Það er með mig, eins og ég held að gildi um okkur flest, að á aðventu rifja ég upp jól bernskuáranna. Hugur minn leitar til jóla barnæskunnar, þegar ég sé hvernig að börn okkar hjóna og barnabörn upplifa aðventuna, og ég rifja upp minningarnar og sögurnar sem mér voru sagðar þá.
Ég er svo heppinn að eiga ekki nema ljúfar minningar frá aðventunni en ég ólst upp á kærleiksríku heimili á Patreksfirði. Ég var yngstur í mínum systkinahópi og fékk að njóta mín sem slíkur. Ljúfasta æskuminningin frá aðventunni, sú sem mér þykir mest vænt um og ég geymi sem sjáaldur augna minna, er frá því ég var átta ára gamall. Þá sagði mamma við okkur systkinin: „Þið verðið að koma heim snemma fyrir myrkur í dag, því að klukkan fimm byrjar barnatíminn í útvarpinu og hún Lára amma, mamma mín, ætlar að lesa jólasögu.“ Auðvitað vorum við komin heim löngu fyrir fimm en það munaði litlu að ég hefði eyðilagt stemninguna fyrir systkinum mínum, með því að trufla söguna. Á þessum árum bjuggum við fyrir vestan og amma okkar fyrir sunnan og það var ekki mikið um ferðalög á milli. Þegar það var búið að kynna höfundinn, Frú Láru Ágústu Kolbeins sem ætlaði að lesa jólasöguna, þá langaði mig svo mikið til að sjá hana að ég reyndi að troðast á milli veggjar og útvarpstækis og var nærri búin að setja það á hliðina. Sagan sem hún las gerist um aldamótin 1900 og sögusviðið er eyjasamfélag á Íslandi, hún hljómar svona:
Kertið hennar mömmu
Það dimmir snemma á Þorláksmessu, þegar loftið er þungt af snjó, svo að hvergi sér í bláa rönd af himni, og svo var þennan dag. Sveinn í Bjarnarey var léttur í spori, þegar hann var að smala saman mönnum sínum til brottferðar. Það var ekki fljótlegt að finna þá í þorpinu, en nú vildi hann fara að komast af stað. Það var farið að skyggja, sjórinn úfinn og löng leið fyrir höndum, og heim vildi hann komast í kvöld. Konan ein heima með lasið barnið og lítið um glaðning til jólanna. Hann hafði lofað litlu stúlkunni að gefa henni kerti, og það vildi hann efna. En loks voru mennirnir fundnir, allt var tilbúið, bátnum var ýtt frá landi og undið upp segl.
Sveinn settist undir stýri, það var ágætt leiði og báturinn skreið drjúgum. Sjóinn þyngdi eftir því sem utar dró, það hvessti og snjóhvítar öldurnar steyptust yfir bátinn. Sveinn kreppti höndina fastar utan um stýrissveifina, nú var líf þeirra allra komið undir kröftum hans og ratvísi. Hann treysti sér til að finna eyjuna, og hann treysti guði og bátnum sínum. Erfiðast yrði að finna lendinguna með skerin beggja vegna við innsiglinguna, sem var beint fram undan bænum hans, þar sem konan beið með litlu stúlkunni sinni.
Heima hafði konan nóg að gera, hreinsa til í bænum og sinna kúnum, en nú var komið langt fram á kvöld. Hún settist á rúmið sitt með prjónana sína, litla stúlkan var sofnuð, en hún kveikti ekki, það þurft að spara olíuna. Hún bjóst ekki við Sveini með olíu fyrr en á morgun. Allt í einu vaknaði litla stúlkan og reis upp í rúminu. „Mamma, mamma,“ hrópaði hún, „kveiktu fljótt ljós, að er engill að koma til mín, kveiktu, kveiktu.“ Hún fór að gráta, henni fannst mamma ekki nógu fljót að ná í týruna og kveikja, og þegar mamma setti týruna á borðið, sagði hún: „Nei, settu það út í gluggann svo að engillinn sjái ljósið og rati til mín. En mamma mín, hefurðu ekki meira ljós? Kveiktu heldur á lampanum.“ „Það get ég ekki, elskan mín, lampinn er þurr og ég á enga olíu, nema þá sem er á týrunni.“ „Mamma, mamma, engillinn sér ekki svona lítið ljós, góða mamma, áttu ekkert sem þú getur kveikt á?“ Mamma var orðin hrædd við ákafann í litlu telpunni. Hún stóð upp og opnaði kistuna sína og tók upp stórt og fallegt kerti. „Sjáðu, elskan mín,“ sagði hún, „ég ætla að kveikja á þessu kerti og setja það út í gluggann, þá hlýtur engillinn að sjá ljósið. Svo skal ég segja þér sögu einmitt um þetta kerti.“
Mamma leit út um gluggann, allt kvöldið hafði verið stormur og kafald, en nú var að stytta upp. Hún settist á rúmstokkinn hjá telpunni og horfði á kertaljósið. „Ætlarðu að segja mér sögu, mamma mín?“ sagði litla stúlkan. Hún var orðin rólegri. „Sagan er ekki löng,“ sagði mamma. „Ég var lítið eldri en þú ert núna, aðeins níu ára og varð að fara að heiman frá mömmu minni. Við vorum fátæk og systkinin mörg. Ég var lánuð til snúninga til hjóna á næsta bæ. Þau voru ekki slæm við mig, en mér leiddist og langaði heim. Ég held að ég hafi aldrei farið að sofa ógrátandi. Tíminn leið og jólin voru að nálgast. Mig langaði að fara heim um jólin, en þorði ekki að nefna það. Svo á Þorláksmessu kom maður af næsta bæ. Hann var með böggul til mín og ég vissi strax, að hann var frá mömmu. Enginn annar myndi senda mér böggul. Ég ákvað að opna hann ekki fyrr en á aðfangadagskvöld. Ég sofnaði með böggulinn í fanginu. Og svo kvöldið eftir, þegar ég opnaði hann, voru í honum bryddir sauðskinnsskór og sokkar og svo einmitt þetta kerti. Þar var líka bréf frá mömmu, sem ég gat stafað mig fram úr. Ég man enn, hvað hún skrifaði: „Þú mátt muna það, elskan mín, að pabbi og mamma elska þig, og svo er einn enn, sem elskar þig, það er góður guð, sem er alltaf vakandi og verndar þig.“ Þetta jólakvöld vaknaði vonin og gleðin í hjarta mínu, en ég tímdi ekki að kveikja á kertinu mínu. Mér fannst, að á meðan ég ætti það, gæti ég fundið ást móður minnar og kærleika guðs. Og eftir þetta hætti mér að leiðast. Síðan hefur kertið alltaf fylgt mér, þetta kerti sem ég kveikti á núna til að hugga þig, litla stúlkan mín.“
„Þakka þér fyrir söguna, mamma mín. Nú veit ég að engillinn sér bæinn okkar,“ sagði litla stúlkan. En hvaða skrölt heyrðist neðan úr lendingunni? Gat það verið, að þeir væru komnir? Skömmu síðar heyrðist gengið um bæjardyrnar. Það var Sveinn, kaldur og votur. Það var gleði í augum hans og bros á vör, þegar hann heilsaði konu sinni og dóttur. „Þakka þér fyrir ljósið,“ sagði hann, „það bjargaði lífi okkar. Það vísaði okkur á vörina í myrkrinu, því að ég vissi að þetta var eini glugginn, sem snýr í þessa átt.“ „Það er litlu stúlkunni þinni að þakka og svo kertinu hennar mömmu,“ sagði kona hans. Sögulok.
Ljósið bægir myrkrinu frá
Á altarinu í kirkjunni stendur ljós, við innsiglinguna til hins almáttuga og til sonar hans. Ég vil hvetja ykkur sem þetta lesið til að kveikja á kertum fyrir ykkur sjálf, fyrir þau sem eru farin og fyrir þau sem eiga um sárt að binda um þessi jól. Það er aðeins eitt til sem getur bægt myrkrinu frá og það er ljósið. Kærleikurinn er í ljósinu og ljósið er kærleikurinn. Sjálfur hef ég upplifa það á ævi minni að sjá ekki jólin. Myrkrið helltist yfir mig, þegar mikið var tekið frá mér og konu minni. Við sáum ekki tilgang með jólunum, en áfallið gerðist á jólunum. Eftir tvö ár minnti móður mín mig á söguna sem amma mín flutti í útvarpinu og við lásum hana saman. Síðan þá hef ég verið í ljósinu og hef séð ljós jólanna.
Ég óska Garðbæingum öllum að hugrekki, hamingja og kærleikur verði með ykkur á þessum jólum og um framtíð alla. Gleðileg jól.
Ólafur Sæmundsson, sjálfboðaliði í sóknarnefnd Vídalínskirkju