Garðbæingurinn Arndís Sigurðardóttir Genualdo fagnar 100 ára afmæli í dag, en hún fæddist 21. nóvember 1924.
Arndís fluttist til Bandaríkjanna árið 1961, en flutti heim árið 2003 og hefur verið búsett í sinni eigin íbúð í Sjálandi í Garðabæ síðan 2004. Fimm barna hennar og 5 barnabörn, sem búsett eru í USA, verða viðstödd afmæli móður sinnar og ömmu í Sjálandi í dag ásamt Láru dóttur hennar sem býr einnig í Sjálandi, í íbúð við hliðina á móður sinni. Barnabörn Arndísar eru 15 og langömmubörn 14. Helsta áhugamál Arndísar er lestur bóka á Kindle og þá helst spennusögur með rómantísku ívafi.
Arndísi Sigurðardóttur Genualdo
Arndís fæddist á Ísafirði 21.11.1924 og flutti árið 1930 til Reykjavíkur ásamt foreldrum sínum, Rögnu Pétursdóttur f.14.8.1904, d. 21.11.1955 húsfreyju og Sigurði Kristjánssyni alþingismanni og forstjóra f. 14.4.1885, d. 27.5.1968 og bjó fjölskyldan lengst af í Vonarstræti 2, Reykjavík. Arndís var tvígift, fyrri maður hennar var Guðmundur Kjartan Runólfsson f.20.6.1920, d.27.10.2002. Þau skildu. Börn þeirra eru Lára og Sigurður Ragnar. Seinni maður hennar var Lawrence Genualdo f. 22.7.1920, d. 3.7.2000. Þau skildu. Börn þeirra eru Ciretta, Lawrence, Anthony, Michael og Henry sem er látinn. Barnabörn eru 15 og langömmubörn 14. Arndís fluttist til Bandaríkjanna árið 1961 ásamt seinni eiginmanni og börnum og bjó þar í 42 ár en flutti alkomin til Íslands árið 2003 og hefur verið búsett í Garðabæ s.l. 20 ár í eigin íbúð. Fimm barna hennar og 5 barnabörn, sem búsett eru í USA, verða viðstödd afmæli móður sinnar og ömmu í dag.
Spennusögur með rómantísku ívafi í uppáhaldi
Helsta áhugamál Arndísar er lestur bóka á Kindle og þá helst spennusögur með rómantísku ívafi. Það kemur sér vel að geta stækkað letrið og ljós er í tækinu þar sem hún hefur minnkandi sjón vegna augnbotnahrörnunar.
Mitt líf kemur út með stóran plús
Arndís sagði í viðtali við Morgunblaðið árið 2019, í tilefni að 95 ára afmæli sínu: „Maður verður að meta það jákvæða á móti hinu neikvæða og í mínu lífi er það jákvæða langt yfir hinu neikvæða. Sem sagt mitt líf kemur út með stóran plús. Fyrst er það góð heilsa, svo barnalán, frábær æska með bestu foreldrum sem gefast. Að alast upp á menningarheimili, fullt af bókum, umræður við matarborðið um allt sem skiptir máli, heimsmál, viðburði, pólitík, vandamál útgerða, innlend sem erlend stjórnmál. Þetta hefur verið mér sem lífsföruneyti alla ævi.“
Við óskum Arndísi hjartanlega til hamingju með þennan stóra áfanga.
Forsíðumynd. Arndís þriðja frá vinstri ásamt systrum sínum á dóttur sinni Láru (l.t.h) á Þingvöllum.