Landssöfnun Kiwanis fyrir Einstök börn á 50 ára afmæli K-dagsins.

Kiwanisfélagar á Íslandi hafa reglulega frá árinu 1974 staðið fyrir landssöfnun með því að selja K-lykilinn. Frá upphafi hefur söfnunarfé runnið til samtaka og stofnana sem sinna geðverndarmálum. Þegar farið var af stað með verkefnið fyrir 50 árum var staðan í þessum málum ekki góð og slagorðið “Gleymum ekki geðsjúkum” átti vel við. Á þeim tíma sem síðan er liðinn hefur margt breyst. Umræða um geðverndarmál er opnari og samtökum sem sinna þeim hefur vaxið fiskur um hrygg.
 
Á umdæmisþingi Kiwanisumdæmisins Ísland-Færeyjar síðastliðið haust var ákveðið að á 50 ára afmæli K-dagsins væri kominn tími til að huga að öðrum hópi og að Einstök börn yrðu styrkt í þetta sinn. Einstök börn er stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma eða sjaldgæf heilkenni. Félagið hefur stækkað ört undanfarin ár og eru nú um 800 fjölskyldur í félaginu. Félagið gætir hagsmuna þessara barna og aðstoðar þau og fjölskyldur þeirra á ýmsan hátt.

Undirbúningsvinna hófst strax eftir að þessi ákvörðun var tekin og nú þegar er búið að afhenda Einstökum börnum styrki sem m.a. koma frá styrktarsjóði umdæmisins og styrktarsjóðum Kiwanisklúbba. Þessir styrkir hafa komið sér vel því þörfin er mikil.

Helgina 26. til 28. september verður sölufólk á ferðinni á fjölförnum stöðum

K-lyklar verða til sölu í verslunum Krónunnar og á afgreiðslustöðum Olís frá til og með 8. október næstkomandi, en salan hófst í gær, 24. september. Helgina 26. til 28. september verður sölufólk á ferðinni á fjölförnum stöðum. Að mestu leyti munu Kiwanisfélagar standa vaktina við sölustörf en í einhverjum tilfellum hefur verið samið við íþróttafélög og fleiri ungmennafélög þar sem ungt fólk tekur að sér að selja K-lykilinn. Í þeim tilfellum fær viðkomandi félagsskapur hluta söluandvirðisins í sinn hlut.

KFC og Góa aðalstyrktaraðilar

Söluandvirði þeirra merkja sem Kiwanisfélagar selja og eins þeirra merkja sem verslanir selja fer óskipt til Einstakra barna því allur kostnaður við verkefnið er greiddur af fyrirtækjum sem styrkja verkefnið. Aðalstyrktaraðilar verkefnisins eru KFC og Góa sem hafa kostað allt markaðsstarf.
 
Kiwanisfélagar vonast eftir að landsmenn taki vel á móti sölufólki og aðstoði við þetta verkefni sem fellur einstaklega vel að meginmarkmiði Kiwanishreyfingarinnar sem er að hjálpa börnum.

Einnig er hægt að kaupa merki og/eða styrkja á vefsíðunni www.kiwanis.is

Með Kiwaniskveðju!

Forsíðumynd af afhendingu styrks til Einstakra barna 29. febrúar sl.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins