IKEA vill stækka í Kauptúni

Á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar í síðustu viku mættu Aðalsteinn Snorrason og Edda Einarsdóttir arkitektar hjá Arkís og Þráinn Hauksson landslagsarkitekt hjá Landslagi og kynntu þau tillögu að breytingu deiliskipulags Kauptúns, sem gerir ráð fyrir stækkun lóðar IKEA í Kauptún 4 til vesturs ásamt stækkun byggingarreits.

Lóðin stækkar til vesturs um 16.866 m2, er fyrir breytingu 56.403 m2 en verður 73.269 m2 eftir breytingu. Hámarksbyggingarmagn á lóð eykst úr 22.500 í 35.000 m2.

Fjöldi bílastæða eykst í samræmi við bílastæðakröfu deiliskipulagsins sem 1 stæði fyrir hverja 30 m2. Heimilt verður að áfangaskipta uppbyggingu bílastæða í samræmi við bíla-stæðaþörf.

Tillagan er í samræmi við ákvæði Aðalskipulags Garðabæjar 2016-2030.
Jákvæð umsögn Urriðaholts ehf og rekstrarfélags Kauptúns um breytingartillöguna liggur fyrir og hefur tillagan verið kynnt fyrir Vegagerðinni.

Skipulagsnefnd vísar nú tillögunni til auglýsingar í samræmi við 1. mgr. 43. gr. og 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar