Kjöt er ekki bara kjöt – segir Jón Örn Stefánsson eigandi Kjötkompaní, en verslunin fagnar 15 ára afmæli um helgina

Það er spennandi dagar framundan fyrir viðskiptavini Kjötkompaní því í dag hefst sannkölluð afmælisveisla í
verslunum Kjötkompaní að Grandagarði, á Bíldshöfða og í Dalshrauni í Hafnarfirði, en fyrirtækið fagnar um
þessar mundir 15 ára afmæli.

Það verður því boðið upp á ýmislegt góðgæti í verslununum að ógleymdum veglegum afmælis-afsláttum af ýmsum vörum.

Af þessu tilefni var slegið á þráðinn til Jóns Arnar Stefánssonar eiganda Kjötkompaní, en fyrirtækið var stofnað í september 2009 við Dalshraun 13 í Hafnarfirði.

Þú mannst sjálfsagt vel eftir þeim degi? ,,Já, opnunardagurinn er heldur betur í góðu minni, þetta consept var búið að vera lengi í kollinum á mér svo loks þegar rétta húsnæðið bauðst þá vorum við ekki lengi að slá til. Stemmningin var mjög góð á opnunardaginn og við fundum það strax að verslunin var að fá góðan hljómgrunn,” segir Jón Örn.

Og á hvað lögðu þið áherslu á strax í upphafi – hvernig ætluðu þið að skera ykkur úr hópnum? ,,Frá fyrsta degi var lagt upp með það að bjóða upp á vel valið full meirnað gæðakjöt sem þýðir t.d. að það nautakjöt sem við erum að kaupa inn í dag seljum við ekki frá okkur fyrr en í fyrsta lagi eftir 25 daga. Svo var lögð áhersla á að vera með góða forrétti, meðlæti og deserta, þannig að viðskiptavinir okkar gætu komið til okkar og fengið allt sem þarf til að gera góða veislu með litlum fyrirvara. Við höfum passað uppá gæðin í öllu því sem við seljum frá fyrsta degi.”

En hvað segir Jón svo um afmælis-barnið, það hefur sjálfsagt þroskast töluvert frá því að dyrnar voru opnaðar að fyrir 15 árum síðan? ,,Jú, verslunin hefur þróast mjög skemmtilega. Kjötborðið í Hafnarfirði er helmingi stærra í dag en fyrir 15 árum og vöruúrvalið hefur aukist til muna. Við erum með mjög gott úrval af ítölskum vörum sem við tökum beint frá frábærum framleiðendum í Toscana. Veisluþjónustan okkar hefur einnig þróast mikið og orðið fjölbreyttari en hún var í byrjun. Búðunum hefur einnig fjölgað en í dag eru þær orðnar þrjár talsins.”

Jón Örn og Kristján Hallur (Halli) í versluninni árið 2011

Og má í raun segja að þrátt fyrir árin 15 þá séuð þið enn stöðugt á tánum, alltaf með hugann við að gera betur og vöruþróun sífellt í gangi? ,,Já, við erum alltaf á tánum og erum alla daga að reyna að gera betur en í gær. Við erum með frábærann hóp starfsmanna og hópurinn er sífellt með hugann við að viðhalda gæðum og koma með eitthvað nýtt og skemmtilegt í vöruúrvalið okkar.”

En hvað er það sem skilur ykkur t.d. frá kjötvörum og steikum sem fást í matvöruverslunum landsins? ,,Kjöt er ekki bara kjöt, þetta snýst um það að kaupa inn réttu gæðin daglega og passa að allt sem við seljum frá okkur sé verkað á réttann hátt og sé búið að fá að hanga inni á kæli hjá okkur í þann tíma sem þarf.”

Í samstarfi með ítölsku trufflu fjölskyldunni frá San Miniato í Toscana

Má svo ekki segja að það hafi orðið töluverð breyting hjá ykkur þegar þið fóruð í samstarf við ítalska vini ykkar í Toscana og byrjuðu að selja pasta og annað góðgæti fra Ítalíu? ,,Jú, samstarfið okkar við ítölsku trufflu fjölskylduna frá San Miniato í Toscana er búið að vera mjög skemmtilegt. Í dag eru þetta ekki bara viðskipti heldur líka mjög góður vinskapur. Þeir leiða okkur áfram í okkar leit af gæðavörum frá Ítalíu. Við förum reglulega til þeirra og hittum þá framleiðendur og skoðum hugsanlega eitthvað nýtt. Við erum á leiðinni til þeirra á næstu mánuðum, þar sem við komum til með að setja upp ítalskan/íslenskan matseðil á veitingastað sem þeir eiga. Það verður gaman að blanda saman okkar frábæra hráefni við þeirra hágæða hráefni, útkoman hlýtur að verða mjög góð,” segir Jón Örn brosandi.

Seljum Wellington steik í nokkrum tonnum fyrir jólin

Og þá hafið þið bætt við ýmsum möguleikum í gegnum árin t.d. tilbúna rétti, tilboðskassa og grillpakka fyrir partýið, samsetta pakka fyrir ýmsar veislur og þið hafið einnig auðveldað fólki eldamennskuna um jólahátíðina o.s.frv.? ,,Já, grillpakkarnir okkar eru mjög vinsælir á sumrin og svo eru tilbúnu veislurnar okkar einnig mjög vinsælar þar sem allt er klárt til að bera fram fyrir gestina,” segir hann og heldur áfram: ,,Wellington steikin okkar er svo mjög vinsæl í desember en við erum búin að ganga í gegnum skemmtilegt Wellington ævintýri því fyrir 15 árum síðan þá var engin verslun að selja nautalund Wellington. Við ákváðum þá að það væri skemmtilegt að athuga hvort það væri ekki eftirspurn eftir þessari frábæru steik yfir hátíðirnar. Við seldum að mig minnir um 15 steikur fyrstu jólin og ég man að ég hugsaði með mér að þetta gæti orðið eitthvað, sem hefur heldur betur orðið því við seljum þessa steik í nokkrum tonnum um hver jól.”

Og svo er 15 ára afmælisveisla frá fimmtudegi til laugardags og þið ætlið að bjóða upp á smakk og veglegan afmælisafslátt af ýmsum vörum í verslunum ykkar? ,,Já, það verður afmælisveisla í verslunum okkar og flott afmælistil-boð í gangi hjá okkur. Smakkborðið verður stútfullt alla helgina.”

Uppáhalds steik Jóns er nauta ribeye cap

Þetta er sjálfsagt erfið spurning, en hver hefur svo verið uppáhalds steikin hjá Jóni í gegnum árin er einhver steik sem viðskiptavinir verða að prófa? ,,Mín uppáhalds steik í dag er nauta ribeye cap. Þessi steik er partur af ribeye vöðvanum og er algjörlega frábær og mjög auðveld í eldun. Grillið er stillt á max hita og steikin grilluð í 3 mínútur á hvorri hlið og látin hvíla í ca. 5 mínútur, svo er það auðvitað með þessa steik eins og allar aðrar að þær eru ekki síðri ef þeim er lokað á pönnu í mínútu á hvorri hlið og inn í ofn á 180°c í 6-8 mín.”

Fullt af myndböndum á heimasíðunni

En þegar kemur að þessum stóru og veglegu steikum þá skiptir eldunin öllu máli – auðvelt að klúðra flottri steik? ,,Við leggjum mikið upp úr því að koma öllum eldunarleiðbeiningum vel til skila, bæði erum við með fullt af myndböndum á heimasíðunni okkar og svo erum við einnig með þrjár matreiðslubækur á heima- síðunni okkar sem viðskiptavinir okkar geta flett í.”

Jón Örn opnaði Kjötkompaní fyrir 15 árum að Dalshrauni í Hafnarfirði

Forréttindi að fá að vinna við áhugamálið

Og þegar Jón horfir til baka – er þetta búinn að vera góður tími? ,,Þetta eru búin að vera mjög skemmtileg ár og það er alltaf gaman að mæta í vinnuna daglega og hitta okkar skemmtilega samstarfsfólk og viðskiptavini. Það eru í raun algjör forréttindi að fá að vinna við áhugamálið.”

Og þú hvetur bæjarbúa að koma við í verslunum Kjötkompaní um helgina og fagna með ykkur? ,,Já, heldur betur, það verður stuð hjá okkur frá fimmtudegi og fram á laugardag. Okkur þætti vænt um að sjá ykkur fagna með okkur og tökum við vel á móti ykkur;” segir Jón Örn að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar