Íþrótta- og tómstundaráð óskar eftir ábendingum frá bæjarbúum vegna rýmis í Miðgarði

Fjölnota íþróttahúsið Miðgarður var tekið í notkun snemma árs 2022 og hafa frjálsu félögin í bænum getað nýtt íþróttaaðstöðu í fremstu röð frá opnun þess. Enn á þó eftir að ráðstafa tveimur hæðum sem liggja sunnan megin í húsinu sem hvor um sig er um 1.500 fermetrar að stærð.
Íþrótta- og tómstundaráði falið að móta tillögur um ráðstöfun rýmis
Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti á fundi sínum 18. ágúst sl. að fela íþrótta- og tómstundaráði að hefja vinnu við skipulagningu á óráðstafaða rýminu í hinu nýja fjölnota íþróttahúsi Garðbæinga, Miðgarði.

Hrannar Bragi Eyjólfsson bæjarfulltrúi og formaður íþrótta- og tómstundaráðs

Í greinargerð með tillögunni var því sérstaklega beint til ráðsins að hafa það til hliðsjónar að rýmið nýtist sem flestum Garðbæingum og styðji við þá fjölbreyttu flóru íþrótta- og heilsutengdrar starfsemi sem fyrirfinnst í Garðabæ. Þannig skal ráðið horfa til þess að rýmið nýtist æskulýðsstarfi, almenningsíþróttum, heilsutengdum forvörnum og félagsstarfi eldri borgara. Liður í þessari nálgun er að einnig verði horft sérstaklega til þess að mæta ólíkum hópum, jafnt keppnis- og afreksíþróttum, fólki með fötlun sem og annarri ástundun og/eða hreyfingu.

Bæjarstjórn beindi því einnig að ráðinu að það skuli stefna að því að fjölbreytt heilsutengd starfsemi verði starfrækt í rýminu. Í því samhengi skal sérstaklega líta til þess að sjálfstætt starfandi aðilar, sem og frjálsu félögin í bænum, geti hafið rekstur á starfsemi sem nýtist sem flestum Garðbæingum.

Meginmarkmiðið er að Miðgarður verði miðstöð lýðheilsu og mannlífs þar sem ungir sem eldri iðka hreyfingu, foreldrar fylgja börnum sínum á æfingar og allir njóti góðrar aðstöðu til samveru.
Víðtækt samráð – óskað eftir ábendingum íbúa

Íþrótta- og tómstundaráð stefnir að því að vinna málið í góðu samráði við aðrar nefndir á vegum bæjarins, frjálsu félögin í bænum og íbúa Garðabæjar. Ráðið hefur það að markmiði að breið samstaða náist um heildarnýtingu rýmisins, sem fellur að meginmarkmiðinu um að Miðgarður verði miðstöð fyrir samveru fjölskyldunnar, margs konar heilsueflingu og íþróttastarfsemi.

Búið er að innrétta rýmir á jarðhæðinni en þar er meðal annars þessi glæsiega lyftingaaðstaða og þar mun Lyftingadeild Stjörnunnar m.a. hafa aðstöðu auk annarra iðkenda Stjörnunnar og UMFÁ

Íþrótta- og tómstundaráð óskar nú eftir ábendingum frá íbúum um hvernig ráðstafa megi rýminu þannig að það nýtist sem flestum Garðbæingum, bæði ungum og öldnum, fötluðum og ófötluðum. Frá og með deginum í dag, 14. september 2022, opnar samráðsgátt fyrir íbúa í gegnum vef Garðabæjar, gardabaer.is, þar sem íbúar Garðabæjar geta skráð sig inn með rafrænum skilríkjum, sett inn hugmynd sem rúmast innan þess ramma sem ofangreind tillaga og greinargerð hefur sett utan um rýmið í Miðgarði. Einnig geta íbúar skrifað athugasemd undir framkomnar hugmyndir, sett inn rök með eða á móti eða gefið til kynna að þeir styðji hugmynd með því að líka við hana. Á vef Garðabæjar, gardabaer.is, er hægt að sjá nánari upplýsingar um samráðið og þar er hlekkur yfir á samráðsgáttina.

Samráðsgáttin verður opin til og með 2. október 2022 en þá mun íþrótta- og tómstundaráð Garðabæjar vinna úr hugmyndunum og hafa þær til hliðsjónar við mótun þeirra tillagna sem ráðinu er ætlað að skila til bæjarstjórnar í vetur.

Ég hvet sem flesta til þess að fara inn á samráðsgáttina, setja inn hugmynd eða rýna í framkomnar hugmyndir til gagns. Með virkri þátttöku íbúa er líklegra að Miðgarður verði sannarlega sú miðstöð sem við stefnum að – íþrótta- og lýðheilsumiðstöð allra Garðbæinga.

Hrannar Bragi Eyjólfsson
bæjarfulltrúi og formaður íþrótta- og tómstundaráðs

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar