Á laugardaginn kemur veljum við Íslendingar okkur þjóðhöfðingja, forseta. Margir frambjóðendur eru í kjöri með misjafnt erindi. Strax og Katrín Jakobsdóttir gaf kost á sér til embættis forseta ákvað ég að styðja hana. Verkefni forseta Íslands bæði hérlendis og erlendis eru mikilvæg og leggja verður áherslu á að sá sem kosinn verður hafi haldbæra reynslu, hæfileika og þekkingu til að takast á við þessi verkefni. Sem forsætisráðherra á undaförnum árum hefur Katrín tekist á við miklar áskoranir þ.e. að leiða saman ólík stjórnmálaöfl til að takast á við erfiðar og krefjandi aðstæður, s.s. COVID heimsfaraldur og eldsumbrot við Grindavík. Katrín hefur tekist á við allar þessar áskoranir af framsýni og æðruleysi og hlotið lof samstarfsfólks sín fyrir.
Á alþjóðavettvangi er Katrín vel kynnt og hefur aflað sér trausts þjóðarleiðtoga þeirra sem við viljum vera í samstarfi við. Við lifum á viðsjárverðum tímum í heimsmálum og má þar nefna ömurleg stríð í Úkraníu og á Gaza og hnignun lýðræðis sem birtist m.a. í uppgangi hægri popúlista og nýnasista í Evrópu og Bandaríkjunum. Á þessum tímum skiptir það máli að forseti Íslands hafi traust hér innanlands að tala fyrir lýðræði og mannréttindum. Jafnframt er það mikilvægt að forseti Íslands hafi burði til að tala sannfærandi fyrir þessum gildum við þjóðarleiðtoga annarra ríkja, bæði þeim sem við erum sammála og ósammála. Með störfum sínum og framkomu hefur Katrín sýnt að hún er best fallin til að takast á við þær mikilvægu áskoranir sem forseti Íslands þarf að fást við bæði hér á landi og á erlendri grund.
Þorsteinn Gunnarsson, fyrrv. Rektor Háskólans á Akureyri