Íþróttavika Evrópu

Íþróttavika Evrópu verður haldin 23.-30. september næstkomandi en markmið hennar er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna við auknu hreyfingarleysi meðal almennings. Vikan er ætluð fólki á öllum aldri óháð bakgrunni eða líkamlegu ástandi. Íbúar Evrópu eru hvattir til að sameinast undir slagorðinu #BeActive (VerumVirk) til þess að hreyfa sig oftar og meira í daglegu lífi.

Garðabær er þátttakandi í íþróttaviku Evrópu og hvetur íbúa sína til að taka virkan þátt og kynna sér nánar þá fjölbreyttu aðstöðu og framboð íþrótta og hreyfingar sem er að finna í bænum.

Sundlaugar Garðabæjar
Tvær almenningssundlaugar eru í Garðabæ, ein á íþróttasvæðinu í Ásgarði og önnur á Álftanesi. Sundlaugin í Ásgarði er opin mánudaga til föstudaga frá 06:30-22:00 en frá 08:00-18:00 laugardaga og sunnudaga. Á Álftanesi er laugin opin frá 06:30-21:00 en 09:00-18:00 um helgar. Auk tveggja almenningssundlauga eru þrjár innilaugar í Garðabæ fyrir flot, vatnsleikfimi, ungbarnasund, meðgöngusund, skólasund, Zumba o.fl. Þær eru staðsettar í íþróttamiðstöðinni Mýrinni, Sjálandsskóla og á Álftanesi.

Útivist í landi Garðabæjar
Víða í bænum eru svæði sem eru opin almenningi til líkamsræktar og útivistar. Í Heiðmörk eru fjölmargar merktar hjóla- og gönguleiðir, auk reiðstíga sem hestamenn geta nýtt til útreiðar. Um bæinn liggja fjölmargir göngu- og hjólastígar en íbúar geta hlaðið niður Wapp-appinu í síma sína og fengið leiðsögn um stígana sér að kostnaðarlausu.

Hreystivelli má finna við Arnarneslæk, Bæjargarðinn við Hraunholtslæk, Sunnuflöt, á Álftanesi og í Vinagarði í Urriðaholti. Í Bæjargarði og Vinagarði eru einnig leiktæki, sparkvellir og sandblaksvöllur. Fjöldi spark- og leikvalla er í Garðabæ sem opnir eru almenningi. Við Vífilsstaði er níu holu frisbígolfvöllur sem stendur til að stækka í 18 holur á komandi misseri.

Fjórir golfvellir eru í Garðabæ, þ.e. Leirdalsvöllur (GKG), Urriðavöllur (Golfklúbburinn Oddur), Álftanes (GÁ) og Setbergsvöllur.

Brettapallar eru við Sjáland og Álftanesvöll og í Lundahverfi er BMX-hjólabraut sem hjólreiðagarpar geta nýtt til æfinga og gleði.

Vífilsstaðavatn er náttúruperla í bænum en umhverfis vatnið er prýðisstígur sem íbúar geta nýtt til göngu, hlaupa eða hjólreiða. Einnig er mögulegt að ganga í kringum Urriðavatn og tjarnir Álftaness sem bjóða upp einstaka útivist og náttúru. Ef veður eru válynd er hægt að nýta innanhúss göngubraut í Miðgarði.

Frábært framboð frjálsra félaga
Frjálsu félögin í bænum halda úti frábæru starfi fyrir almenning í Garðabæ. Félögin hafa afnot af íþróttamannvirkjum í Garðabæ eins og íþróttamiðstöðvunum í Ásgarði, Miðgarði, Mýrinni og Breiðumýri á Álftanesi. Einnig er íþróttahús í Sjálandsskóla og bátarampur við hlið hans sem nýst getur til siglinga.

Ungmennafélagið Stjarnan heldur úti almenningsíþróttadeild sem býður upp á hlaupahópa, líkamsræktarhópa B&Ó, vatnsleikfimi, ungbarnasund, meðgönguvatnsleikfimi, lyftingar o.s.frv.

Ungmennafélag Álftaness heldur úti hlaupa- og blakhópum auk þess sem áhugamönnum býðst sá möguleiki að æfa með svokölluðum „bumbubolta“ í körfu- og fótbolta.

Golfklúbbarnir þrír, GKG, Oddur og Golfklúbbur Álftaness halda úti blómlegu starfi og það gera hestamannafélögin tvö líka, Sprettur á Kjóavöllum og Sóti á Álftanesi.

Krummar BMX, nýstofnaður hjólaklúbbur í bænum, hefur aðstöðu í Lundahverfi og Siglingaklúbburinn Vogur við Sjáland. Júdófélag Garðabæjar æfir í Sjálandsskóla og Karatefélag Garðabæjar í Ásgarði. Þá er starfandi Taflfélag í Garðabæ og Tennisfélag Garðabæjar sem æfir í Tennishöll Kópavogs.

Félag eldri borgara í Garðabæ er með glæsilega dagskrá þar sem félagsmönnum býðst að sækja hópatíma í göngu, stóla-jóga, línudansi, Qi-Gong, boccia, Zumba og svo mætti lengi telja. Einnig stendur Janus-heilsuefling fyrir frábæru starfi og líkamsrækt fyrir eldri borgara í samstarfi við félagið. Félag eldri borgara á Álftanesi býður félagsmönnum sínum upp á gönguhópa og sundleikfimi í Álftanesslaug. Eldri borgarar eru sérstaklega hvattir til að kynna sér starfsemi félaganna.

Fleiri félög vinna gott og mikilvægt starf í bænum okkar en Íþrótta- og tómstundaráð hvetur Garðbæinga til að kynna sér þau námskeið og úrval hreyfingar sem frjálsu félögin hafa uppá að bjóða í bænum.

Verum virk!

Garðbæingar! Tökum áskorun um aukna hreyfingu fagnandi og verum virk í íþróttaviku Evrópu dagana 23.-30. september 2023. Sýnum að Garðabær er heilsueflandi íþróttasamfélag sem lætur sér annt um andlega og líkamlega heilsu!

Hrannar Bragi Eyjólfsson, formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar og bæjarfulltrúi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar