Krían og jökullinn

Listamaður mánaðarins í júní í Bókasafni Garðabæjar er Sigríður G. Jónsdóttir. Sigríður verður með móttöku í tilefni opnunarinnar föstudaginn 4. júní milli klukkan 17 og 19 og það eru allir velkomnir.

Sýningin sem Sigríður nefnir Krían og jökullinn er tíunda einkasýning Sigríðar en hún hefur einnig tekið þátt í 14 samsýningum hér á landi og erlendis.

Sigríður fékk fyrst leiðsögn í myndlist á námskeiði hjá Sveinbirni Þór Einarssyni fyrir tuttugu árum og hefur vart lagt frá sér pensilinn síðan. Hún hefur stundað nám í Myndlistaskóla Kópavogs í olíu- og vatnslitamálun, setið námskeið hjá Pétri Gaut og verið virk í hópnum Litagleði sem hefur skipulagt fjöldamörg myndlistanámskeið. Myndlistin hefur verið aukabúgrein meðfram starfi hennar sem sjúkraliði. Sigríður sat í fyrstu stjórn Félags frístundamálara, er nú félagsmaður í Grósku og er með vinnustofu á Garðatorgi.

Sýningarröðin Listamaður mánaðarins er samstarfsverkefni Bókasafns Garðabæjar og Grósku félags myndlistarmanna í Garðabæ.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar