Konur sumarsins í Klifinu

Silja Rós

Nú þegar sumarnámskeiðin eru komin að lokum hjá Klifinu þá viljum við segja frá þeim frábæru kennurum sem kenndu námskeiðin. Við vorum svo heppin með það að eiga framsæknar og framúrskarandi listakonur sem leiddu námskeið sumarsins sem voru öll kennd í Hofsstaðaskóla.

Silja Rós Ragnarsdóttir er hvað þekktust fyrir tónlistar- og leiklistar ferilinn sinn. Hún útskrifaðist sem leikkona árið 2018 í Los Angeles og hefur Silja starfað sem slík í söngleikjum, barnasýningum, leikritum og kvikmyndum bæði á Íslandi og í L.A. Ásamt leiklistinni hefur Silja Rós starfað sem söngkona og lagahöfundur. Hún gaf út sína fyrstu plötu árið 2017 og hefur gefið út tónlist reglulega síðan en til að mynda er mest spilaðasta lagið hennar á Spotify með yfir 53 þúsund hlustanir.

Björk Viggósdóttir myndlistakennari hefur skarað framúr á sviði myndlistar á ferli sínum. Hún útskrifaðist úr LHÍ árið 2006, stundaði nám í kennslufræði við HÍ og lauk mastersnámi í hagnýtri menningarmiðlum í HÍ. Sýningar Bjarkar eru fjölmargar og hefur hún meðal annars sýnt í Bandaríkjunum, Suður Ameríku, Evrópu, Asíu og Íslandi. Einkasýningar Bjarkar á Íslandi hafa verið í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, Hafnarborg og Gallerý Þoku. Hún vinnur verk sín oft í marga miðla þar sem myndmálið er oft túlkað þannig að leikið er með öll skynfæri áhorfandans.

Hildur Lára Sveinsdóttir útskrifaðist sem stafrænn hönnuður frá Tækniskólanum árið 2020 með diplóma á BA stigi háskólanáms. Nýverið hefur hún stundað nám á teiknibraut Myndlistarskólans í Reykjavík þar sem hún vinnur með klassíska teikningu og myndskreytingar á háskólastigi. Ásamt náminu hefur hún setið fjölmörg sérhæfð námskeið þar á meðal teiknimyndasögugerð, story-boarding, tölvuteikningu, concept hönnun og módel teikningu. Hildur hefur reynslu af því að vinna með börnum og listkennslu en þetta er fyrsta sumarið sem hún setur upp námskeið og kennir á eigin spítur. Við erum ótrúlega stolt af því að fá hana til liðs við okkur og getum ekki beðið eftir því að sjá hana blómstra á ferli sínum.

Björk Viggósdóttir

Haustið hjá Klifinu er skammt undan og erum við ótrúlega spennt fyrir því að segja ykkur betur frá því þegar nær dregur. Við höldum áfram með þau námskeið sem hafa verið hvað vinsælust hjá okkur en bætum einnig nokkrum nýjum og spennandi námskeiðum sem koma bráðlega í ljós. Við hvetjum því alla til þess að fylgjast með okkur á instagram/klifid & facebook/klifid.

Þökkum kærlega fyrir sumarið sem er að líða og hlökkum til að sjá ykkur í haust!

Rebekka Ashley Egilsdóttir Verkefnastjóri Klifsins

Mynd á forsíðu. Hildur Lára.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar