Kvenfélag Garðabæjar fyrir allar konur í Garðabæ – vetrarstarfið hafið

Kvenfélag Garðabæjar er með fundi fyrsta þriðjudag mánaðarins yfir vetrarmánuðina á Garðaholti og var fyrsti fundur vetrarins 1. október sl. Gestur fundarins var Ólöf Breiðfjörð menningarfulltrúi Garðabæjar og fjallaði hún um gróskuna í menningarlífi Garðabæjar og hina mörgu þræði menningarfulltrúa. Boðið var upp á fiskisúpu frá Brasserie Kársnes í Kópavogi. 

Á félagsfundum er lögð áhersla á fróðleik og skemmtun í bland en ekki síst að konur fái tækifæri til að blanda geði hver við aðra. Við höfum fengið marga góða gesti í gegnum árin, svo sem kynningu frá Húsgagnaversluninni Ilva sem stillti upp verönd til sýningar og kynningu á vetrarsporti frá Fjallakofanum auk listafólks með leikþætti og tónlist. Einnig hafa kvenfélagskonur komið saman til að sauma og prjóna og fyrir nokkrum árum prjónuðu félagskonur húfur og færðu öllum leikskólabörnum sem voru að ljúka leikskólagöngu. Þá fara félagskonur árlega í vorferð ýmist innanlands eða utan svo fátt eitt sé nefnt.

Halldóra Björk Jónsdóttir formaður Kvenfélags Garðabæjar og Ólöf Breiðfjörð menningarfulltrúi Garðabæjar

Framfarir í krafti kvenna

Kvenfélög á Íslandi gegna mikilvægu starfi og hafa stuðlað að margvíslegum velferðarmálum í samfélaginu. Þar má nefna byggingu Landspítala snemma á síðustu öld og eru Hringskonur enn þá mikilvægur bakhjarl barnaspítalans. Flest framfaramál á Íslandi hafa verið unnin í krafti kvenna en með stofnun Barnavinafélagsins Sumargjafar árið 1924 hófst saga leikskólans á Íslandi og félagið hóf rekstur Fóstruskólans haustið 1946. 
Kvenfélag Garðabæjar tók virkan þátt í söfnun Kvenfélagasambands Íslands (KÍ) í tilefni af 90 ára afmæli sambandsins Gjöf til allra kvenna á Íslandi sem hófst 1. febrúar 2020. Söfnuðust 30 milljónir til kaupa á hugbúnaði sem rafvæðir sjúkraskrárgögn sem tengjast fósturhjartsláttarritum og sónarniðurstöðum og vistar þau miðlægt. Með þessum hugbúnaði er mögulegt koma í veg fyrir að konur séu sendar jafnvel langan veg til til frekari skoðunar og eykur um leið öryggi þeirra og barna í móðurkviði.

Næsti fundur 5. nóvember

Næsti fundur verður 5. nóvember þar sem boðið verður upp á hið margrómaða hlaðborð að hætti félagskvenna, dagskrá verður auglýst síðar. Markmiðið er að hafa gaman saman, styrkja tengslanetið og leggja af mörkum til samfélagsins sem félagskonur hafa gert ötullega frá byrjun.  Félagsfundir eru opnir fyrir allar konur í Garðabæ og hvetjum við konur til að mæta á fundi, kynna sér starfið og taka þátt. 

Fylgist með á https://kvengb.is/ og https://www.facebook.com/kvengb  
Kveðja frá stjórn Kvenfélags Garðabæjar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar