Jónsmessugleði Grósku verður haldin í fjórtánda sinn laugardaginn 22. júní kl. 14-18. Að þessu sinni er hún með gjörbreyttu sniði því efnt verður til stórsýningar í Gróskusalnum og á Garðatorgi með fjölbreytilegum listaverkum eftir um 80 listamenn.
Jónsmessugleði er haldin að frumkvæði Grósku í samstarfi við Garðabæ og mun Almar Guðmundsson bæjarstjóri setja gleðina. Sýnendur eru myndlistarmenn í Grósku og gestalistamenn hvaðanæva af landinu.
Unnið er í ýmsum miðlum og sýningin teygir anga sína víða. Hún nær alla leið niður í undirgöngin við Aktu Taktu þar sem Lomek og félagar hafa málað skemmtilegt graffiti verk sem vonandi fær að lífga upp á göngin til framtíðar.
Jafnframt verða listamenn með opnar vinnustofur við Garðatorg, Artsupplies verslun býður upp á kynningu og vörur til sölu og fyrirtæki og verslanir við Garðatorg brydda upp á ýmsu óvæntu í tilefni opnunardagsins. Auk myndlistarveislunnar verða margvíslegir listviðburðir á dagskrá: Tónlist, söngur, dans, leiklist, gjörningar og fleira. Ýmsir listamenn koma fram og meðal þeirra eru ungmenni úr skapandi sumarstörfum Garðabæjar.

Jónsmessugleði stendur til og með 29. júní
Jónsmessugleði stendur til og með 29. júní og á meðan fylla listaverkin Gróskusalinn og Garðatorg. Sýningin í Gróskusalnum verður áfram opin klukkan 14-18 en sýning- in á torginu klukkan 8-19. Jafnframt er Auja (Auður Björnsdóttir) með sýninguna Happy Houses á Bókasafni Garðabæjar til júníloka sem einnig er opin klukkan 8-19.
Óhætt er að segja að Garðatorg iði af list og lífi þessa daga og fleiri viðburðir verða á dagskrá. Mánudaginn 24. júní klukkan 20-21.30 býður séra Friðrik Hjartar upp á fræðslugöngu með listrænu ívafi um miðbæ Garðabæjar og miðvikudaginn 26. júní klukkan 19-20.30 verður Anna C. Leplar með teiknismiðju á Garðatorgi.
Allir eru velkomnir á Jónsmessugleði Grósku og fólk er hvatt til að fjölmenna.
Fyrsta Jónsmessugleði var haldin í Garðabæ fyrir fimmtán árum og var Gróska, félag myndlistarmanna í Garðabæ, stofnað í framhaldi af því. Gróska er öflugt myndlistarfélag sem hefur fest sig í sessi í menningarlífi Garðabæjar með sýningum og öðrum menningarviðburðum.
Fylgist með á Facebook síðu Grósku:
https://www.facebook.com/groska210/
https://www.instagram.com/groskamyndlist/
