Kennir vinsæl fullorðinsnámskeið

Jens Arne Júlíusson hefur starfað sem myndlistarkennari hjá Klifinu í nokkur ár og kennir hann vinsælu fullorðinsnámskeiðin okkar. Okkur langar því að leyfa ykkur að kynnast þessum hæfileikaríka manni betur. Næsta námskeið Jens er módelteikning sem hefst 19. október og fer skráning fram á www.klifid.is.

Hvernig myndir þú lýsa myndlistarstílnum þínum? ,,Minn stíll er náttúrulegur og stílhreinn. Ég sæki einna helst innblástur í náttúruna og mála mest myndir af dýrum og landslagi. Mér þykir gaman að blanda þessu tvennu saman og á myndunum eru oft mikil smáatriði sem ég mála eða teikna. Bakgrunnurinn er þá látlaus, hvítur eða með jöfnum lit, og þetta vinnur vel saman. Ég hef mikið unnið með blek og vinn þá mestu smáatriðin með blekpenna eða pennastöng sem ég dýfi í blekbyttu og það sem er í lit mála ég aðallega með vatnslitum.“

Hvað er það við myndlist sem heillar þig? ,,Frelsið til að gera hvað sem er, hvort sem það er til að skapa það sem mig langar eða að tjá mig í gegnum myndlistina. Myndlistin getur verið svo rosalega aðgengileg og það þarf ekki nema blað og blýant til að byrja á einhverju sem verður annaðhvort skissa eða undirbúningur að einhverju stærra verki.“

Hvar og hvenær hófst ferill þinn í myndlistarkennslu? ,,Hann hófst haustið 2017 þegar mér var boðið að halda fullorðinsnámskeið fyrir Klifið á Garðatorgi 7. Við auglýstum vatnslitanámskeið fyrir byrjendur og skráningin var það mikil að halda þurfti tvö námskeið. Nemendurnir hafa verið á aldrinum 15 til 82 ára og allt þar á milli. Síðan þá hef ég kennt bæði grunn- og framhaldsnámskeið í vatnslitamálun, grunnnámskeið í teikningu, módelteikningu og grunnnámskeið í akrýlmálun.“

Hvers vegna ætti fólk að læra myndlist? ,,Það geta verið margar mismunandi ástæður. Ég myndi segja aðallega til að prófa myndlist og sjá hvert það leiðir mann. Hjá mér hafa verið fullorðnir nemendur sem hafa aldrei áður teiknað eða málað en eftir að hafa komið á námskeið þá vaknar áhuginn og sumir finna sig algjörlega í listinni. Það þarf oft ekki nema réttar leiðbeiningar til að nemandinn nái valdi á því sem hann er að gera og auki þar með færni sína.“

Við hverju má búast á námskeiðum þínum? ,,Ég kenni nemendum mínum á þeirra hraða. Margir hafa aldrei verið í myndlist áður á meðan aðrir voru í myndlist fyrir mörgum árum eða áratugum og vilja prófa aftur. Svo eru enn aðrir sem hafa verið mikið í myndlist en vilja prófa nýja nálgun eða nýjar aðferðir. Það er róleg stemning í tímunum hjá mér og ég aðstoða hvern og einn í að bæta sig með mismunandi aðferðum. Þetta hefur gengið mjög vel og margir hafa sótt nokkur mismunandi námskeið hjá mér,“ segir Jens Arne að lokum

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar