Jazzhátíð Garðabæjar í 15 skipti

Á sumardaginn fyrsta, 22. apríl, hefst Jazzhátíð Garðabæjar en þetta er í 15 skipti sem hátíðin er haldin. Í fyrra féll hátíðin niður en listrænn stjórnandi hátíðarinnar, Sigurður Flosason, tók þá ákvörðun í samráði við menningarfulltrúa Garðabæjar að hátíðin færi fram með beinu streymi frá Tónlistarskóla Garðabæjar að þessu sinni í fyrsta skipti.

Sigurður Flosason, sem var valinn lagahöfundur ársins í flokki djass- og blústónlistar á Íslensku tónlistarverðlaununum 2021, sem fram fóru í Silfurbergi Hörpu sl. laugardag, var tekinn tali og spurður út í dagskrá hátíðarinnar. „Ég lagði upp með að hátíðin yrði sérlega vegleg í þetta sinn enda ekki auðvelt að sætta sig við að ekki hafi orðið af hátiðinni í fyrra. Ég fékk því fullt af flottu fólki til liðs við mig til að koma fram á alls fernum tónleikum. Við Ólöf menningarfulltrúi vorum margoft búin að vera svo bjartsýn að við ætluðum að halda tónleika á nokkrum stöðum með áhorfendum. Svo fór hinsvegar að við ákváðum að streyma tónleikum frá Tónlistarskóla Garðabæjar og bjóða fólki að njóta í rólegheitum og öryggi á sínu eigin heimili,“ segir Sigurður og bætir við: „Sóttvarnarreglur leyfa okkur ekki að bjóða gestum í sal Tónlistarskólans og óvissuþættirnir hafa verið það margir að við vorum sammála um að fresta ekki aftur og streyma frekar jafnvel þó að við vitum ekki hvað næstu vikur eða dagar bera í skauti sér.”

Sálargæslan og gestir koma fram 22. apríl

Fyrstu tónleikarnir fara fram þann 22. apríl klukkan 20:00 og verður streymt beint frá fésbókarsíðu Garðabæjar. Fram koma Sálgæslan og gestir hennar en það eru Sigurður Flosason sjálfur sem leikur á saxófón, Þórir Baldursson á Hammondorgel, Andrés Þór Gunnlaugsson á gítar og trommuleikarinn knái Einar Scheving. Með sveitinni syngja þau Andrea Gylfadóttir, KK, Jógvan Hansen og Rebekka Blöndal. Flutt verða lög og textar Sigurðar Flosasonar af plötunni Blásýru sem kom út fyrir síðustu jól og verður án efa stemning á sviðinu sem skilar sér heim í stofu til fólks. Eins og áður segir tók tók Sigurður við Íslensku tónlistarverðlaununum sem lagahöfundur ársins fyrir plötuna Blásýru þann 17. apríl sl.

Föstudagskvöldið 23. apríl kl. 20 leikur Kvintett Jóels Pálssonar lög af plötunni Horn sem kom út fyrir 10 árum en Jóel var tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs fyrir verk sín á plötunni en með Jóel leika Ari Bragi Kárason trompetleikari, Eyþór Gunnarsson og Tómas Jónsson á píanó og Einar Scheving á trommur.

Á laugardeginum, 24. apríl fara fram tvennir tónleikar, aðrir kl. 15 en hinir kl. 20 og þar með lýkur Jazzhátíð Garðabæjar 2021. Á tónleikunum sem verður streymt kl. 15 verður leikinn nútímalegur jazz sem er undir áhrifum frá austrænni heimstónlist en það eru Sigmar Þór Matthíasson kontrabassaleikari og Haukur Gröndal klarinettuleikari, Ásgeir Ásgeirsson sem leikur á oud, Ingi Bjarni Skúlason á píanó auk Matthíasar Hemstock trommuleikara.

Lokatónleikarnir kl. 20 þann 24. apríl eru með sveitinni ADHD en það eru bræðurnir Óskar og Ómar Guðjónssynir sem leika ásamt Tómasi Jónssyni á Hammond orgel og Magnúsi Tryggvasyni Eliassen á trommur.

Jazzhátíð Garðabæjar lifir Covid
Óhætt er að búast við glæsilegri og fjölbreyttri dagskrá sem fólk getur notið í rólegheitum heima og nú er tryggt með samstarfssamningi milli Garðabæjar og Sigurðar Flosasonar að Jazzhátíð Garðabæjar lifir áfram. „Fyrst Jazzhátíð Garðabæjar lifir Covid af þá eru okkur allir vegir færir,“ segir Sigurður Flosason borsandi að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar