Laugardaginn 16. október fer fram spennandi smiðja á Bókasafni Garðabæjar en það er Brynhildur Þórarinsdóttir rithöfundur sem leiðir smiðjuna sem ætluð er allri fjölskyldunni og hefst kl. 13.
Um smiðjuna segir Brynhildur: Landnámsöld var tími bardaga. Allir bændur áttu vopn sem þeir hikuðu ekki við að beita ef þeir meiddust eða móðguðust. Eða þannig lýsa Íslendingasögurnar þessu tímabili. Þessar sögur af víkingum og vopnaskaki voru sagðar við langeldinn kynslóð fram af kynslóð uns þær voru skráðar á bækur. En hvernig var að vera barn á landnámsöld? Hvar eru sögurnar um krakkana sem fylgdust með átökunum eða lentu í eigin ævintýrum? – Þær verða til við langborðið í Bókasafni Garðabæjar.
Brynhildur Þórarinsdóttir rifjar upp fornar sögur og kemur börnunum af stað við að skapa eigin Íslendingasögur.
Gætið ykkar bara! Þær geta orðið rosalegar því eins og allir vita eru viðburðir í krakkaheiminum miklu meira spennandi en karlar að slást…Smiðjan er ókeypis og liður í verkefninu Við langeldinn/Við eldhúsborðið sem styrkt er af Barnamenningarsjóði.