Garðabær bera höfuð og herðar yfir nágrannasveitarfélögin á höfuborgarsvæðinu þegar kemur að hlutfallslegri fjölgun íbúa á tímabilinu frá 1. desember 2023 til 1. ágúst 2024 samkvæmt Þjóðskrá.
Íbúum í Garðabæ fjölgaði um 3,5% á þessu átta mánaða tímabili eða um 691 íbúa. Þar á eftir kemur Hafnarfjarðarkaupstaður og Mosfellsbær með fjölgun íbúa upp á 2,3%, en í Hafnarfirði fjölgaði íbúum um 717 og í Mosfellsbæ um 323. Minnsta fjölgunin var á Seltjarnarnesi þar sem íbúum fjölgaði um 0,6% eða um 30 íbúa. Íbúum Reykjavíkurborgar fjölgaði um 2.149 íbúa á tímabilinu, eða um 1,5% og íbúum Kópavogsbæjar fjölgaði á sama tímabili um 715 íbúa, eða 1,8%.
Samkvæmt Þjóðskrá bjuggu 20.185 íbúar í Garðabæ þann 1. ágúst sl., en fyrir um fimm árum síðan, þann1. desember 2019, voru íbúar í Garðabæ 16.924 talsins. Þeim hefur því fjölgað um 3.261 á þessum tímabili.
Garðabær í forystusætinu er kemur að uppbygginu
Það má reikna með að Garðabær muni halda forystusætinu áfram á næstu mánuðum og jafnvel árum þar sem mikil uppbygging á sér stað í bæjarfélaginu eins og greint verður frá í Garðapóstinum í næstu viku.
Þessar tölur eru byggðar á skráningu Þjóðskrár á fjölda einstaklinga sem eru skráðir með búsetu hér á landi.
Mynd: Framkvæmdir í Hnoðraholti eru komnar á fullt og mikil uppbygging framundan