Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar þann 19. desember síðastliðinn var samþykkt að vísa tillögu að deiliskipulagi Vetrarmýrar og Smalaholts – íþrótta- og útivistarsvæðis til forkynningar.
Deiliskipulagstillagan nær yfir golfvöll í Vetrarmýri, útivistarskóg í Smalaholti, æfingavelli við Miðgarð og náttúrugarð í landi Garðabæjar norðvestan við Vífilsstaðavatn. Deiliskipulagið tekur til breyttrar og framlengdrar legu Vífilsstaða- og Elliðavatnsvegar að Kjóavöllum ásamt því að fjalla um legu Vorbrautar við Þorrasali norðan við golfvöllinn. Í tillögunni er jafnframt sýnd lega stíga og stofnstíga ásamt staðsetningu áningarstaða og undirganga við Elliðavatnsveg. Skipulagssvæðið er um 132 ha.
Garðapósturinn heyrði í Björgu Fenger, formanni skipulagsnefndar Garðabæjar, til að spyrja hana nánar út í deiliskipulagstillöguna og næstu skref.
Hluti golfvallarsvæðisins og skógarins mun breytast
Hver er aðdragandi breytinga á svæðinu og mun það hafa áhrif á GKG og skógræktarsvæðið í Smalaholti? ,,Árið 2021 var gerð breyting á aðalskipulagi Garðabæjar vegna uppbyggingar í Vetrarmýri og tilkomu Miðgarðs og mögulegra æfingavalla austan hans. Þá var gerð breyting á afmörkun golfvallarins og skógræktarsvæðisins,“ segir Björg og heldur áfram: ,, Í deiliskipulagstillögunni sem nú er forkynnt er gert ráð fyrir golfvelli en þó með þeirri breytingu að afmörkun hans verður í samræmi við gildandi aðalskipulag. Einnig er gert ráð fyrir að skógurinn í Smalaholti eflist og styrkist sem útivistarskógur en hluti af núverandi skógræktarsvæði fer þó undir golfvöll. Hluti golfvallarsvæðisins og skógarins mun því breytast en markmið deiliskipulagsins felst meðal annars í að samþætta þessi tvö svæði með áherslu á íþróttaiðkun og almenna útivist,“ segir hún en einnig er gert ráð fyrir nýrri 5000 m2 lóð fyrir áhaldahús í deiliskipulagstillögunni suðaustan við íþróttamiðstöð GKG og gamla áhaldahúsið verður aflagt.

Áhersla lögð á að hlífa trjám eftir bestu getu
Skógræktarfélag Garðabæjar hefur í tugi ára staðið fyrir mikilli skógrækt í Smalaholti og þar er kominn myndarlegur skógur. Hvaða áhrif munu nýjar golfbrautir í hlíðum Smalaholts hafa á trjáræktina? ,,Með þessum breytingum myndu mörk golfvallarins færast inn á núverandi skógræktarsvæði. Í deiliskipulagstillögunni er hins vegar lögð áhersla á að hlífa trjám eftir bestu getu, laga hinn nýja hluta golfvallarins að skóginum sem og rækta upp tré á milli brauta þar sem við því verður komið. Lögð er áhersla á að trjásýnisreitur og trjásýnisstígur sem skógræktin hefur ræktað upp og gert aðgengilegan í gegnum árin haldist í sínu fallega formi.“
Náttúrugarður á 7 ha svæði norðvestan við Vífilsstaðavatn
Hvað er átt við með náttúrgarði og hvar yrði hann staðsettur? ,,Í deiliskipulagstillögunni er gert ráð fyrir náttúrugarði norðvestan við Vífilsstaðavatn. Þetta er í kringum 7 ha svæði og gert er ráð fyrir heimild til að rækta þar upp svæðið. Í tengslum við náttúrgarðinn er gert ráð fyrir nýjum bílastæðum sem og byggingareit þar sem heimilt væri að reka kaffi- eða veitingahús eða aðra svipaða þjónustu.“
Hvað með stígakerfið á svæðinu og möguleika til útivistar? ,,Í deiliskipulagstillögunni er að finna nánari útfærslu á stígakerfinu um svæðið, vegna þess að stígar innan golfvallarins breytast eðlilega samhliða þessum breytingum. Gert er ráð fyrir nýrri leið gegnum golfvöllinn sem mun þá tengja íbúðarbyggð í Hnoðraholti við Vífilsstaðavatn og Heiðmörk. Svo er það Græni stígurinn, en sunnan við Elliðavatnsveg, við Vífilsstaðavatn er gert ráð fyrir honum en Græni stígurinn er samfelldur göngu- og hjólastígur sem tengir öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu saman.“
Með skipulaginu er unnið að bættu aðgengi almennings að náttúru- og útivistarsvæðum
,,Golfvöllurinn og útivistarskógurinn í Smalaholti hafa í gegnum árin verið nýttir af Garðbæingum til almennrar heilsueflingar og útivistar. Við viljum að svo verði áfram, enda mikil gæði fyrir okkur íbúana. Skipulagið tekur mið af því að svo verði áfram til framtíðar. Það er líka gaman að taka það sérstaklega fram að með skipulaginu er unnið að því að bæta aðgengi almennings að náttúru- og útivistarsvæðum við Vífilsstaðavatn, í Heiðmörk og í Vífilsstaðahrauni með því að efla enn frekar stígakerfið og bæta umferðaröryggi til dæmis með breyttri veglínu sem og undirgöngum undir Elliðavatnsveg,“ segir hún.
Opinn íbúafundur 22. janúar kl. 17
,,Ég vil að lokum hvetja alla Garðbæinga og aðra hagsmunaaðila að kynna sér tillögurnar vel en opinn íbúafundur þar sem deiliskipulagstillagan verður kynnt verður haldinn í Sveinatungu miðvikudaginn 22. janúar kl. 17:00″