Jólaskógur í Smalaholti á laugardaginn kl. 11:30-15:00

Það er fátt jólalegra en að þramma um fallegan skóginn í leit að hinu eina sanna jólatré en á laugardaginn á milli kl 11:30-15 gefst fjölskyldum tækifæri til þess að mæta í Smalaholt í Garðabæ og höggva sitt eigið jólatré, sem sjálfboðaliðar Skógræktarfélagsins pakka í net.

Í Smalaholti er gott bílastæði, göngustígar um skóginn og útiborð til áningar. Boðið verður upp á kakó og piparkökur í skógarrjóðri við hlýjan varðeld. Í skóginum eru bæði fallegar furur og greni, en sama verð er á öllum jólatrjám óháð stærð, kr. 8.000. Upplögð fjölskyldustund í aðventunni.

Skógræktarfélagið ræktar íslensk tré án eiturúðunar og hefur þann kost umfram erlend tré að ekki fylgja með laumufarþegar erlendis frá sem geta skaðað íslenska flóru. Jólaskógurinn gegnir einnig hlutverki við grisjun skógarins en félagið gróðursetur mörg hundruð tré í stað þeirra sem felld eru. Þannig er lagður grunnur að jólaskógi framtíðarinnar.

Aðkoma að skóginum í Smalaholti er frá Elliðavatnsvegi norðan við Vífilsstaðavatn.

Verið hjartanlega velkomin.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar