta ekki mætt í skólann

Félagsmenn Starfsmannafélags Garðabæjar samþykktu frekari verkfallsaðgerðir í atkvæðagreiðslu sl. laugardag, en verkfallsboðunin var samþykkt með 89% greiddra atkvæða.

Í Garðabæ munu því aðgerðirnar einnig ná til starfsfólks leikskóla, sundlauga og bæjarskrifstofu, en verkföll BSRB í Garðabæ hófust 15. maí sl., þar sem að Starfsmannafélag Garðabæjar (STAG) er aðili að BSRB.
Fyrst um sinn náðu verkföllin til starfsfólks í öllum leikskólum sem Garðabær rekur (ekki í einkareknum leikskólum) og hefur starfsemi þeirra skerst töluvert fyrir vikið.

Leikskólar voru og eru í sambandi við foreldra og forráðamenn varðandi útfærslu skólastarfs og hafa leikskólabörn þurft að vera heima að minnsta kosti hluta úr degi á verkfallsdögum.

Leikskólastjórar munu gæta jafnræðis milli barna til þess að tryggja að það sé dreifing á hópum þeirra barna sem ekki geta komið í skólann hverju sinni.

Garðabær vekur athygli á að vegna verkfallsaðgerða falla leikskólagjöld og matargjald barna niður þær stundir sem börnin geta ekki mætt í skólann. Það er að segja, að þegar vistunartími barnanna er skertur eða ekki er unnt að bjóða upp á hádegismat.

Kostnaður verður endurgreiddur til foreldra með næstu leikskólagjöldum, nú um mánaðarmótin og við afgreiðslu leikskólagjalda mánaðarmótin júlí-ágúst.

Verkfallsaðgerðir í þessari viku náðu til tíu sveitarfélaga sem eru ásamt Garðabæ, Kópavogur, Mosfellsbær, Hafnarfjörður, Seltjarnarnes, Hveragerði, Árborg, Ölfus, Reykjanesbær og Vestmannaeyjar.

Eins og áður segir lauk atkvæðagreiðslum BSRB félaga um enn frekari verkfallsaðgerðir um sl. helgi. Því er ljóst að stígandi verður á verkfallsaðgerðum fram í júlí og jafnvel lengur til að mynda í sundlaugum og íþróttamannvirkjum. Náist ekki að semja munu verkföllin ná til um 2500 starfsmanna 29 sveitarfélaga um allt land.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar