Framúrskarandi þjónusta fyrir alla í Garðabæ

Inga Rós Reynisdóttir heiti ég 33. ára íbúi í Urriðaholtinu, þar bý ég með Arnari Dóra Ásgeirssyni og 4 börnum okkar á aldrinum 2-12 ára. Ég ólst upp og hef búið lengst af ævinni í Garðabænum, lauk stúdentsprófi frá FG og síðar Viðskiptafræði og meistaragráðu í reikningshaldi og endurskoðun frá HR. Ég vann hjá Deloitte í áhætturáðgjöf í 5 ár þar sem innri endurskoðun og gerð staðfestinga skýrsla voru mín helstu sérsvið. Nú starfa ég sem viðskiptastjóri verslana og veitinga á Keflavíkurflugvelli.

Fræðsla og forvarnir 

„Það þarf heilt samfélag til að ala upp barn“. Ég kann vel við þessa setningu, það þarf nefnilega heilt samfélag til þess að ala upp barn, foreldrar, ömmur, afar, frænkur, frændur og jafnvel nágranninn eru dæmi um uppalendur í bland við samfélagið, leik- grunn- og menntaskóli, íþróttaiðkun, tónlista- og listaskólar, samkomustaðir á borð við sundlaugar, kirkjur, heilsugæslu og svo mætti lengi telja. Allir þessir staðir gegna miklu hlutverki í að móta einstaklinga og hefur oft á tíðum mikil áhrif á uppvöxt barna og unglinga. Því ætti fræðsla og forvarnir að vera efld í hvívetna á öllum þessum stöðum. 

Félagsmiðstöð fyrir alla

Ég vil efla félagsstarf í Garðabæ fyrir allan aldur. Tryggja öllum grunnskólabörnum virkt félagsstarf frá 4. bekk, opna ungviða hús fyrir ungmennin okkar og tryggja að allir þeir sem óska eftir félagsstarfi geti leitað í slíkt í Garðabænum. Félagsmiðstöð gegnir jú lykilhlutverki í fræðslu og forvörnum hjá ungu fólki sem er að mótast í lífinu. Óháð aldri þá erum við öll félagsverur og því tel ég tækifæri á að félagsstarf sé einnig í boði óháð aldri, eldra fólk getur kennt ungviðinum okkar og öfugt. 

Góð næring grunnur alls lærdóms

Í grunnskólum Garðabæjar fá börnin góða menntun, kannanir hafa sýnt að foreldrar eru almennt ánægðir. Umgjörð næringu barnanna okkar hafa þó bæði börnin og foreldrar viljað efla. Ég vil að öll grunnskólabörn fái aðgang að hafragraut á morgnanna og ávöxtum á nestistíma, endurgjaldslaust. Það er virði fyrir börnin og fjölskylduna, tímasparnaður, lægri kostnaður ásamt samræmingu milli systkina í grunn- og leikskólum. Börnin okkar eiga skilið að fá hollan, næringaríkan og góðan mat, í öll mál.

Tryggjum öllum börnum leikskólapláss við 12 mánaða

Það er mikið virði fyrir foreldra og börn að fá leikskólapláss við 12 mánaða aldur. Garðabær glímir við starfsmannavanda í ört stækkandi sveitarfélagi. Það þarf að hugsa hlutina upp á nýtt og fara í kerfisbreytingar, fyrsta verkefnið er að gera starfsumhverfi leikskólastarfsmanna betra, til þess þurfa kjörnir fulltrúar að skilja þarfir leikskólastarfsmanna. Einnig væri æskilegt að skoða innleiðingu á hvatakerfi fyrir fjölskyldur sem þurfa minni vistun fyrir börnin sín.

Þegar upp er staðið skipta innviðir miklu máli, jafnvel höfuð máli til að ala upp og móta einstakling, við sem samfélag getum sparað mikla fjármuni, veitt foreldrum og börnum mikið virði, minnkað ágreining, einelti og félagslega einangrun með virku félagsstarfi, góðum innviðum og stöðugri fræðslu og forvörnum.

Inga Rós Reynisdóttir óskar eftir stuðningi í 6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar