Jólalegt salat með heitreyktri andabringu

Uppskrift vikunnar er í boði sérvöruverslunarinnar Me&MU á Garðatorgi, en í versluninni er hægt að fá mikið af sérvöldum og spennandi matvörum beint úr héraði, bæði hérlendis og erlendis. Þetta eru allt vörur frá smáframleiðendum sem leggja áherslu á gæði hráefnanna og að baki þessari framleiðslu liggur jafnan handverk.

Flestar matvörurnar sem eru í uppskriftunum frá Me&Mu fást í versluninni á Garðatorgi 1.

Eigendur Me&Mu eru þær Anna Júlíusdóttir og Sveinbjörg Jónsdóttir. Að þessu sinni bjóða þær upp á jólalegt salat með heitreyktri andabringu.

Uppskrift og hráefni

• 1 heitreykt andabringa, skorin í örþunnar sneiðar
• 100 gr. salatblanda, t.d. blanda af klettakáli, eikarlaufi og spínati
• 100 gr. hindber eða jarðarber
• 100 gr. bláber
• 4 gráfíkjur, þurrkaðar, skornar í þunnar sneiðar
• 4 döðlur, skornar í þunnar sneiðar
• 60 gr. fetaostur eða annar góður ostur í bitum
• 60 gr. pekan hnetur
• 1 msk. tamarin sósa

Krækiberjavinaigrette
1/2 dl ólífuolía
1 msk krækiberjaedik frá Bjálmholti 1 msk balsamic edik
2 msk aðalbláberjasulta
salt & pipar

Byrjið á að útbúa dressinguna. Setjið allt hráefnið í skál og þeytið saman með gaffli.
Ristið pekanhneturnar á heitri pönnu í nokkrar mínútur, gætið þess að standa yfir þeim allan tímann svo þær brenni ekki. Undir lokin hellið einni msk. af tamarin sósu út á pönnuna og hristið saman þar til sósan hefur þakið allar hneturnar og þornað á þeim. Kælið og saxið mjög gróft.

Raðið salatinu fallega á fat. Skerið andabringuna, gráfíkjur og döðlur í þunnar sneiðar og blandið fallega saman við salatið á fatinu. Raðið fersku berjunum yfir, myljið því næst ostinn yfir, stráið gróft söxuðum hnetunum yfir og dreifið loks krækiberjadressingunni yfir salatið.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar