Jóladrykkirnir slá í gegn og í ár bætist Jóla Fressó við

Jólahátíðin er framundan og það er ekki hægt að segja annað en að kaffihús Te&Kaffi séu komin jólabúningin enda jólaskreytingar komnar upp og matseðillinn hefur tekið breytingum og ber nú góðan keim af spennandi réttum í tilefni hátíðarinnar.

Te&Kaffi rekur fallegt kaffihús á Garðatorgi, þar sem gott er að setjast niður, stimpla sig út úr amstri dagsins og njóta einstaklega afslappaðs og notalegs andrúmslofts þar sem mjúkur kaffiilmur umvefur mann.

En það eru ekki eingöngu kaffihús Te&Kaffi sem taka breytingum yfir jólahátíðina því á hverju ári framleiðir Te&Kaffi sérstakt Jólakaffi sem fæst í öllum matvöruverslunum landsins og á kaffihúsunum að sjálfsögðu.

Eftirvænting eftir Jólakaffinu

Garðapósturinn spurði Halldór Guðmundsson framkvæmdastjóra kaffihúsa Te & Kaffi hvort það sé ávallt sami ilmurinn og bragðið af jóla- og hátíðarkaffinu eða kemur ný tegund á hverju ári? ,,Jólakaffiblandan er ávallt sú sama, það eru margir sem bíða spenntir eftir Jólakaffinu sínu og vilja það eins ár eftir ár,” segir hann.

Nú eru kaffihúsin ykkar komið í jólabúninginn – ber matseðillinn þess merki – bætist eitthvað við hann í tilefni jólahátíðarinnar? ,,Við komum ávallt með jóladrykki sem njóta mikilla vinsælda. Við komum alltaf með Grýlu, Leppalúða og Snæfinn á hverju ári en nú bættist Jóla Fressó við en það er mjög ferskur íste drykkur búinn til úr jólaglögg teinu okkar, kanil og lime.”

Og þið eruð farin að bjóða upp á nokkuð fjölbreyttan matseðil allt árið, eruð þið stöðugt að þróa hann og bæta við réttum? ,,Já, við erum í samstarfi við mörg frábær bakarí eins og Brikk, Nýja kökuhúsið og Gæðabakstur og við vinnum saman að vöruþróun á meðlætinu okkar og reynum að koma með nýjungar reglu-lega yfir árið,” segir Halldór.

Og kaffihúsamenningin er stöðugt að verða sterkari hérlendis – Íslendingar eru í auknum mæli farnir að stunda kaffihúsin? ,,Já, kaffihús eru almennt að verða vinsælli og vinsælli, við reynum að skapa notalegt andrúmsloft sem fólk sækir í.”

Flestir mjög vanafastir

En halda Íslendingar ekki svolítið fast í sinn kaffidrykk, breyta lítið út af vana eða eru þeir tilbúnir að fá sér einn hátíðarbolla út af stemmningunni? ,,Flestir eru vanafastir þegar kemur að sínum kaffidrykk en þó tilbúnir að smakka eitthvað nýtt eins og árstíðabundnu drykkina.”

Svo er alltaf spennandi að vita hver sé vinsælasti kaffibollinn á Te&Kaffi?
,,Cappuccino er vinsælasti drykkurinn á kaffihúsunum okkar. En svo eru árstíðabundnu drykkirnir alltaf vinsælir. Núna eru jóldrykkirnir að slá í gegn.”

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar