Kjósendum hefur fjölgað um 18%. Hvað kjósa Garðbæingar?

Sveitarstjórnarkosningar fara fram á laugardaginn 14. maí, en kosið er í íþróttamiðstöðinni Mýrinni og Álftanesskóla.

Spennan magnast með hverjum deginum en alls eru fimm framboð sem bjóða fram lista í Garðabæ. Framboðin voru fjögur í sveitarstjórnarkosningunum 2018, Framsóknarflokkurinn, Garðabæjarlistinn, Miðflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn og náðu hvorki Framsóknarflokurinn né Miðflokkurinn inn manni í bæjarstjórn, en tæpt stóð það þó fyrir Miðflokkinn. Sjálfstæðismenn hafa undanfarin fjögur ár verið með átta bæjarfulltrúa og Garðabæjarlistinn 3.

Í kosningunum á laugardaginn eru sömu flokkar í framboði og árið 2018, en Viðreisn hefur bæst í þann hóp þar sem flokkurinn sleit samstarfinu við Garðabæjarlistann og ákvað að bjóða fram undir eigin merkjum.

Í kosningunum 2018 voru 11.594 einstaklingar á kjörskrá í Garðabæ, en alls greiddu 7768 atkvæði og var kjörsókn 67%. Í kosningunum á laugardaginn eru 13.630 á kjörskrá og kjósendum hefur því fjölgað um 2.036 frá 2018, eða um tæp 18%.

Þá liggur það fyrir að nýr bæjarstjóri mun taka við lyklavöldum á Garðatorgi 7 þar sem Gunnar Einarsson, bæjarstjóri tilkynnti síðastliðinn desember að hann mundi hætta, en Gunnar hefur verið bæjarstjóri í 17 ár og verður brátt 67 ára.

Kjörfundur mun hefjast kl. 09 á laugardaginn og standa til 22.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar