Iðandi mannlíf á Rökkvunni – Rökkvan haldin í þriðja sinn þann 12. október á Garðatorgi

Laugardaginn 12. október mun göngugata Garðatorgs iða af lífi þegar listahátíðin Rökkvan verður haldin í þriðja sinn. Hátíðin fór fyrst fram árið 2021 en hún er stofnuð af ungu listafólki í Garðabæ. „Ég er svo óendanlega stoltur af því að fá að taka þátt í þessu verkefni,“ segir Einar Örn Magnússon, einn af listrænum stjórnendum hátíðarinnar, og bætir við: „Það er svo mikilvægt fyrir ungt listafólk að hafa vettvang í nærumhverfi sínu eins og þennan til að koma sér á framfæri.“

Stórtónleikar hefjast á Garðatorgi kl. 19:30

Á Rökkvunni má sjá fjölbreytta flóru listafólks. Myndlist, handverk, dans og tónlist er meðal þess sem gestir mega búast við á hátíðinni í ár. Tónlist er þó kjarni Rökkvunnar, en hátíðin nær hápunkti sínum á stórtónleikum sem byrja klukkan 19:30 í glerhýsinu á Garðatorgi. Þar koma fram Kusk og Óviti, KK, JóiPé og GDRN.

KK kemur fram á stórtónleikunum

Handverks- og listamarkaður

Að auki verður handverks- og listamarkaður Rökkvunnar reistur í glerhýsinu og eru gestir hvattir til að styðja við listafólkið sem selur varninginn sinn á markaðnum. „Markaðurinn hefur verið hluti af Rökkvunni frá upphafi og er stór hluti hátíðarinnar,“ segir Einar.

Gaman að sjá hvað unga fólkið í Garðabæ er að skapa

Myndlistarmennirnir JóiP og Íris Eva verða svo með sýningu í Gróskusal og verður án efa mjög gaman að sjá hvað unga fólkið í Garðabæ er að skapa. Það er svo einstaklega gaman að verslanir á Garðatorgi taka þátt í Rökkvunni með kvöldopnun og alveg ljóst að Garðbæingar standa með sínu fólki!

Forsíðumynd: Hin magnaða söngkona GDRN mun stíga á svið á Rökkvunni

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar