Nú fer í hönd dásamlegur tími fyrir alla sanna bókaunnendur þegar jólabókaflóðið stendur sem hæst og yljar líkt og jólaljósin í dimmasta skammdeginu. Það er mikill spenningur á Bókasafni Garðabæjar og leggur starfsfólkið sig fram við að bjóða bæjarbúum upp á gott úrval af glænýjum, heitum bókum og upplestra valinkunnra rithöfunda fyrir börn og fullorðna. Margir áhugaverðir viðburðir eru framundan á bókasafninu.
Ljúf jólasögustund fyrir börn verður laugardaginn 23. nóvember kl. 13. Þá munu hinir vinsælu rithöfundar Kristín Helga Gunnarsdóttir og Hjalti Halldórsson spjalla við börnin og lesa úr nýútgefnum bókum sínum. Kristín Helga les úr bókunum Fíasól í logandi vandræðum, sem segir frá því að hjálparsveit Fíusólar stendur í stórræðum og Obbuló í Kósímó: vinirnir, þar sem ýmsum lífsspurningum er velt upp með hinum skemmtilega hætti íbúanna í Kósímó. Hjalti les úr bókinni Hinn eini sanni jólasveinn, sem fjallar um jólympíuleika jólasveinanna en þeir eru látnir keppa í alls konar jólaþrautum í þeirri von að þeir hætti að rífast og jólaandinn svífi aftur yfir vötnunum.
Hið árlega Jólabókaspjall bókasafnsins verður með hefðbundnu sniði fimmtudaginn 28. nóvember kl. 20 og opnar húsið kl. 19:30. Þeir rithöfundar sem mæta til leiks eru Nanna Rögnvaldardóttir, Halldór Armand og Jóhanna Jónas, en Brynhildur Björnsdóttir stýrir spjallinu. Í boði er upplestur, umræður, léttar veitingar, huggulegheit og jólaljós.
Jóhanna Jónas les úr bók sinni Frá Hollywood til heilunar sem hún skrifaði ásamt Guðnýju Þórunni Magnúsdóttur og er áhrifamikil frásögn af lífshlaupi Jóhönnu, sem ung að árum þurfti að kljást við ótal erfiðar áskoranir og áföll. Nanna Rögnvaldardóttir les úr bók sinni Þegar sannleikurinn sefur sem er leyndardómsfull glæpasaga þar sem dregin er upp ljóslifandi mynd af samfélagi 18.aldar sem er markað af erfiðleikum, skelfilegu mannfalli og flækjum. Halldór Armand les úr bók sinni Mikilvægt rusl, sem er bráðfyndin og grípandi ástar- og spennusaga sem leiðir söguhetjurnar inn í meiriháttar samsæri sem teygir anga sína upp í efstu lög íslensks samfélags.
Á aðventu verða ýmsir viðburðir á dagskrá fyrir alla fjölskylduna og má þar nefna listasmiðju og jólaleikrit á aðventuhátíð Garðabæjar, Jólasögu- og söngstund með Þórönnu Gunný, upplestur Birgittu Haukdal úr Lárubókum og jólaföndur. Eins er notalegt að eiga rólega stund í amstri dagsins í jóla- og kaffihorni safnsins og glugga í blöð og bækur og fyrir börnin að upplifa í barnadeildinni. Nýju bækurnar rjúka auðvitað út eins og heitar lummur en lánþegar geta tryggt sér eintak með því að leggja inn pöntun.
Allar upplýsingar um viðburði er að finna á samfélagsmiðlum og heimasíðu bókasafnsins.