Jónsmessugleði Grósku aflýst – enginn samningur við Garðabæ

Að frumkvæði Grósku, félags myndlistarmanna í Garðabæ, hefur Jónsmessugleði verið haldin síðan 2009, alls þrettán sinnum, við Strandstíginn í Sjálandshverfi Garðabæjar. Þungamiðja Jónsmessugleði er umfangsmikil myndlistarsýning og ásamt henni hafa fjölbreyttir listviðburðir verið í boði. Í ár hefði átt að halda fjórtándu Jónsmessugleði Grósku en því miður fellur hún niður vegna þess að samningar hafa ekki tekist milli myndlist- arfélagsins og Garðabæjar. Gróska hefur skipulagt Jónsmessugleði með tilstyrk Garðabæjar og hefur viðburðurinn byggt á mikilvægu samstarfi milli myndlistarfélagsins og bæjarfélagsins.

Tilgangur Grósku er að efla myndlist og menningu í Garðabæ með myndlistarsýningum og listviðburðum. Að þessu hefur félagið unnið hörðum höndum í fjórtán ár og hefur löngu fest sig í sessi í menningarlífi Garðabæjar. Gróska hlaut meðal annars sérstaka viðurkenningu frá bæjarfélaginu árið 2019 fyrir merkt framlag til menningar og lista.

Um er að ræða áhugamannafélag sem samanstendur af fagmenntuðum og sjálfmenntuðum myndlistarmönnum því hugsjón Grósku er að leyfa öllum að blómstra í þeim tilgangi að efla myndlistina. Eina skilyrðið fyrir inngöngu er myndlistaráhugi og búseta eða vinna í Garðabæ. Þetta eru jafnframt frjáls félagasamtök og hefur öll hin mikla vinna Grósku verið unnin í sjálfboðaliðastarfi félagsmanna. Umfangsmiklu sýningahaldi og öðrum rekstri fylgir þó kostnaður og hefur Garðabær styrkt Grósku árlega til að standa straum af þessu, auk þess sem félagið hefur átt sér skjól í húsinu við Garðatorg 1 þar sem það hefur byggt upp Gróskusal, vandaðan sýningarsal. Hingað til hefur samstarfið milli Garðabæjar og Grósku verið gott enda hafa báðir aðilar talið það mjög mikilvægt.

Gróska vonar innilega að samningar takist þannig að félagið geti áfram unnið að eflingu myndlistar í Garðabæ. Þótt nú sé of seint að blása til Jónsmessugleði hefur félagið hug á að skipuleggja annan glæsilegan myndlistarviðburð í staðinn með haustinu og verður það vonandi hægt með endurnýjuðum samningi.

Bestu kveðjur fyrir hönd stjórnar Grósku.

Rúna K. Tetzschner

Skapandi sumarstörf á Jónsmessugleði Grósku
Hilmar Hjartarson harmonikkuleikari ásamt hluta af fjölskyldunni
Leikfélagið Draumar á Jónsmessugleði Grósku

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar