Næstkomandi sunnudag verður þriðji prestur Vídalínskirkju, Sigurvin Lárus Jónsson, settur í embætti. Sigurvin er prestur og nýjatestamentisfræðingur sem hefur starfað víða við prestþjónustu og kennslu.
Hver er maðurinn? „Móðir mín Sif Sigurvinsdóttir ólst hér upp í Garðabæ en foreldrar hennar byggðu sér heimili á Markaflöt 57 og faðir minn var Jón Lárus Sigurðsson röntgenlæknir. Sjálfur er ég giftur Rakel Brynjólfsdóttur og á þrjá drengi á aldrinum 9 til 21 árs.“
Hvar hefur þú starfað áður en þú komst í Garðabæinn? „Ég eyddi námsárunum mínum í Laugarneskirkju, þar sem ég lærði af sr. Bjarna Karlssyni. Eftir guðfræðinám starfaði ég í Neskirkju frá 2006 til 2016 með áherslu á æskulýðsstarf. Eftir að ég kom heim úr framhaldsnámi hef ég sinnt prestþjónustu fyrir Fríkirkjurnar í Hafnarfirði og Reykjavík og ég held góðum tengslum við þá söfnuði. Ég kom til starfa í Garðasókn 1. ágúst síðastliðinn.“
Hvernig lýst þér á safnaðarstarfið í Vídalínskirkju? „Ég hef þekkt prestana hér um árabil, og það er margt líkt í þeirra áherslum og þeim sem ég kynntist í Laugarneskirkju. Það er þó ýmislegt í því blómlega safnaðarstarfi sem hér fer fram sem ég hef ekki kynnst áður. Má þar nefna Örninn, sem veitir stuðning börnum og ungmennum sem hafa misst foreldri, sem og þá fjölbreytni sem einkennir helgihaldið hér. Þá hef ég aldrei tekið þátt í bangsa- og gæludýrablessun en það var yndisleg upplifun í síðasta mánuði að fá að blessa þau dýr sem hingað komu.“
Þú ert nýjatestamentisfræðingur, hvað felur það í sér? „Ég fékk styrk til að stunda nám við Árósarháskóla 2016 og lauk þaðan doktorsprófi 2019 en við dvöldum jafnframt tvær annir í Atlanta í Georgíu. Frá því ég lauk námi hef ég fengið að kenna sem stundakennari við Háskóla Íslands og við guðfræðideild í Þýskalandi, en ég fæ að leysa prófessorinn þar af í sumar með leyfi biskups og safnaðarins hér. Þá hef ég skrifað um Nýja testamentið sem hægt er að fletta upp á Amazon. Það er von mín að þessi menntun nýtist kirkjunni en það munu birtast myndbönd á næstu vikum sem kynna Biblíuna fyrir fullorðnu fólki með skírskotun til samtímans.“
Hver eru brýnustu verkefni kirkjunnar að þínu mati? „Kirkjan er vettvangur fyrir allskonar fólk og það er skylda okkar að taka á móti öllum sem til hennar leita. Þau verkefni sem samfélagið stendur frammi fyrir eru kirkjunni ekki óviðkomandi og þar eru þrjú sem ég hef helst í huga. Þau eru líðan ungs fólks, einsemd í samfélaginu og fjölmenning. Það er von mín að við getum lagt okkar af mörkum í Garðasókn til að fjalla um þau mál með fjölbreyttum hætti. Safnaðarstarfið hefur það markmið að minna okkur á að við erum elskuð, að við stöndum ekki ein í lífinu, og að fagna beri fjölbreytileika en ekki óttast hann. Ég er þakklátur fyrir það tækifæri að fá að starfa í Garðabæ.