Launahækkanir kennara hafa óhjákvæmilega áhrif á reksturinn

Samkvæmt nýjum kjarasamningi við kennara munu launahækkanir sem samið var um í síðustu viku hafa töluverð áhrif á fjárhag sveitarfélaga og jafnvel kalla á bæði hagræðingar og mögulegar gjaldskrárhækkanir í sveitarfélögunum.
 
Eins og fram hefur komið í umræðunni eru sveitarfélögin misvel stödd til að takast á við þessar ríflegu launahækkanir og því spurning hvaða áhrif samningarnir hafa á rekstur sveitarfélaga sem eyrnamerktu flest hver ákveðna upphæð í fjárhagsáætlun fyrir árið 2025, en sjálfsagt ekki líkingu við þá launahækkun sem samið var um. Þá hafa margir einnig áhyggjur af því hvaða áhrif samningarnir gætu haft á verðbólgu og vexti vegna hugsanlegra launaskrafna annarra stétta í þjóðfélaginu í kjölfarið.

Garðapósturinn leitaði til Almars Guðmundssonar, bæjarstjóra Garðabæjar, til að ræða nýjan kjarasamning kennara og þau áhrif sem hann gæti haft á rekstur sveitarfélagsins.

Hvernig líst ykkur á að samkomulag hafi náðst við kennara um launahækkanir og að verkföllum hafi verið afstýrt? „Við höfum lengi sagt að Garðabær sé skólabær og við eigum sterkt skólasamfélag í bænum. Ég er afskaplega stoltur af öllum sem koma að því sterka samfélagi. Það er ánægjulegt að samningar hafi náðst og gott að aðilar urðu sammála um að framkvæmt verði virðismat á störfum kennara sérstaklega. Allra best er síðan að verkföllum hafi verið afstýrt, allra vegna. Undanfarnir mánuðir hafa verið mjög krefjandi í kjaradeilunni og það er gott að hún er að baki,“ segir Almar.

Kostnaðarauki umfram fjárhagsáætlun er um 500 m.kr. á þessu ári

Hversu margir kennarar í Garðabæ falla undir þessa nýju samninga, hver er kostnaðurinn fyrir bæinn vegna þeirra og var Garðabær búinn að eyrnamerkja ákveðna upphæð í fjárhagsáætlun ársins 2025 vegna nýrra kjarasamninga við kennara? ,,Í Garðabæ starfa um 430 kennarar og stjórnendur í leik- og grunnskólum, sem falla undir félög innan Kennarasambandsins. Við gerðum auðvitað ráð fyrir hækkunum í fjárhagsáætlun 2025 í samræmi við aðra samninga sem gerðir voru í fyrra, en þeir hljóðuðu upp á 3,5% hækkun á þessu ári. Eins og fram hefur komið eru hækkanirnar í samningnum kennara mun umfangsmeiri, enda felst í þeim 8% hækkun sem hugsuð er sem innborgun vegna virðimats á starfi kennara. Við erum enn að rýna innihald samninganna nákvæmlega en mér sýnist að kostnaðarauki umfram fjárhagsáætlun sé um 500 m.kr. á þessu ári,“ segir hann.

Skoða hagræðingu í rekstri umfram það sem þegar er samþykkt í áætlun

Hvernig hyggst Garðabær fjármagna þessa launahækkun? Verður hagrætt í rekstri og þurfa íbúar að búa sig undir gjaldskrárhækkanir? ,,Öll sveitarfélögin standa nú frammi fyrir því að þurfa að endurmeta rekstrarforsendur sínar í ljósi þessara hækkana. Við höfum bætt grunnrekstur bæjarins verulega á undanförnum misserum og viljum halda þeirri vegferð áfram. Það er of snemmt að segja til um hvaða aðgerðir verða nauðsynlegar. Við munum fara rækilega yfir málið í bæjarráði í næstu viku. Varðandi gjaldskrárhækkanir þá höfum við lengi fylgt þeirri stefnu að hlutdeild fjölskyldnanna í heildarkostnaði leikskóla taki ekki miklum breytingum yfir tíma. Kostnaðarhækkanir kalla því á að við skoðum gjaldskrár sérstaklega. Við þurfum líka að skoða hagræðingu í rekstri, umfram það sem þegar er samþykkt í áætlun. Ég ítreka að ekkert er ákveðið í þessum efnum og nánari umræða er eftir,“ segir Almar.

Kemur ekki til greina að hækka útsvar eða fasteignaskatta

Kemur til greina að hækka útsvarið? ,,Nei, það kemur ekki til greina að mínu áliti að hækka útsvar eða fasteignaskatta vegna þessa. Við höfum haft þá stefnu að halda álögum lágum og þeirri stefnu fylgjum við áfram. Garðabær leggur mjög hóflegar álögur á íbúana í samanburði við önnur sveitarfélög og við finnum að það skiptir fólkið máli,“ segir hann

Kostnaður við rekstur grunn- og leikskóla nemur 13.5 ma. kr.

Hver er heildarkostnaður Garðabæjar við skólana og hvernig koma nýju samningarnir inn í það? ,,Rekstur grunn- og leikskólanna er stærsti einstaki útgjaldaliður Garðabæjar, en kostnaðurinn við þá (og framlag til sjálfstætt starfandi skóla) í heild nemur 13,5 ma.kr. Til samanburðar eru heildar rekstrargjöld bæjarins árið 2025 áætluð um 28 ma.kr. samkvæmt fjárhagsáætlun. Heildarlaun kennara og annarra starfsmanna í skólunum okkar nema tæplega 8 ma.kr.“

Það hafa allir hag að því að verðbólga og vextir haldi áfram að lækka

Hvaða áhrif haldið þið að þessir samningar muni hafa á verðbólgu og þar með vaxtastig – nú munu sjálfsagt aðrar stéttir miðað við þessa hækkun kennara er þeir ganga næst að samningsborðinu? ,,Það er öllum ljóst að launahækkanir sem þessar hafa áhrif á heildarsamhengi efnahagsmála. Það skiptir miklu máli að þau umfram 8% sem greidd eru verði staðfest í vinnunni við virðismat sem fram undan er. Þannig verður beitt hlutlægri aðferð við að meta störf kennara sérstaklega sem mun þá ekki hafa áhrif á aðrar stéttir. Ég tel afar mikilvægt að þessi vinna klárist og aðilar beggja vegna borðsins standi saman að því eins og lagt er upp með,“ segir Almar og heldur áfram: ,,Það er hins vegar engum blöðum um það að fletta í samningunum felast miklar kostnaðarhækkanir sem hafa efnahagsleg áhrif. Við höfum öll hagsmuni af því að verðbólga haldi áfram að lækka og að vextir lækki líka. Það er mikilvægt fyrir fjölskyldurnar í landinu. Þrátt fyrir orð ýmissa verkalýðsformanna þá á ég síður von á því að þessir samningar muni velta enn einu höfrungahlaupinu af stað. Það er nauðsynlegt að stjórnvöld, aðilar vinnumarkaðarins og sveitarfélögin vinni saman að því að tryggja stöðugleika til lengri tíma,“ segir Almar.

Gera ráðstafanir til að tryggja áframhaldandi sjálfbæran rekstur

Er Garðabær í nægilega sterkri stöðu til að mæta þessum aukna launakostnaði kennara? ,,Garðabær hefur á undanförnum áratugum staðið vel fjárhagslega og við höfum rekið sveitarfélagið af ábyrgð. Það skapar okkur stöðu til að takast á við óvænt útgjöld af yfirvegun. Það breytir þó ekki því að við þurfum að meta áhrif þessara hækkana vandlega og gera ráðstafanir til að tryggja áframhaldandi sjálfbæran rekstur.“

Berum fullt traust til kennara og skólanna okkar

Er eitthvað annað sem þú vilt nefna varðandi skólamál í bænum? ,,Já, nú er tækifærið til að halda áfram að gera gott skólastarf í bænum betra. Við berum fullt traust til kennara og skólanna okkar. Við leggjum áfram áherslu á að tryggja gæði menntunar í skólum bæjarins. Við vinnum áfram að umbótum á leikskólaumhverfinu, sem gengið hefur mjög vel og skapað öruggari þjónustu og minna álag á starfsfólki. Í grunnskólum eru ýmsar umbætur, sem fela í sér aukinn stuðning við kennara og skólastarf, komnar í framkvæmd og í undirbúningi. Talandi um gæði, þá erum við í vinnu við að greina og þróa áfram samræmingu á námsmati í grunnskólunum. Það er afar mikilvægt verkefni. Þegar allt kemur til alls byggir öflugt skólastarf á góðri samvinnu kennara, stjórnenda, nemenda og foreldra,“ segir Almar að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins