Keppnistreyjur KFG hafa vakið mikla athygli

Knattspyrnufélag Garðabæjar, KFG, sem leikur í 2. deildinni mun leika í nýjum keppnistreyjum í sumar. Það er svo sem í sjálfu sér ekki frásögu færandi nema að þær hafa vakið töluverða athygli, en félagið ákvað að búa til sinn eigin búning fyrir keppnistímabilið sem lítur út eins og bjórglas með merki styrktaraðilans, Faxe framan á búningnum.

Yfir höfuð hefur nýja keppnistreyjan fengið mjög góðar undirtektir, en það hafa þó einhverjar óánægjuraddir heyrst og því komið á framfæri að íþróttir og áfengi fari ekki saman.

En hvað segja forsvarsmenn KFG um þessa nýju skemmtilegu keppnistreyju og þær óánægjuraddir sem hafa heyrst? ,,Við erum fyrst og fremst þakklátir fyrir frábærar viðtökur á treyjunni og þeim meðbyr sem liðið er að finna fyrir í bænum, það er gaman þegar það sem við gerum vekur áhuga og umtal. Að sama skapi höfum við heyrt gagnrýnisraddir og finnst okkur því mikilvægt að því sé haldið til haga að varatreyjan okkar er hönnuð eins og léttölsglas og viljum við góðfúslega benda á þann valkost sem óáfengt léttöl er, og alls ekki ýta undir drykkju áfengra drykkja,” segir Sindri Rósenkranz Sævarsson formaður KFG.

Eru að auglýsa léttöl en ekki bjór

Svo þið eruð að auglýsa Faxe léttöl en ekki bjór sem er sitthvor varan, en er þetta ekki svolítið á gráu svæði? ,,Já, það passar þetta er sannarlega léttöl. Eftir síðasta tímabil nálguðust FAXE okkur og báru undir okkur hugmyndina að auglýsa léttöl frá þeim þar sem léttöl og áfengislausir drykkir eru í gríðarlegum vexti hér á landi. Slíkir drykkir eru orðinn góður valmöguleiki fyrir þá sem kjósa áfengislausan lífstíl, já eða bara hvern sem er sem líkar bragð þeirra.”

Svo það þarf þá ekki að banna 20 ára og yngri um aðgang á leikina hjá ykkur í sumar? ,,Nei sem betur fer þarf þess ekki, en við skiljum vel vangaveltur þeirra sem finnst þetta bein skírskotun í áfengan drykk, en við erum ánægðir að bera út boðskap drykks sem getur komið sem staðgengill hefðbundins bjórs.”

En hver er hugmyndin á bak við þessa nýju keppnistreyju sem hefur vakið mikla athygli og almennt jákvæða athygli? ,,Hugmyndin kviknaði fljótlega eftir að FAXE nálgaðist okkur. Þannig er mál með vexti að ég á góðan vin sem heitir Hallgrímur Egilsson og hefur hann hannað fjöldann allan af pílutreyjum síðustu árin. Hann stakk upp á því að láta búningin líta út eins og léttölsglas, og útkoman var bara það flott og skemmtileg að okkar mati að við ákváðum bara að kýla á þetta. “

Er orðið erfitt að finna styrktaraðila í dag og nauðsynleg að koma með einhverjar nýjungar? ,,Já, rekstrarum- hverfið er erfitt í íþróttum almennt held ég og 2.deild í knattspyrnu þetta tímabilið er einstaklega fjárfrek með mörgum löngum ferðalögum. Við treystum á styrktar- og stuðningsaðila til að halda umgjörðinni í lagi og að fá nýjung eins og treyjusölu hjálpar sannarlega til að brúa bilið fjárhagslega.”

Og stuðningsmenn ykkar hafa tekið treyjunni vel og þið selt nokkuð vel af henni? ,,Já, það má segja það. Við létum gera 25 treyjur aukalega fyrir fyrsta leik í bikarnum, þær seldust allar á leikdag. Við erum að bíða eftir þriðju pöntun núna, hún verðu klár fyrir fyrstu umferð í deildinni! Áhugasamir geta keypt sér treyju á heimaleikjum í sumar, eða á netinu á heimasíðunni okkar: www.kfg210.is “

Og þið leikið í 2. deildinni í sumar, má ekki segja nokkuð óvænt eftir að hafa lent í 3. sæti í 3. deildinni í fyrra? ,,Jú, það var óvænt að fá kallið eftir að lið í Lengjudeild dró sig úr keppni. Við viljum þó meina að við höfum unnið fyrir þessu með því að lenda í 3.sæti 3 tímabil í röð.”

Flott hugmynd! Halldór Orri Björnsson, fyrrverandi leikmaður Stjörnunnar og nú KFG í nýrri keppnistreyju KFG sem vakið hefur verðskuldaða athygli

En hvernig mæta svo KFG menn til leiks í 2. deildinni og eruð þið klárir í þessa deild eftir að hafa dottið óvænt inn? ,,Já 2.deild er töluvert sterkari en sú þriðja, en við mætum gallvaskir og teljum okkur klárlega eiga heima í þessari deild. Við höldum sama kjarna frá síðasta tímabili og höfum fengið unga og efnilega leikmenn sem eru annaðhvort nýgengnir úr 2.flokk eða komið á láni úr Stjörnunni. Við erum ekki að mæta til að berjast í bökkum við að halda sætinu í deildinni, við teljum okkur nægilega vel mannaða og undirbúna fyrir átökin í sumar.”

Og fyrsti leikurinn á Íslandsmótinu er á laugardaginn, 6. maí, þegar KV mæta í heimsókn á Samsung-völlinn – þið hvetjið eðilega alla til að mæta og verður keppnistreyjan til sölu á staðnum? ,,Já vonandi sjáum við sem flesta í stúkunni 6.maí, treyjan verður til sölu, sem og árskort. Við lofum stuði og skemmtilegum fótbolta!”

Verður svo boðið upp á Faxe léttöl á Dúllubarnum? ,,Við skulum segja að það standi yfir samningsviðræður við sjálfa Dúlluna, þær ganga vel þannig ég ætla að leyfa mér að lofa áfengislausum Faxe fyrir valda leiki í sumar,” segir Sindri brosandi að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar