Kemur fram með nýtt sjónarhorn á Íslandssöguna

Í nýútkominni bók, Ingólfur Arnarson: Arfleifð hans og Íslandssagan í nýju, ljósi kemur Garðbæingurinn Árni Árnason fram með nýtt sjónarhorn á Íslandssöguna.

Í bókinni tekur hann tvær mikilvægar fullyrðingar til ítarlegrar skoðunar. Önnur er sú að fyrsti norræni landnámsmaðurinn, Ingólfur Arnarson, hafi sest að í Kvosinni í Reykjavík og þar hafi höfuðból hans verið. Hin fullyrðingin er sú að Flóki Vilgerðarson eigi heiðurinn af nafni Íslands og það tengist vatni í frosnu formi, ís. Niðurstaða hans er sú að hvorug þeirra standist gagnrýna skoðun.

Árni hefur búið í Garðabæ frá árinu 1984. Hann er kvæntur Jóhönnu Gunnlaugsdóttur, prófessor. Þau eig tvö börn og fjögur barnabörn. Þau búa öll í Garðabæ.

En hvað fær rekstrarhagfræðing til þess að takast á við sagnfræðilegt rannsóknarefni? Gefum Árna orðið um tildrög bókarinnar: ,,Föðurafi minn, Árni J. I. Árnason og næstu forfeður, bjuggu og störfuðu í Reykjavík. Fjölskyldan getur því rakið búsetu sína á Seltjarnarnesi aftur til 18. aldar en alnafni minn og forfaðir, Árni Árnason sem er víst langalangalangafi minn, var fæddur 1792 og bjó í Þingholti og síðar í Finnbogabæ í Reykjavík. Finnbogabær mun hafa verið þar sem nú er Grjótagata 10. Þá má nefna að Margrét langamma mín var fædd og uppalin á landnámsjörð Helga bjólu, Hofi á Kjalarnesi, þannig að fjölskyldan þekkir þennan landshluta í margar kynslóðir. Afi minn taldi vafasamt að Ingólfur hefði byggt bæ sinn í Kvosinni í Reykjavík, í Aðalstræti, þar sem var jörðin Vík ef hann gat valið úr bújörðum. Elstu heimildir nefna að Ingólfur hafi búið í Reykjarvík en það taldi afi minn ekki hafa verið bæjarnafn heldur víkina undan Kirkjusandi sem nær frá Laugarnesi að Héðinshöfða. Ef Ingólfur var fyrsti landnámsmaðurinn hefði hann mun frekar valið sér bústað í Laugarnesi. Faðir minn sagði mér þessa sögu þegar við ókum eftir Vesturgötunni á árinu 1991 og ég bað hann um að sýna mér hvar Austurbakki hefði staðið á sínum tíma en þar fæddust þeir faðir minn og afi. Í framhaldi af því ókum við síðan með sjónum út í Laugarnes.

Tilgátan um Laugarnes sem höfuðbólið

Faðir minn safnaði eldspýtustokkum sem strákur. Hann sagði mér í ökuferðinni að það hefði verið best til fanga að leita þeirra í fjörunni á Kirkjusandi. Ef öndvegissúlur Ingólfs flutu eins og eldspýtustokkarnir var líklegast að súlurnar hefði rekið þar á land. Og reykurinn, sem gaf Reykjarvík nafn, hvaðan kom hann? Sennilega þaðan sem vatn rann úr laugunum í Laugardal um Kirkjusand út í víkina Reykjarvík.
Þessa tilgátu sína hafði afi minn sent bæjarstjórn Reykjavíkur í bréfi dagsettu 14. apríl 1950. Þá hafði bæjarstjórnin leitað eftir áliti kunnáttumanna á því hvar þeir teldu að bæjarstæði Ingólfs hafi verið. Ökuferðin lauk á heimili foreldra minna. Þar afhenti faðir minn mér kalkipappírsafrit af bréfi afa míns og tók jafnframt af mér loforð að ég rannsakaði þessa tilgátu nánar þegar tími gæfist til. Sá tími kom um síðir. Í fyrstu átti þetta einungis að verða tímaritsgrein en þetta vatt upp á sig og endaði sem bók.

Í bókinni set ég fram tvær tilgátur sem ég rannsaka ítarlega. Önnur er sú að höfuðból Ingólfs Arnarsonar hafi verið í Laugarnesi. Eyjarnar Engey og Viðey hafi tilheyrt höfuðbólinu ásamt jörðunum Kleppi, Vatnsenda og Elliðavatni. Hin tilgátan er sú að nafn Íslands eigi sér sennilega gelískan uppruna. Sagan um Flóka Vilgerðarson, sé líklega seinni tíma skýring norrænna manna til þess að gera heiti landsins norrænt og þeim skiljanlegt. Ég tel að mér takist að setja fram haldgóð rök fyrir báðum þessum tilgátum í bókinni. Lesandinn verður að dæma um árangurinn.

Þessar tilgátur og margt annað í bókinni er í mótsögn við almæltan sannleik sem ungmennum okkar er ætlað að svara til um í námi sínu í Íslandssögu. Bókin kann því að breyta skilningi okkar á Íslandssögunni. Fólk, sem hefur áhuga á sagnfræði, mætti því gjarnan kynna sér efni hennar og taka það til málefnalegrar umræðu.”

Bókin er fáanleg í Hagkaupum í Garðabæ og í Bónus á Garðatorgi og í helstu bókaverslunum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar